04.12.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

86. mál, iðnaðarstefna

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt, að hv. 4. þm. Reykv. bryddi hér upp á því málefni sem hann fjallaði um þegar hann talaði um þingsköp, því að það er óvenjulegt, svo að ekki sé meira sagt, að ríkisstj. standi að þáltill. um svo viðamikið efni eins og hér er til umr. Hans mál er þess vegna vissulega umhugsunarefni og þess virði, að það sé rætt sérstaklega vegna fordæmisgildisins.

Um það hins vegar, hvort umræður um iðnaðarmál eigi að fara fram vegna skýrslu eða vegna þáltill., skal ég ekki fjalla undir þessum lið. Aðalatriðið er fyrir mig að umræður um iðnaðarmál komist inn á hv. Alþingi, svo nauðsynlegar sem þær hljóta að vera. Ég tel að sjálfsögðu að hér sé verið að bjóða þingheimi upp á stefnumótun, það sé verið að bjóða upp á það, að stjórnarandstaðan fái rétt til að hafa áhrif á stefnumótun löggjafans í þessum efnum, og ég tel það vissulega geðfelldara heldur en að vita til þess, að ákveðinn stjórnmálaflokkur, sem hefur mikinn minni hl. á Alþingi, geti haft stöðvunarvald í ríkisstj., eins og reyndin mun vera að sögn fulltrúa slíkra afla. Við þekkjum það frá fyrri tíð, að ákveðnir ráðherrar hafa lagt fram stefnu í vissum málaflokkum, og er skemmst að minnast stefnu landbrh. sem birtist í þáltill.formi, en varð ekki útrædd.

En það er annað mál, sem varðar þingsköp, sem ég vil ræða hér sérstaklega og fá svör hæstv. ráðh. við fsp. þar að lútandi. Það snertir röð á þskj., því að það er athyglisvert, að þetta mál, sem er 86. mál þingsins á þskj. 93, er skráð í bókum hjá skjalaverði með þeim hætti, að það sé þáltill. iðnrh. Ég hafði spurnir af þessu, og vegna áhuga míns á þessum málum beið ég eftir því að fá að sjá þetta þskj. og það kom ekki fram fyrr en vikum síðar. Ef rétt hefði verið staðið að málum hefði málsnúmerið átt að vera 118, sem þýðir að þetta mál hefði átt að vera 41. mál dagskrár þessa fundar í dag, 41. mál dagskrárinnar. Þessu máli er kippt fram fyrir með mjög óeðlilegum hætti, og þess vegna, herra forseti, vek ég athygli á þessu, að ég tel að hv. Alþingi eigi rétt á að vita hvort hægt sé að fá geymd málsnúmer með þessum hætti, ef menn vilja láta færa sig ofar á dagskrá funda, og geta með þeim hætti komið sínum málum hraðar í gegnum þingið en gert er undir venjulegum kringumstæðum. Þar á ofan hefur málið síðan verið fært til og er rætt miklu fyrr en önnur mál sem komu fyrr fram á þinginu, þ. á m. mál sem ég er 1. flm. að. En ég skal viðurkenna það, að þáltill. hæstv. ráðh. er um efni sem er mun mikilvægara, og ég læt mér það lynda, ekki síst er ég veit að á næsta ári get ég hugsanlega fengið geymd númer hjá Alþingi.