08.12.1980
Efri deild: 21. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

102. mál, Lífeyrissjóður Íslands

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er víst, að hér er um mjög mikið mál að fjalla, þetta frv., sem lagt hefur verið fram og hefur legið frammi um allnokkurt skeið, um Lífeyrissjóð Íslands. Ég ætla mér ekki að ræða hér lengi um þetta frv., ég vil aðeins fara örfáum orðum um það.

Eins og hv. flm. vék að hafa verið miklar umræður um lífeyrismál í landinu og munu verða á næstu misserum. Ég vil minna á að núv. ríkisstj. hefur gefið fyrirheit um að komið verði á lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Nú er það svo, að ekki hefur litið dagsins ljós neitt í þá veru, hvernig slíkum lífeyrissjóði yrði fyrir komið. En ég lít á það frv., sem hér liggur fyrir sem lofsvert innlegg í þá umræðu sem fram hefur farið og mun fara fram um lífeyrissjóðsmál almennt.

Ég vil taka undir það — sem augu flestra eru raunar að opnast fyrir — að það lífeyrissjóðakerfi, sem við búum við í dag, má kalla kraðak, svo notuð séu óvönduð orð. Sannleikurinn er sá, að fjöldi landsmanna botnar hvorki upp né niður í fjölmörgum þáttum þess kerfis. Þeir fjölmörgu, sem eiga að njóta hinna ýmsu réttinda, verða að setja sig inn í reglur sem þeim mörgum hverjum reynist mjög erfitt að átta sig á. Auk þess, eins og komið hefur fram margsinnis, eru margir lífeyrissjóðirnir alls ekki í stakk búnir að sinna því hlutverki sem þeim vissulega var í upphafi hverjum og einum ætlað.

Það frv., sem hér liggur fyrir, og sú meginskipulagsbreyting, sem gert er ráð fyrir að fylgi því, þ.e. gegnumstreymiskerfið, er auðvitað grundvallarbreyting miðað við lífeyrissjóðina eins og þeir eru í dag. Segja má að í greiðslum almannatrygginga ríki eins konar gegnumstreymiskerfi. Það er út af fyrir sig rétt. En það er á öðrum forsendum. Ef farið verður út í þessa breytingu hlýtur maður að leiða hugann að þeim gífurlega sparnaði sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu á forsendum lífeyrissjóðanna. Þeir hafa verið með stærri sparendum í þessu landi. Ég vil minna á að í síðustu lánsfjáráætlun var gert ráð fyrir því, að innan ramma hennar mundi verða lánað úr lífeyrissjóðum 21.5 milljarðar króna af 50 milljarða ráðstöfunarfé. Þarna er um gífurlegar fjárhæðir að ræða.

Í þessu frv. er ýjað að því, að núverandi lífeyrissjóðir haldi áfram störfum, þ.e. að þeir verði áfram reknir sem eins konar lánasjóðir. Þetta er vafalaust gert til að brúa bilið, þ.e. kasta ekki öllu þessu fyrir róða. Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að þegar við erum að gera breytingar í þá veru sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá verðum við auðvitað að gæta þess að vera ekki að koma upp öðru bákni. Við verðum að gæta þess vel. Til þessa verks, að gera róttækar skipulagsbreytingar á lífeyrissjóðakerfinu, verðum við að ganga alfarið með hugarfari einföldunar jafnframt því að tryggja öryggi þegnanna í lífeyrismálum. En mér finnst einföldunin skipta afar miklu máli, svo að fólkið viti sem best að hverju það gengur í hverju tilviki.

Ég held að það sé alveg sama hvernig við lítum á umfjöllun þessara mála, þ.e. lífeyrissjóðsmálanna, um þau verður að nást mjög breið samstaða. Og að sjálfsögðu ákveðum við ekki framtíðarskipan þeirra úr ræðustól hér á Alþingi. Til þess að finna varanlega lausn, sem allra flestir geta sætt sig við, þarf að leita samráðs og umfjöllunar vítt og breitt um þjóðfélagið. Samstaða er höfuðatriðið.

Ég vænti þess, að þetta frv. fái skoðun í nefnd, og ég vil endurtaka, að ég tel það virðingarvert og jafnvel lofsvert innlegg í þá umræðu sem fram hefur farið og fram mun fara um lífeyrissjóðamál.