08.12.1980
Efri deild: 21. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

102. mál, Lífeyrissjóður Íslands

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég kveð mér aðeins hljóðs til að þakka fyrir þær undirtektir sem mál þetta hefur fengið hjá hv. 3. þm. Vesturl. og hv. 2. þm. Reykn. Ég átti von á því, að þetta mál fengi góðar undirtektir, a.m.k. hjá þessum tveimur hv. þm., og það stóð ekki heldur á því. Ekkert kýs ég frekar en sem besta samstöðu og á sem breiðustum grundvelli í þessu máli. Og þar sem svo vill nú til, að þessir tveir hv. þm. eiga sæti í fjh.- og viðskn., þar sem ég á einnig sæti, og einhver vafi var um það, hvert þetta mál skyldi fara, þó að lífeyrissjóðsmál hafi verið í fjh.- og viðskn. að undanförnu, þá leyfi ég mér að leggja til að málið fari þangað, í fullu trausti þess að þar geti náðst algjör samstaða, ekki endilega um þetta frv., alls ekki án breytinga og mikillar íhugunar og skoðunar, heldur samstaða um að koma þessum málum á heilbrigðan grundvöll.

Ég held að ég geti tekið undir svo til hvert einasta orð sem þessir hv. þm. sögðu hér. Ég held að við séum algjörlega sammála í þessu máli, hvað sem ágreiningi líður um önnur mál.