08.12.1980
Efri deild: 21. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

119. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna fsp. sem mér er sagt að hafi komið fram við umræður um þetta þingmál, frv. um Lífeyrissjóð bænda. Fsp. mun hafa verið borin fram af hv. 2. þm. Reykn., Kjartani Jóhannssyni, og var þess efnis, hvort samþykkt þessa frv. mundi hafa kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð. (KJ: Eða sjóðinn, ef það er öfugt, hver kostnaðarbreytingin væri og hjá hverjum.) Ég leitaði mér upplýsinga um þetta atriði þar sem ég hafði staðið í þeirri trú, að samþykkt frv. hefði ekki í för með sér neinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, og ég fékk það staðfest að svo væri ekki. Ég held ég geti leyft mér að fullyrða að hér er ekki heldur um að ræða kostnaðarauka fyrir lífeyrissjóðinn. Hér er um það að ræða, að verið er að samræma réttindi þeirra, sem fá réttindin út á iðgjöld, annars vegar og hins vegar þeirra, sem fá þau út á þann tíma sem þeir hafa starfað sem bændur. Ég held að hér sé sem sagt eingöngu um samræmingaratriði að ræða.

Eins og kemur fram í grg. er sá veigamikli munur á bótaákvæðum annars vegar í þessum lögum og hins vegar í lögum um eftirlaun aldraðra, að réttindi aldraðra félaga í stéttarfélögum vegna tíma til ársloka 1969 miðast við launatekjur og eftir þann tíma við iðgjaldagreiðslur til hlutaðeigandi lífeyrissjóða. En réttindatíminn einn ræður nær undantekningarlaust þegar ákvarða skal greiðslur samkv. II. kafla laganna um Lífeyrissjóð bænda. Þetta er verið að samræma, það er verið að tryggja að þessir tveir hópar manna, — annar hópurinn getur öðlast réttindi miðað við tíma og hinn hópurinn miðað við iðgjaldagreiðslur, — það er verið að tryggja að þessir hópar standi jafnt að vígi.

Herra forseti. Ég vænti þess, að sú útskýring, sem hér hefur verið gefin, sé nægileg. Það er ekki stórfellt atriði sem hér er um að ræða, en þó nauðsynlegt samræmingaratriði sem kostar hvorki ríkissjóð né Lífeyrissjóð bænda auknar fjárgreiðslur.