08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

14. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir um fuglaveiðar og fuglafriðun, hefur víst verið flutt alloft hér á hv. Alþingi, en ekki fengið neina lokaafgreiðslu og er nú flutt enn einu sinni og af minni hálfu til þess að kanna hver hugur er raunverulega í hv. þm. til þess að fjalla um þetta mál og fá úr því skorið, hvort það er möguleiki að fá á því lokaafgreiðslu.

Frv. þetta er samið af nefnd sem menntmrh. skipaði 29. jan. 1977 til þess að endurskoða gildandi lög um þetta efni, þ.e. lög nr. 66/1966. Í nefndinni áttu sæti Runólfur Þórarinsson, sem var formaður, Ásgeir Bjarnason formaður Búnaðarfélags Íslands og dr. Arnþór Garðarsson prófessor, formaður fuglafriðunarnefndar. Í skipunarbréfi nefndarinnar var þess beiðst, að hún hefði samráð við stjórnir Æðarræktarfélags Íslands, Dýraverndunarsambands Íslands Fuglaverndarfélags Íslands, Hins íslenska náttúrufræðifélags og aðra þá aðila er hún teldi rétt að ráðgast við. Þá var tekið fram að markmiðið með endurskoðuninni væri fyrst og fremst að leita leiða til þess að tryggja eðlilega vernd fuglalífs í landinu og þá þannig að skynsamlegt hlutfall héldist milli hinna ýmsu tegunda. En nefna má að sumum mávategundum t.d. hefur fjölgað mjög að undanförnu til tjóns fyrir aðrar fuglategundir, svo sem æðarfuglinn sem er einn mesti nytjafugl þessa lands.

Við og við hafa farið fram miklar umræður um fuglafriðun og fuglaveiðar og þær breytingar eða þá röskun sem orðið hefur á fuglalífi í landinu. Má nefna að æðarvarpseigendur kvarta mjög undan ágangi vargfugls, deilt er um rjúpnastofninn og áhyggjuefni er hve fátt er orðið um erni. Orsakir þeirra breytinga, sem orðið hafa eru margar og nauðsynlegt að ráðstafanir til skynsamlegrar verndunar og úrbóta hvíli á grunni vísindalegra rannsókna, en þær taka oft langan tíma og kosta verulega fjármuni.

Öll umhverfis- og náttúruverndarmál eru mikilsverð og þarf að kappkosta að þar haldist í hendur skynsamleg nytjun gæða landsins og eðlileg friðun og verndun. Hvorki má búa við rányrkju, sem hefur stundarhagnað að leiðarljósi, né friðunarstefnu sem jaðrar við ofsatrú. Hvort tveggja ber að varast. Þess vegna er brýn nauðsyn að efldar séu vísindalegar rannsóknir á þessum sviðum svo að unnt sé að taka ákvarðanir um friðun og nytjun gæða landsins með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna. Þetta er traustasti grundvöllurinn sem völ er á, þótt vísindamönnum geti auðvitað skjátlast eins og öðrum dauðlegum verum.

Til þess að bregða.nokkru ljósi yfir þau vandamál, sem taka þarf til meðferðar í sambandi við þetta lagafrv., má nefna að vernda þarf og efla æðarvarp og einnig að vernda og stuðla að fjölgun arna. Hér er þó óneitanlega um andstæður að ræða, þar sem eigendur æðarvarps eru engan veginn sáttir við það, að þeir eigi að verða fyrir búsifjum af friðun arnarins, en engum dettur hins vegar í hug að stuðla að því, að örnum verði útrýmt vegna æðarvarpsins. Ýmis svipuð dæmi mætti nefna þannig að hér er vandsiglt milli skers og báru. Nefna má að nánast eiga sér stað stöðugar deilur um rjúpnastofninn. Dr. Finnur Guðmundsson hafði um langt skeið unnið að umfangsmiklum rannsóknum á íslenska rjúpnastofninum í því skyni að reyna að leysa þá gátu, hvað veldur sveiflum í stofninum. En dr. Finnur féll frá áður en því verki yrði lokið. Ýmsum öðrum rannsóknum er þörf að sinna í ríki náttúrunnar og hefur menntmrn. hvað eftir annað farið fram á fjárveitingar í því skyni, en að mestu án árangurs. Þannig hefur ár eftir ár verið farið fram á fé til rannsókna á álftastofninum, en stundum er mjög kvartað undan ágangi álfta og gæsa, einnig fé til rannsókna á æðarfuglum, örnum og svo hvaða tjóni hrafnar og svartbakar valda.

Þá var farið fram á fé til rannsókna á tjóni af völdum villiminks og refa. Refarannsóknir fara nú fram. Rannsóknir varðandi hreindýrin þurfa að fara fram, ekki síst nú vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda á Austurlandi sem e.t.v. eyðileggja nokkurn hluta af beitilandi dýranna. Þrátt fyrir þetta fékk rn. ekki fé til rannsóknanna. Hins vegar hefur Orkustofnun lagt fram fé til rannsóknanna af sínu umráðafé og standa þær nú yfir, en af þátttöku rn. hefur ekki getað orðið.

Við fyrri umr. á Alþingi um frv. til l. um fuglaveiðar og fuglafriðun hefur verið að því vikið, að ekki væri þar skýrt kveðið á um rétt manna til fuglaveiða, þ.e. þeirra sem ekki eiga sjálfir veiðilönd. Ákvæði frv. eru hin sömu og gildandi laga, þ.e. að íslenskum ríkisborgurum skuli heimilar fuglaveiðar á afréttum og almenningum utan landareigna lögbýla. Hins vegar er það alveg rétt, að mikil óvissa ríkir um skilgreiningu þess, hvað séu almenningar og afréttir, og hafa hlotist af deilur, t.d. í sambandi við rjúpnaveiðar. Hér er um allflókið lögfræðilegt vandamál að ræða og þarf í þessu sambandi vel að hyggja að réttindum jarða eða landeigenda annars vegar og hins vegar hins fjölmenna hóps þéttbýlismanna sem unir því illa að vera meinaður aðgangur að veiðilöndum. Væri æskilegt að finna form fyrir því, að landeigendur fengju tekjur af sölu veiðileyfa og þéttbýlismenn ættu þess kost að kaupa þau, en jafnframt yrðu skilmerkileg ákvæði sett í lög um rétt manna til að veiða þótt þeir eigi ekki veiðilönd. Þarf að lögfesta skipulag þessara mála áður en til frekari og alvarlegri árekstra kemur en orðið er.

Ég hef hugsað mér að láta athuga þetta sérstaklega, annaðhvort með skipun nefndar eða ráða til þess menn með öðrum hætti. Og e.t.v. væri það verkefni þingnefndar að vinna að athugun þessa atriðis. Hins vegar sá ég ekki ástæðu til þess að bíða með að leggja frv. á ný óbreytt fyrir Alþingi, því að líklegt er að nokkurn tíma taki að leysa þennan hnút og vel mætti samþykkja frv. nú og breyta veiðiréttarákvæðum þess síðar, ef skynsamleg og friðsamleg lausn fæst á þeim vanda.

Þótt frv. sé lagt fram óbreytt, eins og ég hef tekið fram, vil ég vekja athygli á því, að e.t.v. kynni að vera ástæða að athuga um þrjú atriði. Í fyrsta lagi, hvort ekki er rétt að þyngja sektarákvæðin frá því sem er í frv. og hvort ástæða er til að veita svo langan frest sem 10 ár til þess að breyta fjölskotabyssum í tvískotabyssur og í þriðja lagi hvort ekki sé rétt að taka upp verðlaunaveitingar til bænda, ef arnarungi kemst upp í landareign þeirra.

Hvað varðar sektarákvæðin vil ég geta þess, að á undanförnum árum hafa erlendir menn hvað eftir annað gert tilraunir til að handsama fálkaunga og flytja úr landi. Sumarið 1976 fundust t.d. fimm fálkaungar í ferðatöskum á Keflavíkurflugvelli. Sumarið 1978 kom maður sá á ný til Íslands sem grunur lék á að átt hefði fálkaunga þá sem fundust í ferðatöskunum. Var fylgst náið með ferðum hans á Norður- og Vesturlandi í nokkra daga og benti margt til þess, að hann væri hér í þeim erindum að handsama fálka. Var honum að lokum vísað úr landi.

Sumarið 1980 tókst að koma í veg fyrir að menn frá Austurríki flyttu úr landi fimm fálkaunga og fjóra smyrilsunga, sem þeir að lokum viðurkenndu að hafa handsamað hér á landi, þótt þeir í fyrstu teldu sig hafa náð þeim á Grænlandi. Samkv. gildandi lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun hlutu Austurríkismennirnir aðeins 25 þús. kr. sekt fyrir tiltæki sitt, og sýnir það glöggt að brýna nauðsyn ber til að stórhækka sektarákvæði fuglafriðunarlaga. Sektarákvæðin í frv. miðast við fyrri hluta árs 1978, en nefna má að vísitala vöru og þjónustu hefur samkv. upplýsingum Hagstofu Íslands þrefaldast frá 1. mars 1978 til 1. nóv. 1980.

Herra forseti. Ég skal nú ekki hafa mál mitt öllu lengra. Ég tek það fram, að ég tel mikilvægt að n. taki afstöðu til frv. með eða móti. Ég legg það fram enn einu sinni til þess að fá úr því skorið, hvern hljómgrunn málið hefur í raun og veru. Þótt ágreiningur kunni að vera um einstakar greinar í frv. finnst mér varla ástæða til þess að dæma frv. í heild út frá því. Og ég leyfi mér svo að lokum, herra forseti, að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og menntmn.