08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

41. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 80 11. júní 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Grundvallarhugmyndin, sem flutt er í þessu frv., er sú, að vinnustaðurinn verði grundvallareining þegar samið er um kaup og kjör, en kerfið verði ekki lárétt eins og stundum er kallað og nú er. Það skal tekið fram í upphafi, að það hvarflar ekki að flm. að nákvæmlega þessi útfærsla sé hin eina rétta. Verður vikið að því síðar. Hins vegar er verið að framkvæma hér mjög róttæka breytingu á því kerfi sem samningar um kaup og kjör ganga eftir, sem sé þá, að vinnustaðurinn verði gerður að grundvallareiningu. Áður en lengra er haldið vil ég biðja hv. alþm. að gæta þess mjög að rugla ekki saman aðatatriðum og aukaatriðum í þessum efnum. Aðatatriðið er það og það eitt, að vinnustaðurinn sé gerður að grundvallareiningu. Hitt eru aukaatriði og útfærsluatriði.

Eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. er við það miðað, að vinni á vinnustað 25 eða fleiri fastráðnir starfsmenn, þá eigi þeir að mynda það sem kallað er starfsgreinafélag. Þetta orð er tekið úr hugmyndafræði Alþýðusambands Íslands, en á árunum 1956–1962 ályktaði það mjög í þessa veru og var jafnan talað um starfsgreinafélög. Það skal viðurkennt, að það orð kann að vera misvísandi. En þó er hægt að ná, hygg ég, samkomulagi um það, að orðið „starfsgreinafélag“ sé notað í þessum skilningi. Það er sem sé gert ráð fyrir því, að vinnustaðir, sem hafa fleiri en 25 fastráðna starfsmenn eða vinnuseljendur, eins og það er kallað í frv., myndi slík félög og þá gildi einu við hvaða sérstarf þeir hafa unnið áður.

Við getum tekið sem dæmi að hjá fyrirtækinu Hagkaupum í Reykjavík er einn vinnuveitandi eða vinnukaupandi. Hins vegar starfar þar fólk á saumastofum, í eldhúsi, í verslunum og við fleiri og fleiri störf. Það er gert ráð fyrir því, að allt þetta fólk gangi í eitt og sama félagið. Á hinn bóginn má það ekki misskiljast, að hér er ekki verið að leggja til að hin eldri stéttarfélög leggist af. Þau hafa eftir sem áður margvíslegu hlutverki að gegna með sérmenntað fólk innan sinna vébanda, og auðvitað heldur það uppi bæði virðingu og vegi sinnar sérmenntunar. Hinu má ekki gleyma, að elsta og stundum er sagt virðulegasta verkalýðsfélag landsins, Hið íslenska prentarafélag, sem er stofnað 1892, var í upphafi menningarfélag ekki síður en baráttufélag um kaup og kjör. Og eftir stendur hvernig fara skuli t.d. með lífeyrissjóði, hvort þeir gangi inn í þessi starfgreinafélög eða hin eldri verkalýðsfélög fari með þá eins og nú er. Til þessa síðasta er ekki tekin afstaða í þessu frv.

Hvort talan 25 er nákvæmlega rétt, á það legg ég heldur engan dóm. Tekið er fram í grg. með þessu frv., að vel megi hugsa sér aðra tölu. Á frumstigi, þegar við vorum að vinna þetta frv., reiknuðum við með tölunni 10. Það má einnig hugsa sér aðra útfærslu, sem sé þá vegna þess hvað hér er um róttæka breytingu að ræða — að breytingin eigi sér stað í áföngum þannig að þetta gangi í gildi um félag, sem hafi fleiri en 100 félaga, um áramótin 1981–1982, þau sem hafi fleiri en 50 komi ári seinna og svo koll af kolli, því að vitaskuld eru margir hræddir við eins róttæka breytingu og þá sem hér er verið að leggja til.

Í ítarlegri grg. með þessu frv. er rakin nokkuð saga málsins. Ég veit að hv. alþm. hafa kynnt sér þetta og það ætti að vera óþarfi að lesa grg. nú. En saga málsins skiptir þó allmiklu máli. Fram að 1938 gilti hér á Íslandi lögmál frumskógarins í samningum um kaup og kjör. Þetta lögmál frumskógarins verkaði þó þannig, að það var orðið nokkurt samkomulag um það, að a.m.k. stærri verkalýðsfélögin hefðu réttindi til að semja um kaup og kjör, þó mikið væri um verkfallsbrot og alls konar leiðindi, enda var ríkjandi án laga anarkismi í þessum efnum. Ég vil vísa til þess, sem Vilmundur Jónsson, þm. Alþfl., þá, sagði í þingræðu um þetta mál, en hann var einn af talsmönnum Alþfl. árið 1938. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Verkfallsrétturinn er nú á engan hátt lögverndaður. Allur svokallaður „réttur“ til verkfalla er fólginn í því, að þau eru liðin af þeim sem valdið hafa í þjóðfélaginu- á meðan það verður — en ekki því, að þau séu leyfð. Með verkfallsbrjótum, jafnvel meðlimum þess verkalýðsfétags, sem í verkfalli á, má gera þennan „verkfallsrétt“ að engu. Fyrir venjulegar aðgerðir verkalýðsfélaga til að hindra verkfallsbrot má samkv. hinum íslensku hegningarlögum dæma menn til þungra refsinga og jafnvel til betrunarhúsvinnu.“

Og síðar í ræðu sinni sagði Vilmundur Jónsson:

„Á þessu ári“ þ.e. 1938 — „er fyrst að telja,“ — og þá er verið að réttlæta frv. sem þá var til umræðu, „að réttur verkamanna til að stofna verkalýðsfélög og til að vera í verkalýðsfélögum er tvímælalaust viðurkenndur og lögverndaður með 1. gr. frv. Hér á eftir verða verkalýðsfélögin ekki aðeins félög, heldur félög sem hafa löglegan tilgang. Engar hundakúnstir lögfræðinga í dómarasæti geta komist í kringum það.“

Ég er þeirrar skoðunar, að þeir, sem á árinu 1938 mæltu með frv. um stéttarfélög og vinnudeilur eins og það þá var, hafi haft rétt fyrir sér. Andstæðingarnir voru einkum úr Kommúnistaflokki Íslands, en einnig Héðinn Valdimarsson sem á þessum tíma er einmitt að ganga úr Alþfl. og til samvinnu við það sem á þessum mánuðum er farið að kalla Sameiningarflokk alþýðu — Sósíalistaflokkinn, svo að persónulegir hagsmunir kunna að hafa skipt einhverju í afstöðu Héðins að því er þetta mál varðar á sínum tíma. En Þjóðviljinn á þeim tíma og þrír þm. Kommúnistaflokksins snerust ásamt Héðni af mikilli heift gegn þessu frv. Ísleifur Högnason, þm. Kommúnistaflokksins, sagði m.a. í þingræðu um þetta mál:

„Ef þetta vinnulöggjafarfrv. verður að lögum, markar það tímamót í sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu. Með því er fyrsta sporið stigið í áttina til þess að gera íslenska verkamenn að þrælum.“

En nú er svo komið, að þetta umdeilda frv. frá 1938 er orðið að frv. sem menn eru farnir að líta á sem sjálfsagðan náttúrurétt. Og ég hef jafnvel stundum á tilfinningunni að forustumenn í launþegahreyfingunni, jafnvel á ýmsum aldri, viti ekki af lögunum frá 1938, heldur haldi að hér sé um að ræða áunninn náttúrurétt. Það er auðvitað hinn mesti misskilningur, því að lögin frá 1938 eru eins og hvert annað mannanna verk, góð eða vond eftir atvikum, gölluð mikið eða lítið eftir atvikum.

Það urðu gríðarlegar deilur um þetta mál 1938 og margir þeir, sem síðan hafa unnið með þessum lögum, –ég nefni sem dæmi mann sem er nýhættur á Alþingi, Eðvarð Sigurðsson, hann var einmitt í þeirri sveit sem barðist gegn lögunum 1938, en virðist nú telja að hér sé um að ræða hið eina sanna form í þessum efnum.

Annar vandi, sem strax rís í þessum efnum, er hvort setja skuli lög. Á löggjafinn yfir höfuð að skipta sér af svona málum? Því er til að svara, að mér er kunnugt um að starfsmenn hjá tveimur fyrirtækjum a.m.k. hafa reynt fyrir sér með að stofna starfsgreinafélög. Hér er um að ræða Flugleiðir og Morgunblaðið. Það eru setningar í gömlu lögunum frá 1938 sem beinlínis koma í veg fyrir þetta, og þar af leiðir að ef starfsgreinafélagakerfið á að verða hér kerfi næstu ára og áratuga, þá verður að breyta lögum, hvort sem forustumönnum í launþegahreyfingunni líkar betur eða verr.Þetta verður ekki gert nema með lagabreytingu. Slíkt hégómamál eins og hitt, hvaðan frumkvæðið kemur í þessum efnum, hvort það komi frá verkalýðshreyfingunni sjálfri eða Alþingi, það held ég að sé meira deila um keisarans skegg. En sagan gekk einnig þannig fyrir sig í þessum efnum, að á miðjum sjötta áratugnum, árunum frá 1950–1960, fara að vakna raddir innan verkalýðshreyfingarinnar um að fyrirkomulagið sé bæði dauft, gamaldags og sinni alls ekki kröfum nútímasamfélags, og fjögur Alþýðusambandsþing í röð,1956, 1958, 1960 og 1962, ályktuðu um að þetta væri æskilegasta fyrirkomulagið. Þetta var í forustutíð Hannibals Valdimarssonar í Alþýðusambandinu. Fjögur þing í röð ályktuðu í þessa veru. Samt hefur ekkert gerst af því að löggjafinn hefur aldrei tekið málið upp. En löggjafinn verður að gera það ef svona hugmyndir eiga að verða að lögum.

Af hverju hefur ekkert gerst? Ég held að töluvert af svarinu liggi í ummælum sem höfð eru eftir Guðmundi J. Guðmundssyni, formanni Verkamannasambands Íslands og hv. þm., og kom fram í Rétti við umræður um þessi mál árið 1976. Guðmundur sagði: „Kannske er líka einhver smákóngapólitík í þessu, en það eru fyrst og fremst þeir, sem eru hæst launaðir, sem eru harðastir á móti því. Þeir þola ekki lýðræðið, þeir vita að þeir ófaglærðu eru fleiri.“ Ef til eru meðmæli með þessu frv., þá held ég að það séu þessi ummæli sem höfð eru eftir hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni.

Ég legg á það áherslu, að við gerum ráð fyrir að stéttarfélög muni starfa áfram. Þau hafa bæði virðulegum og sögulegum tilgangi að gegna, einnig menningarlegum tilgangi, en auk þess að vera sínum mönnum til halds og trausts, jafnvel þó þeir semji með fyrirkomulagi starfsgreinafélaganna. Einn vandi er þá eftir. Hvað með þá sem vinna á vinnustöðum þar sem eru færri starfsmenn en 25, þ.e. 24 eða færri? Frv. gerir ráð fyrir því, að í slíku tilviki, — ég nefni verslanirnar í Reykjavík sem vega mjög þungt í þessum efnum, — verði starfsfólk þeirra áfram í sínu stéttarfélagi, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, og þar verði samið samkv. hinu eldra kerfi, — en þó, ef hver einasti starfsmaður í litlu fyrirtæki kýs að semja í starfsmannafélagi, þá megi hafa starfsmannafélög: ef 17 vinna við fyrirtæki og allir þessir 17 eru sammála um að semja heldur beint við atvinnurekanda, þá megi þeir gera það.

Einn kost við þetta frv. hygg ég vera þann, — og það er mjög veigamikið atriði þó að það vegi ekki þungt í grg., — að ég er sannfærður um að þetta kerfi mundi mjög draga úr verðbólgu hér. Við vitum hvernig samningar um kaup og kjör hafa gengið fyrir sig. Menn semja og standa svo upp báðir og segja. „Ábyrgðarlausir samningar, það er ekki til innistæða fyrir þessu.“ Ríkisvaldið kemur þá til skjalanna og færir til, t.d. með gengisfellingu, til handa frystihúsum eða öðrum þeim sem í hlut eiga. Ef starfsfólkið semur beint við vinnuveitandann, þá er ekki samið um önnur verðmæti en þau sem til eru. Úr hinum ábyrgðarlausu afskiptum ríkisvalds af kjaramálum og kaupgjaldsmálum, sem eru orðin allt of mikil, mundi auðvitað mjög draga ef þetta fyrirkomulag yrði lögfest. Þá ber þess og að gæta, að samkv. þessu fyrirkomulagi er hægt að hafa eftirfarandi hátt á: Við getum nefnt 1500 manna byggðarlag einhvers staðar á landsbyggðinni. Segjum svo að í því byggðarlagi séu 3, 4 eða 5 fyrirtæki sem hafi 25 starfsmenn eða fleiri. Segjum líka að það sé gott verkalýðsfélag á staðnum og verkalýðsstjórnin njóti mikils trausts. Þá geta öll þessi þrjú frystihús og tvö iðnfyrirtæki framselt verkalýðsfélaginu samningsrétt sinn og það semur þá við vinnuveitandann. Valdið er fært til launþegans. Í öllum tilvikum ræður hann. Enn fremur er gert ráð fyrir því í 1. gr. frv., að það sé ekki aðeins hægt að stofna starfsgreinafélög, heldur starfsgreinabandalög.

Ef t.d. öll frystihús í Reykjavík vilja vera saman t bandalagi og standa og falla hvert með öðru, þá mynda þau auðvitað bandalög og þá eru þau komin saman öll og þá stendur vinnukaupandinn á móti. Allur réttur í þessum efnum er færður til launþegans samkv. þessu.

Nú má enn segja að mikil rök með þessari aðferð, sem raunar koma fram í þingtíðindum fjögurra þinga Alþýðusambands Íslands, séu þau, að líkurnar aukast á því, að atvinnulýðræði, þ.e. þátttaka starfsmanna í stjórnum fyrirtækja, verði talið æskilegt, að slíkt fyrirkomulag fylgi í kjölfarið. Sama gildir um efnahagslýðræði, sem sé það, að starfsfólk taki út hluta af launum sínum sem hlutabréf í fyrirtækinu. Samskiptin verða öll önnur ef þetta fyrirkomulag er tekið upp.

Ég vek athygli á því, að í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1982. Frv. var lagt fram í endaðan okt., hygg ég. M.ö.o.: það er gefið rúmlega eitt ár til aðlögunar. Og það verður að vera þannig, að verkalýðshreyfingin hafi eitt ár eða tvö, frá því að Alþingi hefur samþykkt þetta, til þess að aðlaga sig breyttum aðstæðum.

Ég lít alls ekki trúarlegum augum á þetta frv. Það hvarflar ekki að mér, að þetta sé hin eina og sanna útgáfa. Nú fer frv. í n., í allshn. væntanlega, það var sent í allshn. 1938 þegar það var til umr. þá. Auðvitað gerir flm. ráð fyrir því, að þetta frv. verði sent öllum verkalýðsfélögum í landinu til umsagnar og höfð náin samráð við þau, teknir í það 2–3 mánuðir — eða góður tími — til að heyra undirtektir þeirra. Ég er sannfærður um að það er hik á sumum forustumönnum í verkalýðshreyfingunni. En það er ekkert hik á hinum almenna launþega úti á vinnumarkaðinum. Hann vill þetta. Auðvitað verðum við að viðurkenna það, að við alþm. erum íhaldssamir í kjördæmamálum líka, vegna þess að við erum að vernda okkar persónulegu valdahagsmuni. Þetta er eðli málsins og ósköp venjulegt lífsviðhorf. Við skulum viðurkenna að þetta er svona. Sömu sögu er að segja úr verkalýðshreyfingunni. Ég hygg að forustumennirnir þar margir hverjir snúist gegn þessu vegna þess að þeir óttast að valdakerfið komi til með að breytast og þeir kunna ekki á hið nýja valdakerfi eins og þeir kunnu á það gamla.

Ég vil svo láta fylgja með skilgreiningu á því, hvað átt er við með starfsgreinafélagi, sem raunar er getið neðst á bls. 9 í grg. með þessu frv. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með „starfsgreinafélagi“ er átt við að allir þeir, sem vinna að sömu framleiðslu á vöru eða inna af hendi sömu þjónustu og selja vinnu sína til sama vinnukaupanda, séu saman í starfsgreinafélagi. Starfsgrein er þá skilgreind sem vinna að tiltekinni framleiðslu, óháð því hvaða sérstaka starfi tiltekinn einstaklingur gegnir. Þannig væru allir þeir, sem vinna við flug, að selja vinnu sína einum og sama vinnukaupanda, í sama starfsgreinafélagi, hvort sem þeir fljúga flugvélum, færa bókhald, vinna við þvotta eða rafvirkjun. Þeir, sem vinna í verksmiðju, hjá skipafélagi eða í stærri verslun, væru þá saman í starfsgreinafélagi.“

Eitt má nefna enn. Það er jafnlaunastefnan. Reynslan bæði í álverinu og á Grundartanga hefur sannað að þegar menn semja með þessum hætti, þá taka menn meira tillit til síns minnsta bróður heldur en þegar menn semja eins og nú er gert. Það er meiri jafnlaunastefna ríkjandi í Straumsvík og á Grundartanga en í nokkru öðru sambærilegu fyrirtæki hér á landi. Guðmundur J. Guðmundsson hefur mjög fjallað um þá staðreynd, að svona kerfi þýði meira jafnlaunakerfi en það kerfi sem nú er.

Nefndin, sem fær þetta frv., mun væntanlega senda það mörgum til umsagnar og það tel ég bæði rétt og skylt. Ég vísa hins vegar á bug rökum eins og þeim, að Alþingi komi þetta mál ekki við, vegna þess að Alþingi setti árið 1938 lög um stéttarfélög og vinnudeilur, þó að menn átti sig ekki alltaf á því. Það eru lög í landinu og mér er kunnugt um það, að til að mynda fólk hjá Flugleiðum fór og athugaði sinn lögfræðilega rétt, hvort hægt væri að stofna slíkt félag. Svarið var nei, það er ekki hægt nema Alþingi breyti lögum í þessum efnum. Og ég held því fram, að það sé kveifarskapur og kerlingarmennska af verstu tegund, — og þá á ég við kerling í merkingunni lítill karl, — ég held að það sé slík kveifarmennska og kerlingarskapur af verstu gerð þegar menn bera því við, að löggjafanum komi þessi mál ekki við, vegna þess að þetta eru lög og lögunum verður að breyta ef á að vera hægt að gera þetta með þessum hætti. M.ö.o.: ég mæli fyrir mjög ítarlegu samráði við verkalýðshreyfinguna um þessi efni, en endanleg ákvörðun er hjá Alþingi. Og ef sú tilfinning mín er rétt, að fólkið sjálft í landinu vilji þessa breytingu, en hún strandi fyrst og fremst á forustumönnum í verkalýðshreyfingunni, þá tel ég Alþingi ekki aðeins rétt, heldur skylt að taka fram í fyrir verkalýðsforustunni og standa með fólkinu, á móti foringjunum. Þess vegna held ég að það sé brýnt að Alþingi geri þetta. Það getur ekki verið tilviljun, að Alþýðusambandsþing undir forustu Hannibals Valdimarssonar samþykki fjögur þing í röð að þetta kerfi væri hið æskilega. Það hljóta að vera mikilvæg rök fyrir því, að þetta sé ekki komið í gegn, að menn eru að þenkja um valdahagsmuni sína. Þegar við rifjum enn upp þá staðreynd, að a.m.k. hjá tveimur fyrirtækjum hafa menn athugað, hvort þetta sé hægt, og komist að því, að það sé ekki hægt samkv. núgildandi lögum, þá eru lögin, svo góð sem þau voru 1938, beinlínis farin að tefja fyrir framþróun í þessum efnum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að lengja mál mitt mjög. Ég vísa til ítarlegrar grg. sem þessu frv. fylgir. Ég vísa til þess, að þetta er ekki stefna Alþfl., þetta er frv. sem flutt er af einstaklingi. Samband ungra jafnaðarmanna hefur hins vegar haft þetta mál á stefnuskrá sinni. Félag ungra jafnaðarmanna í Reykjavík hefur lýst yfir fullum stuðningi við þetta frv., en engu að síður er þetta hér í þinginu flutt sem einstaklingsfrv. Stefna Alþfl. er enn þá ekki í þessa veru að því er þessi mál varðar. Ég vil vera hreinskilinn og bæta því við, að það eru skiptar skoðanir innan okkar flokks um þessi efni.

Herra forseti. Ég legg síðan til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn., eins og gert var 1938, og síðan til 2. umr. Og ég vil enda mál mitt á því, að biðja þá n. sem við frv. tekur, að hafa sem nánust samráð við verkalýðsforustuna. En samráðin við verkalýðsforustuna mega ekki vera svo náin að verkalýðurinn sjálfur gleymist, vegna þess að þetta mál er ekki fyrir verkalýðsforingjann, heldúr fyrir verkalýðinn, ekki fyrir forustumanninn í launþegafélaginu, heldur fyrir launþegann, fyrir hinn atmenna mann. Ég þykist hafa það rétt á tilfinningunni, að það sé meiri hrifning hjá hinum almenna manni á þessu heldur en hjá þeim sem með forustuna fara. Við megum ekki gleyma því mannsins eðli, að hljóti maðurinn völd og frama á hann það til að verja völd sín og frama með kjafti og klóm. Það er eðlilegt og kannske ekkert við því að segja. En Alþingi á ekki að hlusta einasta á verkalýðsforustuna, heldur einnig verkalýðinn. Alþingi á ekki einasta að hlusta á forustufólkið í samfélaginu, heldur það fólk sem heldur uppi þjóðlífi hér úti um hinar víðu og breiðu byggðir landsins.