08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

95. mál, sparisjóðir

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af orðum hæstv. ráðh. get ég upplýst það, að þetta frv. er einmitt flutt vegna þess að í þeim umræðum, sem fram hafa farið og hann gat um áðan, hefur komið í ljós að athuguðu máli að sparisjóðunum væri ekki heimilt að annast þá fyrirgreiðslu sem löggjöfin um Húsnæðisstofnunina gerir ráð fyrir. Þess vegna og til þess að hægt sé að framfylgja þeirri löggjöf hvar sem er á landinu og af hvaða peningastofnun sem er er þetta frv. flutt í samráði við stjórn Sambands sparisjóða og að mér er tjáð með vitund bankaeftirlits og þeirra aðila sem hafa fjallað um þá samninga sem ráðh. gat hér um áðan. Að sjálfsögðu mun fjh.- og viðskn. skoða það mál þegar þessu frv. hefur verið vísað til nefndar.

Til þess að slíkt fyrirkomulag sem hér er gert ráð fyrir geti tekið gildi um næstu áramót þyrfti að hraða afgreiðslu þessa frv. Það er von mín að það verði gert þannig að það verði að lögum fyrir áramót.