22.10.1980
Neðri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

Fundarsókn þingmanna

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér var sagt, þegar ég kom inn í þinghúsið nokkrum mínútum yfir tvö, að forseti hefði verið að veita þm. áminningu fyrir að vera ekki mættir á réttum tíma í upphafi þingfundar. Og það er nú eins og fyrri daginn þegar menn fá ákúrur fyrir að mæta ekki á réttum tíma, að þá heyra þeir það, sem mættir eru, en ekki hinir, svo að ég þakka þeim sem sagði mér frá þessu, og ég vil því gefa skýringu á minni fjarveru. (Gripið fram í: Og minni.) Og fleiri.

Það var boðaður fundur í heilbr.- og trn. þessarar hv. d. af hv. 5. þm. Reykn., Jóhanni Einvarðssyni, kl. 13.45 í dag. Það átti að kjósa þar formann, varaformann og skrifara, sem undir öllum venjulegum kringumstæðum tekur vart meira en 3–4 mínútur að gera. Það voru sex nm. mættir á réttum tíma, einn kom að vísu tveim mínútum yfir boðaðan tíma, en einn nefndarmann vantaði. Það var hæstv. landbrh., sem nú tekur sæti í heilbr.- og trn., sem vantaði á fundinn. En það skilja allir menn, að hæstv. ráðh. hafa mikið að gera, þó að þeir vilji vera viða í nefndum, og engin forföll boðaði hann. En stjórnarliðar í þessari nefnd gerðust mjög óróir yfir því, að þeir höfðu ekki pálmann í höndunum, og Guðmundur Þórarinsson hljóp víða um ganga í Þórshamri að leita að sínum Pálma. En að lokum kom Pálminn í leitirnar eina mínútu fyrir kl. tvö. Og þá var úr vöndu að ráða, því að stjórnarliðar höfðu sagt að þeir óskuðu eftir því að fresta formannskjöri og var í raun og veru komin fram till. um það, af því að Pálmi hafði lagt mikla áherslu á að vera á fundinum, sem von er. En eftir að hann var mættur lifnaði mjög yfir stjórnarliðum, þannig að formannskjörið fór fram. Og það verður eðlilega tilkynnt eins og vera ber, að bæði honum og stjórnarliðum varð allmjög hughægra, því að Guðrún Helgadóttir hlaut 4 atkv., en var mjög hrædd um að ná ekki kjöri fyrr en hún sá Pálma sinn koma.

En nú er þessari þrekraun stjórnarinnar lokið að þessu sinni, þessu gífurlega átaki, að kjósa formann, varaformann og skrifara nefndarinnar. Ég vildi því láta það koma hér fram, að í þessu tilfelli verða sjö þm. of seinir á fund í hv. Nd. hjá hæstv. forseta vegna þess að einn lét bíða eftir sér. Þetta er kannske eitt dæmi um það, að gagnrýni Alþfl. við kosningu í nefndir hefur átt við nokkur rök að styðjast. Þeir hafa kannske ekki mikinn tíma aflögu, þessir ráðh. sem vilja alls staðar vera.