08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

148. mál, almannatryggingar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér voru reifuð tvö frv. samtímis og má segja að það hafi verið eðlilegt þar sem þau eru náskyld að efni til. Ég ætla þó fyrst og fremst að gera að umræðuefni frv. til l. um fæðingarorlof. Ég tel að ef það verður samþykkt óbreytt sé Alþingi Íslendinga að taka upp nýja stefnu varðandi almannatryggingar. Þá á að fara að taka upp þá reglu að greiða úr almannatryggingum eftir því hverjir einstaklingarnir eru, en ekki eftir því, hvað um er að vera. Þá væri jafneðlilegt að taka upp þá kenningu að greiða misjafnan ellistyrk til manna eftir því, hvort þeir hefðu verið ráðherrar eða verkamenn, svo að dæmi sé tekið.

Ég vil undirstrika það alveg sérstaklega, að ef t.d. ung stúlka í peningaleysi tæki sig til og gæfi alþm. barnið sitt ætti hann samkv. þessum lögum að fá sérstakan fæðingarstyrk. Ég hygg að hver og einn einasti maður, sem skoðar frv. og gerir sér grein fyrir að það er ekki um það að ræða lengur að atvinnuleysistryggingar eigi að greiða fæðingarstyrk, hljóti að gera sér grein fyrir því, að þá er forsendan fyrir því að atvinna manna ráði úrslitum um styrkinn gjörsamlega brostin, ef einhver réttlætisvitund er eftir.

Ég trúi því ekki að óreyndu að þetta frv. fari óbreytt í gegnum þingið.