08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

148. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka þær góðu undirtektir sem hafa komið fram við þetta frv. Ég tel að í orðum hv. þm. Ólafs Þórðarsonar hafi komið fram viss misskilningur, en það verður tími til að leiðrétta hann við meðferð málsins hér í þinginu.

Varðandi brtt. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vil ég segja það, að upphæðin, sem þarna er áætluð á mánuði, er allrífleg miðað við þau laun sem almennt eru greidd á vinnumarkaði. Hún er t.d. talsvert yfir dagvinnukaupi Sóknarstúlkna, iðnverkafólks og þeirra sem taka laun eftir töxtum Verkamannasambands Íslands. Hugsunin var sú, að þetta væri það ríflegt að gjöldum eins og orlofsgjöldum og því um líku væri í raun og veru gert ráð fyrir þarna. Það var með opnum augum þess vegna að orlofs- og lífeyrissjóðsprósentunni var sleppt. Það var meira að segja tekið fram í yfirlýsingunni sem við lögðum fram í viðræðum við Alþýðusambandið 27. okt.

Þetta var til skýringar, en svo getur n. auðvitað glöggvað sig nánar á málinu.