09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

346. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég held að það sé gagnlegt að umr. af þessu tagi fari hér fram. Það óréttlæti, sem við blasir, er náttúrlega gífurlegt, eins og allir þekkja, og allir flokkar hafa látið í ljós ósk um að úr því verði bætt að því er varðar vægi atkvæða hjá kjósendum í mismunandi landshlutum.

Ég geri ráð fyrir að allir þm. hér þekki hugmyndasafn nefndarinnar, sem var rakið hér ítarlega af hæstv. forsrh. En það er hins vegar athyglisvert, að ekki hafa komið fram neinar óskir um tímasetningar að því er varðar afstöðu þingflokkanna til þessa máls. Hættan er sú, að málið tefjist óþægilega lengi og það verði til þess, að það komist í eindaga. Það má auðvitað ekki gerast. Það, sem fyrir okkur liggur þá fyrst og fremst, er að tryggja framgang þessa máls.

Nú liggur það fyrir, að nefndin sem slík mun ekki móta afstöðu í málinu öðruvísi en með beinum umsögnum frá þingflokkum. Ég held að það sé æskilegt að sem víðtækust samstaða geti verið innan þingsins um þær breytingar sem gerðar verði. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að þingflokkarnir sjálfir, fulltrúar þeirra eða formenn þingflokkanna hafi frumkvæði um að þegar í stað hefjist viðræður milli þingflokkanna um hvaða leið þeir geti helst hugsað sér í þessum efnum. Ég segi þetta vegna þess að það er augljóst að nefndin sem slík gerir tæplega ráð fyrir því að móta afstöðu öðruvísi en að fengnum umsögnum þingflokkanna, og ég held að það sé betra að slík samtöl fari þá strax fram þingflokkanna í milli frekar en þeir álykti hver í sína áttina.