09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

346. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af orðum hv. fyrirspyrjanda vil ég ítreka það, að eftir vandlega athugun voru þau vinnubrögð ákveðin sem ég hef hér lýst, ekki þannig að stjórnarskrárnefndin setjist að störfum og móti endanlegar tillögur í þessum efnum og sendi þær síðan Alþingi, heldur þvert á móti, hún undirbúi málið til þess að gera þingflokkunum auðveldara það verk að gera upp hug sinn, ræða málið og ná niðurstöðu. Ég er sannfærður um að þetta hafi verið heppilegustu vinnubrögðin.

Að sjálfsögðu er starfað áfram að þessum málum eftir að skýrslurnar fóru til þingflokkanna, og ef einhver heldur að ekkert sé unnið að þessum málum nema á nefndarfundum er það misskilningur. Það er unnið að ýmiss konar álitsgerðum, greinargerðum og könnun ýmissa atriða. Ég get nefnt að meðal annars sem unnið hefur verið að síðan þessar skýrslur voru sendar til þingflokkanna, eru mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar sem þurfa mjög endurskoðunar við þar sem stjórnarskráin er rúmlega 100 ára gömul. Að því er þetta atriði snertir, mannréttindakaflann, hefur auðvitað margt breyst á þeim tíma, sumt orðið úrelt, þarf að breyta þar efni og orðalagi og bæta við ýmsum ákvæðum sem síðar hafa komið upp, enda höfum við mannréttindasáttmála bæði frá Sameinuðu þjóðunum og Evrópuráði og mjög ítarleg ákvæði í ýmsum hinum nýrri stjórnarskrám. Allítarleg greinargerð hefur verið samin um þennan kafla síðan og verið tekin fyrir og rædd í nefndinni.

Ég veit ekki hvort það væri nú við hæfi, sem hér kom fram, að stjórnarskrárnefndin færi að setja Alþingi og þingflokkum ákveðinn tímafrest. Það kom ekki upp sú hugmynd í nefndinni og ég fyrir mitt leyti tel mjög vafasamt að hún fari að setja sig á svo háan hest að setja þingflokkunum slík skilyrði. Auðvitað verða þeir að hafa þann tíma sem þeir þurfa, þó að æskilegt sé að umræðum og niðurstöðum verði hraðað.

Við vitum það öll, sem hér sitjum á þingi, að þessi mál ýmis og alveg sérstaklega kjördæmamálið eru ákaflega erfið viðfangs og þarfnast ríflegs tíma. Hins vegar vil ég undirstrika að að sjálfsögðu er unnið áfram að fjölmörgum þeirra atriða, sem þurfa endurskoðunar við í stjórnarskránni, meðan flokkarnir fjalla um þessa skýrslu.