09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

356. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi var mikið rætt um niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa. Urðu margháttaðar umr. um það mál, bæði í Sþ. og í deildum þingsins. En það var ekki fyrr en mjög var liðið á síðasta þing að það kom fram stjfrv. varðandi þetta mál. Það var frv. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Þetta frv. þótti betra en þau lög sem þá giltu, en verulega gallað að ýmsu leyti. Þess vegna var það, þegar frv. var samþ. á Alþingi að þá voru allir, sem tjáðu sig um þetta efni, sammála um að frv. þetta væri svo gallað að það yrði þegar í stað að hefja endurskoðun á því, ef að lögum yrði, til að betrumbæta það. Samkvæmt þessari skoðun er það tekið fram í nál. um frv. frá fjh.- og viðskn. Ed. að þó að nauðsynlegt hefði verið að samþykkja frv. teldu einstakir nefndarmenn að nauðsynlegt væri að taka það til gagngerðrar endurskoðunar. Eins og málin stóðu var n. sammála um að mæla með samþykkt frv., enda — eins og segir í nál. — verði unnið að endurskoðun laganna með sérstöku tilliti til efnisþátta sem koma fram á þskj. 112 og 157. Í framsögu með þessu sagði frsm. n., hv. þm. Guðmundur Bjarnason, að n. væri sammála um að leggja til að frv. yrði samþykkt, enda yrði fljótlega unnið að endurskoðun laganna með sérstöku tilliti til efnisþátta sem koma fram á þskj. 112 og 157.

Við umr. um frv. sagði hæstv. viðskrh., með leyfi hæstv. forseta: „Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég mun beita mér fyrir því, að frv., ef að lögum verður, sem ég efast raunar ekki um, verði endurskoðað í þá veru sem segir í nál. á þskj. 619.“ En á þskj. 619 er tekið fram, að það eru þskj. 112 og 157 sem á að hafa til hliðsjónar við endurskoðunina. Og hver eru þessi þskj.?

Þskj. 112 er frv. um niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa sem ég ásamt þremur öðrum þm. bar fram á síðasta þingi, þeim hv. þm. Tómasi Árnasyni, Stefáni Jónssyni og Eiði Guðnasyni. Þetta frv. var um niðurgreiðslu á olíu, ítarlegt frv. þar sem gert var ráð fyrir gjörbreytingu í ýmsum atriðum á því skipulagi sem hefur verið í þessum efnum.

Hvað var hitt þskj. sem vitnað var í, nr. 157? Það var till. til þál. um framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar, sem ég ásamt níu öðrum sjálfstæðismönnum flutti. Þar er gert ráð fyrir að gert verði markvisst átak til að leysa þessi mál til frambúðar, þ.e. að tosa okkur við olíuna sem orkugjafa til upphitunar húsa.

Það leikur enginn vafi á því, að mjög þýðingarmikið er að það verði af efndum á þeirri endurskoðun sem lofað var þegar lög nr. 53/1980, um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, voru samþ. á Alþingi. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann hafi látið hefja þessa endurskoðun og ef svo er hvenær frv. verði lagt fyrir Alþingi með tilliti til þeirrar endurskoðunar. Ég vænti þess, að ég fái jákvæð svör um þetta.

Ég tók fram, að hæstv. viðskrh. var meðflm. minn að því ágæta frv. sem á að taka tillit til við endurskoðunina, og þó að það væri reyndar einkennilegt að það mál skyldi daga uppi eftir að einn af flm. þess var orðinn yfirmaður þessara mála og tekinn við sem viðskrh., þá þykir mér sem yfirlýsingar hæstv. viðskrh. bendi til þess að hann sé enn þá trúr þeim anda og því efni sem kom fram í okkar sameiginlega frv.