09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

356. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að við vorum samflutningsmenn að ágætu frv. um þessi mál í fyrrahaust, og gæti ég sagt margt um það, eins og ég hef raunar áður gert. En það er nú þannig, eins og hv. þm. er kunnugt, að einu sinni var komist svo að orði, að veröldin liti dálítið öðruvísi út af tröppum Alþingishússins en Landsbankans. Það koma inn í þetta fleiri þættir sem þarf að sinna, eins og fjáröflunarþátturinn. Það er auðvitað meginatriðið í þessu máli að afla fjár til að jafna hitunarkostnaðinn í landinu.

En það eru fleiri atriði, sem koma inn í málið, og þar á meðal að ég held að þm. séu yfirleitt sammála um að það verði lögð áhersla á að reyna að útrýma erlendum orkugjöfum í sambandi við upphitun húsa í landinu, þ.e. að hraða lagningu hitaveitna, hraða notkun rafmagns til upphitunar til þess að þetta verði mögulegt. Þarna eru viss mörk sem í sumum tilfellum eru dálítið erfið, þ.e. að upphitun húsa með olíu að frádregnum olíustyrk verði ekki ódýrari en verður með innlendum orkugjöfum. Þessi mál eru dálítið vandleyst, ég viðurkenni það. Eins og nú standa sakir háttar þannig til, a.m.k. í sumum tilvikum, að þessi mörk eru þannig, að upphitun með olíu að frádregnum olíustyrk er sennilega ódýrari en með innlendum orkugjöfum. Það eru ekki mörg tilvik, en þau eru til. Þannig er á ýmislegt að líta í sambandi við þetta mál.

Ég vil leggja á þetta áherslu, en um leið er ég sammála hv. fyrirspyrjanda um að fram fari endurskoðun á þessum lögum. Dagsetningar hafa aftur á móti ekki verið ákveðnar. Það var ekki orðað þannig, að þegar í stað yrði hafist handa um endurskoðun laganna, heldur verði unnið að endurskoðun þeirra. Þess vegna er það, að ég hef lýst því yfir, að ég mundi beita mér fyrir því, eins og ég sagði í svari mínu, að nefnd til endurskoðunar laganna verði skipuð fyrir lok vorþingsins.

Það eru viss ákvæði í þessum lögum sem er dálítið erfitt að framkvæma og þá sérstaklega í sambandi við upphitun með raforku. Það er t.d. verið að leggja hitaveitur víða í landinu og menn bíða beinlínis eftir því að fá hita frá hitaveitum, en á sama tíma eiga menn kost á að fá rafmagn til upphitunar á þeim sama stað. Þannig eru erfiðleikar á að framkvæma lögin og t.d. svipta menn á slíkum stöðum olíustyrk þegar þeir bíða beinlínis eftir því að fá hitaveitur, eins og á Akranesi svo ég nefni dæmi. Það liggur fyrir að innan tíðar fær Akranes hitaveitu. Þar geta menn auðvitað fengið rafmagn til upphitunar, en það dettur engum í hug að ætlast til þess, að þeir á Akranesi taki inn til sín rafmagn, sem kostar e.t.v. 1–2 millj. kr., í nokkra mánuði eða jafnvel hálft ár eða svo og síðan fari þeir inn á hitaveitukerfið.

Í þessum málum eru ýmis framkvæmdaratriði sem ekki liggur alveg beint við hvernig á að framkvæma, og þess vegna hef ég hikað við tafarlausa framkvæmd vissra ákvæða laganna, þ.e. um að menn fái ekki olíustyrk ef menn eiga kost á rafhitun. Þar sem stendur á eins og t.d. á Akranesi verður að taka tillit til sérstakra aðstæðna. Ég held það sé hyggilegt að hinkra aðeins við með þetta. En ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að endurskoðun á að fara fram, og ég mun ekki, ef ég sit í þessu embætti, láta undir höfuð leggjast að beita mér fyrir því. Ég hef, eins og ég sagði áður, hugsað mér að beita mér fyrir því, að nefnd verði sett í málið. Mig minnir að ég hafi sagt í fyrra, — ég er nú ekki alveg viss um það, en mig minnir að ég hafi sagt í fyrra í umræðum um málið, að það færi best á því að það yrði nefnd sem þingflokkarnir ættu fulltrúa í. Og ég held að það sé skynsamlegt. Þetta er mál sem er þannig vaxið að það nær að sumu leyti út yfir flokkadeilur. Menn eru nokkuð sammála um að það sé sanngjarnt að ekki sé mjög mikill munur á upphitunarkostnaði húsnæðis eftir því hvar menn eru búsettir á landinu.