09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

366. mál, reikningsmeðferð aura eftir myntbreytinguna

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur borið fram fsp. í þremur liðum varðandi það, á hvern hátt ríkissjóður fyrirhugi að framkvæma upptöku aura vegna myntbreytingarinnar.

A-liður fsp. lýtur að greiðslu almennra krafna og svarið er: Ríkissjóður mun greiða almennar kröfur eins og reikningar gefa tilefni til, en þó þannig að greiðslur verði lægstar í 5 aurum. Ljóst er að með þeirri ákvörðun, að reikningar geti verið með öðrum upphæðum en greiddar eru, mun myndast misræmi milti fjárhæðar í kassa og talna í bókhaldi.

Spurt er hvernig framkvæmd verði greiðsla launa og bóta almannatrygginga og svarið er: Allt frá 1961 hefur ríkissjóður greitt laun í heilum krónum. Hið sama hafa flestir aðrir vinnuveitendur gert er færa launabókhald í skýrsluvélum. Í framhaldi af setningu laga um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils gerðu Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar viðskiptavinum sínum ljóst að eigi væri í öllum tilvikum laust sæti fyrir kommu innan þeirra kerfa er nú væru notuð við launaúrvinnslu og bókhald. Gerð nýrra kerfa væri tímafrek og kostnaður við þá vinnu næmi tugum millj. kr. Sams konar vandamál eru ljós hjá mörgum sveitarfélögum. Fjmrn. hefur rætt það mál við aðalviðsemjendur ríkissjóðs um kjaramál, hvort það mundi verða efni í gagnrýni af þeirra hálfu yrðu einstakar tegundir launa reiknaðar í heilum krónum, tímakaup yrði hins vegar í aurum og aðrar þær stærðir sem margfaldaðar verða. Að undangenginni athugun viðsemjenda ríkissjóðs á launabókhaldi og hugsanlegum frávikum, sem líklegt er að komi til greina í þessi tilviki, hafa fulltrúa launþega tjáð fjmrn. að þeir teldu slíkan útreikning eigi andstæðan hagsmunum umbjóðenda sinna. Í samræmi við framanritað er við það miðað að launagreiðslur og bótagreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins verði í heilum krónum.

Þriðji liður fsp. varðar skráningu fjárhæða í bókhaldi ríkissjóðs og ríkisstofnana. Svarið er: Frv. til l. um að öll opinber gjöld verði greidd í heilum krónum hefur verið lagt fyrir Alþingi. Eins og ég hef áður greint frá er við það miðað, að allar launagreiðslur ríkissjóðs verði í heilum krónum. Skráning alls tekjubókhalds og launabókhalds verður því í heilum krónum. Greiðslur úr ríkissjóði munu skráðar í heilum krónum þótt þær verði inntar af hendi í aurum. Sá mismunur er fram kemur milli fjárhæða í kassa og niðurstöðu bókhalds er meðhöndlaður með sama hætti og gert verður þegar reikningar enda á 1, 2 eða 3 aurum, en verða greiddir með 5 aurum.

Herra forseti. Ég vænti þess að með þessu svari sé fsp. hv. fyrirspyrjanda svarað.