09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

367. mál, Vestfjarðalæknishérað

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þeirra ummæla hv. 5. þm. Vestf., þegar hann fylgdi fsp. sinni úr hlaði, að skipun heilsugæslulæknis eða héraðslæknis fyrir Vestfirði hefði haft áhrif á framkvæmdir í heilbrigðismálum Vestfjarða. Þetta er algjör misskilningur. Stærsta framkvæmdin, sem þar er og hefur verið, er við sjúkrahús og heilsugæslustöð á Ísafirði og þar er starfandi byggingarnefnd. Sú byggingarnefnd var að störfum löngu áður en lögin um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt 1978. Svar hæstv. heilbr.- og trmrh. við þessari fsp. er alveg rétt. Það kemur fram í því svari, af hverju þessi skipan var ekki gerð. Ég var ráðh. heilbrigðismála eftir að lögin voru samþykkt 1978 og gekk frá þessum veitingum í fullri sátt og samlyndi við lækna í öllum öðrum kjördæmum. En af þessum ástæðum, sem ráðh. gat um, var ekki hægt að skipa lækni í Vestfjarðahérað. Hefur ráðh. lýst af hverju það hefur stafað. En þetta hefur ekki minnstu áhrif á framkvæmdir sem búið er að hanna og ákveða löngu fyrir gildistöku laganna frá 1978 og er slíkt algjör misskilningur hjá hv. þm. Það, sem skiptir nú mestu máli, er að þm. almennt, og þá ekki síst þm. Vestf., standi sig í sambandi við fjárveitingar til þeirra mikilvægu verkefna sem verið er að vinna að, en ekki hvort það er skipaður heilsugæslulæknir fyrir Vestfjarðalæknishérað. Það væri æskilegt að það væri gert, en hitt er enn þá brýnna og mikilvægara.