09.12.1980
Efri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

160. mál, minnsta mynteining við álagningu opinberra gjalda

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., kemur væntanlega til þeirrar nefndar, sem ég á sæti í, og þar verður auðvitað um það fjallað. Ég hef ekki kynnt mér það, en mér skilst að þessi breyting þurfi fram að ganga ef myntbreyting fer fram nú um áramót. Hæstv. fjmrh. virtist ganga út frá því sem alveg öruggu, að myntbreyting verði, en ég er ekki alveg viss um það, því að mér skilst að jafnvel sé ekki öruggt að hæstv. ríkisstj. — þó að stjórnarflokkarnir stæðu sæmilega saman — hafi meiri hl. til að hindra breytingu á lögum um myntbreytingu, enda er frv. fram komið um það í hv. Nd.

Eins og hv. þm. vita hefur hv. alþm. Albert Guðmundsson lýst því yfir, að hann muni greiða atkv. með því að myntbreytingu verði frestað, þar sem engar ráðstafanir séu gerðar samhliða henni.

Í annan stað skilst mér að hv. þm. Guðrún Helgadóttir muni hætta stuðningi við ríkisstj. á morgun eða hinn daginn, sbr. yfirlýsingu sem hv. þm. hefur gefið, og allir vita að hún er mjög stefnuföst og mun áreiðanlega hvergi hvika í sínum yfirlýsingum og staðhæfingum. Þess vegna kemur kannske ekki til þess, að við þurfum að hraða þessu máli. En það verður að sjálfsögðu tekið til skoðunar í nefndinni.