09.12.1980
Efri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

159. mál, vegalög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki kynnt mér þetta frv. fyrr en núna meðan hæstv. viðskrh. var að mæla fyrir því. Fyrst kom mér í hug, þegar ég sá kirkjur þarna, að hæstv. ríkisstj. væri nú farin að gefa fyrir sálu sinni. En ég komst að þeirri niðurstöðu, eftir því sem ráðh. hélt áfram ræðu sinni, að svo væri ekki, því að þetta hefði áður gilt um kirkjur, en það væri ákvæðið um orlofsheimili í eigu stéttarfélaga launþega eða starfsmannafélaga sem væri nýjungin í þessu frv.

Ég vil strax segja það, að ég hygg að þetta sé sjálfsagt. Og síst vil ég stuðla að því, að ríkisstj. svíki það sem hún hefur lofað. Það er þá gott til þess að vita, að í þessu tilfelli verði það ekki. Ég mæli með samþykkt frv.

En ég vil leyfa mér að koma með eina spurningu til hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni að það væri erfitt að gera nákvæma grein fyrir fjölda þeirra orlofsheimila sem um er að ræða, en talið væri að þau væru á bilinu 250–500. Mér finnst þetta nokkuð mikil ónákvæmni, af því að ég geri ráð fyrir að hægt sé að koma við talningu í þessu sambandi. Þetta eru engar stjarnfræðilegar tölur. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvernig standi á því, að ríkisstj. getur ekki sagt nákvæmar um þetta en svo, að hér sé um að ræða 250–500 orlofsbústaði. Hefur verið gerð tilraun til að koma tölu á þessi orlofsheimili og hefur það reynst óframkvæmanlegt? Er þetta því hrein ágiskunartala, 250–500, eða hefur engin tilraun verið gerð til að telja þessi orlofsheimili? Hvernig víkur þessu við, hæstv. ráðh.?