09.12.1980
Efri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

159. mál, vegalög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. viðskrh. fyrir það þýðingarmikla loforð, sem hann hefur gefið hér um að orlofsheimilin skuli verða talin. Og mér þykir enn þá vænna um það, að hann skuli gera þetta líka af tillitssemi, að því er mér skildist, til hæstv. samgrh.

En það var ekki rétt, sem fram kom í orðum hæstv. viðskrh., að ég hefði sagt, að ríkisstj. væri búin að gefa fyrir sálu sinni vegna þess að kirkjur ættu að njóta þessara hlunninda. Ég hygg að það hafi komið fram hjá mér, að það hafi skeð fyrir tíð núv. ríkisstj., og því verði ekki mótmælt, þannig að núv. ríkisstj. hefur ekki gefið fyrir sálu sinni. En það breytir ekki því, að hæstv. ríkisstj. ætti ekki að láta marga daga tíða án þess að gera það, því að það er of seint að iðrast eftir dauðann.