09.12.1980
Efri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

159. mál, vegalög

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það mætti halda af ræðum hæstv. viðskrh. og hv. 4. þm. Vestf. að þeir væru staddir á fundi í Sálarrannsóknarfélagi, en svo mun ekki vera. Kannske leysist þessi deila þeirra án þess að fá hjálp þaðan. En varðandi það frv., sem hér liggur fyrir, legg ég áherslu á að það verði samþykkt fljótt. Frv. er þáttur í samkomulagi milli Alþýðusambands Ístands og ríkisstj. um afnám á því óréttlæti sem hefur viðgengist varðandi orlofshús verkalýðsfélaga. Á þau eru lögð hvers konar gjöld, furðulegustu gjöld, af sýslum, af sveitarfélögum, sem engu hafa til kostað og hafa ekkert með þessar byggðir að gera. Því er mjög eðlilegt að afnema þær kvaðir sem á þeim hafa verið.

Það eru væntanleg frv. um fleiri atriði er lúta að afnámi þessara kvaða, og ég vona að menn geti sameinast um að samþykkja þetta frv. Vissulega hefði verið hægt að telja orlofsheimilin og birta nákvæma tölu í grg. Það er til nákvæm tala yfir þau. En aðalatriðið er að með samþykkt þessa frv. er verið að afnema það óréttlæti sem viðgengist hefur og skapað verkalýðsfélögum fjárhagsbyrði án nokkurrar nauðsynjar.