09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

143. mál, Fiskimálasjóður

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 89 5. júní 1947, um Fiskimálasjóð, með síðari breytingum, og hef framsögu fyrir hönd sjútvrh. sem hefur lagt frv. fram sem stjfrv.

Eins og hv. þm. er kunnugt er fé Fiskimálasjóðs varið aðallega í tvennum tilgangi: annars vegar til styrkveitinga og hins vegar til lánveitinga, eftir því sem fé sjóðsins hrekkur til. Lögin um Fiskimálasjóð hafa bundið hverja lánveitingu við tiltekna hámarksupphæð. Þessi hámarksupphæð hefur verið hækkuð á nokkurra ára fresti eftir aðstæðum og getu sjóðsins. Síðast var þessi hámarksupphæð hækkuð í 2 millj. kr. árið 1978. Stjórn Fiskimálasjóðs er sammála um að geta sjóðsins og aðrar aðstæður leyfi að þessi upphæð verði nú hækkuð í 5 millj. kr. 1. gr, frv. fjallar því um það, að í stað 2 millj. í 5. gr. komi 5 millj., og 2. gr., að lögin öðlist þegar gildi.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta einfalda lagafrv. fleiri orð, og að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til sjútvn.