09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, 1. þm. Reykv., sem spurðist fyrir um lánsfjáráætlun, vil ég minna á það, að þegar fjárlög voru lögð fram lá fyrir í fjárlagafrv. yfirlit um lántökur ríkisins og ríkisstofnana varðandi A- og B-hluta fjárlagafrv. Hins vegar voru ýmsir aðrir þættir lánsfjáráætlunar ógerðir þegar fjárlög voru lögð fram, og átti það fyrst og fremst við áættaðar lántökur einkaaðila og einkafyrirtækja, en áætlanir af því tagi eru yfirleitt undirbúnar af Seðlabankanum, og svo í öðru lagi útlán fjárfestingarsjóða, en áætlanir um það efni hafa verið gerðar af Framkvæmdastofnun og stjórn hennar.

Þegar ég mælti hér fyrir frv. til fjárlaga þegar nokkuð var liðið á nóvembermánuð lét ég þess getið, að nokkuð hefði dregist að fjmrn. fengi tillögur annars vegar frá Framkvæmdastofnun og hins vegar frá Seðlabanka um þessa tvo þætti lánsfjáráætlunar sem enn voru ófrágengnir, því að um það bil sem mælt var fyrir frv. voru að berast fyrstu tillögur frá þessum aðilum. Það var því þá þegar sýnt, að framlagning lánsfjáráætlunar mundi töluvert dragast og að hún mundi tæpast koma fram fyrr en í þessum mánuði. Ég vil upplýsa það hér, að lánsfjáráætlun er nokkurn veginn frá gengin og ætti ekki að vera neitt til fyrirstöðu að hún yrði lögð fram fyrir jól, nema þá helst það, að nú er skollið á verkfall bankamanna, en starfsmenn Seðlabankans hafa gjarnan lagt hönd á plóginn við lokafrágang áætlunarinnar. Þetta veldur vissum framkvæmdaerfiðleikum við að ganga frá áætluninni með þeim hætti sem venja hefur verið.

Ég held að það sé því þegar sýnt að lánsfjáráætlunin muni ekki verða lögð fram fyrir 2. umr. fjárlaga, en ég geri mér vonir um að svo verði í næstu viku.

Hv. þm. Friðrik Sophusson spurðist fyrir um það áðan, hvort önnur tekjuöflun kæmi í staðinn fyrir aðlögunargjald inn í fjárlagafrv., en í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að tekjur af aðlögunargjaldi nemi 2 800 millj. kr. Ég held að ástæðulaust sé að hafa svarið við þessari spurningu í mörgum orðum. Ég hef áður gert grein fyrir því, að önnur tekjuöflun kemur þarna í staðinn og hún mun birtast í frumvarpsformi á borðum þm. annaðhvort síðar í dag eða á morgun.