09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsrh. fyrir ágætar ábendingar. Ég er honum þakklátur einkum og sér í lagi vegna þess, að ég hef átt möguleika á því fyrr á ævinni að kynnast hans ágætu ábendingum, bæði í skóla og svo síðar í þingflokki, og ég met það mjög mikils að hafa lært af honum, því að eins og allir vita er hann manna best að sér um allar þingvenjur.

Þannig er ég honum þakklátur fyrir þessa ábendingu. En það stóð nú þannig á í þessu máli, að ég hafði samband við aðra hæstv, ráðherra í þessari ríkisstj., hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds og hæstv. iðnrh. Hjörleif Guttormsson, í morgun út af þessu sama máli, því að ég vissi að þetta heyrði undir fleiri en einn hæstv. ráðh. Reyndar talaði ég ekki við þann hæstv. ráðh. sem ég hefði kannske helst átt að tala við, en það er hæstv. viðskrh., sem á sínum tíma var hæstv. fjmrh., einmitt þegar þessi mál fóru í gegnum þingið, og ég biðst afsökunar á því. En ástæða þess, að ég þurfti ekki að tala við þann hæstv. ráðh., var einfaldlega sú, að hann hefur skýrt og skorinort sagt hvað hann vill gera í þessu máli. Hinir hafa farið með löndum. Og ekki eru þeir neinu nær á þessum fundi. Það eina athyglisverða, sem hefur komið fram á þessum fundi, er að við eigum von á nýju frv. um tekjustofn sem á að kosta ákveðin verkefni og þá væntanlega endurgreiðslur á gjaldi sem þegar er búið að heimta í ríkissjóð.

Það, sem auðvitað skiptir mestu máli fyrir iðnaðinn, er að jafnaður verði þessi munur, sem sífellt er verið að tala um og búið er að jagast um í 10 ár. Allar ríkisstjórnir eiga sök á að það loforð hefur ekki verið efnt. Þar er engum einum um að kenna.

Nú hefur það gerst, að hæstv. iðnrh. hefur lagt fram þáltill. í Sþ. í nafni hæstv. ríkisstj., þar sem hæstv. ríkisstj. fer fram á að hv. Alþ. samþykki stefnu í iðnaðarmálum og beini því síðan til hæstv. ríkisstj., að hún framkvæmi þá stefnu. Með þessu er auðvitað ríkisstj. að bjóða að stjórnarandstaðan á Alþingi taki þátt í stefnumótuninni, hafi áhrif á þá stefnu sem ríkisstj. hefur lagt grundvöll að. Þær umr., sem hér hafa farið fram utan dagskrár, eru liður í iðnaðarstefnu, ekki til langs tíma, eins og kemur fram í þáltill. hæstv. iðnrh., heldur í bráð. Eru þessi mál þó nefnd í iðnaðarstefnu hæstv. iðnrh. En það er stundum þannig, að þegar komið er að kjarna málsins má ekkert ræða, og svo er nú.

Mér þykir það leitt, ég segi það alveg eins og er, að hafa ekki fengið skýrari svör. Við því er ekkert að segja, þau eru ekki fyrir hendi.

Að lokum vil ég aðeins ítreka þakkir mínar til hæstv. forsrh. fyrir svörin, þótt lítil væru, og eins fyrir ágætar ráðleggingar.