09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það voru e.t.v. mannlegar skýringar hæstv. fjmrh. á því, hvers vegna lánsfjár- og fjárfestingaráætlunin var ekki fram komin, en ekki voru skýringar hans. stórmannlegar. Sú áætlun, sem átti að fylgja frv. til fjárlága í upphafi þings, átti samkvæmt grg. fjárlaga að leggjast á borð þm. um mánaðamótin október — nóvember. Hvers vegna var það ekki efnt? „Jú,“ sagði ráðherra, „það stóð á Framkvæmdastofnun.“ Ég veit að hæstv. forseti eða forráðamenn Framkvæmdastofnunarinnar kunna skýringar á því. — Önnur ástæða, önnur afsökun. Hvers vegna var ekki þessi áætlun lögð fram á þeim tíma sem heitið hafði verið að leggja hana fram? Jú, það var Seðlabankanum að kenna. Ég býst við að forráðamenn Seðlabankans eigi skýringar á því, ekki síður en forráðamenn Framkvæmdastofnunar. En hvers vegna var ekki hægt að leggja lánsfjár- og fjárfestingaráætlunina fram nokkrum sólarhringum fyrir 2. umr. fjárlaga? Jú, þá var gripið í hálmstráið: Það er skollið á verkfall bankastarfsmanna. Ég tel að þetta sé glöggur vitnisburður um hvað lágt risið er nú á hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild sinni, að þurfa að grípa í slíkt hálmstrá. Ég þykist nærri því fullviss að Samband ísl. bankamanna muni ekki telja það verkfallsbrot, ef hæstv. fjmrh. settist sjálfur niður við skriftir og lyki gerð þessarar lánsfjár- og fjárfestingaráætlunar með starfsmönnum sínum. Og utan úr sal er skotið fram ábendingu um að það mætti alltaf sækja um undanþágu.

En mikið skelfing er þetta lágt ris og lélegar og lítilmannlegar skýringar á aðgerðaleysi og úrræðaleysi einnar ríkisstjórnar.

Hæstv. forsrh. nefndi að það væri ekki óalgengt að ýmis frv. væru lögð á borð þm. skömmu fyrir áramót í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Það er ekkert einsdæmi, en slík frv. hafa verið fyrr á ferðinni hjá öðrum ríkisstjórnum, annaðhvort vegna þess að það var fyrirsjáanlegt, að þau þurfti að leggja fram, og samstaða var innan ríkisstjórnar að leggja þau fram, eða þá að búið var að gera aðrar ráðstafanir í tíma, sem ekki er til að dreifa núna. Hér hefur verið nefnt aðlögunargjaldið og hér höfum við nefnt lánsfjár- og fjárfestingaráætlunina. Ég minntist á framlengingu aðlögunartíma Ólafslaga í sambandi við vexti og verðtryggingu sem engin svör hafa fengist við.

Hæstv. forsrh. var undrandi að ég skyldi sýna ríkisstjórninni samúð, en boða ekki í þess stað vantraust. Ég held sannast best að segja að ríkisstj, þurfi á mikilli samúð að halda, svo hörmulega sem hún hefur staðið sig í verki. Og það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh., að sá tími kann að koma og er e.t.v. ekki langt undan, að eina samúðarkveðjan, sem ríkisstj. þarf á að halda, sé vantraust, svo að hún verði losuð undan því verki sem hún er ekki fær um að inna af hendi.