09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Út af fsp. hv. 1. þm. Vesturl., hvort hægri stjórnir nýti ekki alltaf skattstofnana meir en aðrar, eða að fullu eins og hann orðaði það, held ég að ég fari rétt með, þá get ég gefið honum þær upplýsingar hér af blaði, sem ég hef frá Þjóðhagsstofnun og ég veit að hann hefur undir höndum líka, ef miðað er við tekjur á tilteknum árum og hlutfall álagðra skatta — hvort heldur af tekjum ársins sem teknanna er aflað eða ársins sem skattarnir eru greiddir á — þá kemur í ljós að á árunum 1975, 1976 og 1977 er hlutfallið álagðir skattar af tekjum greiðsluárs 11.4%, 12.5% og fer niður í 10.6% árið 1977. Þetta eru tölur frá Þjóðhagsstofnun frá því 6. febr. á þessu ári, og ég held að þær hafi ekki breyst nema þá að það hafi orðið til lækkunar. Ef svo er athugað árið 1978, þá hefði þetta hlutfall verið 11.6% án þeirrar löggjafar sem ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar beitti sér fyrir, en fer í 12% með þeim. Það þýðir að vinstri stjórn er tekin við og þá um leið hækkar hlutfallið. Þetta fer á árinu 1979 í 13.2% og árið 1980 í 13.9% samkv. þessum tölum.

Ef við svo skoðum nýjasta heftið af Hagtölum mánaðarins getum við séð þetta hlutfall og þá miðað við þjóðarframleiðslu. Þá kemur einmitt í ljós að 1974 er hlutfallið tekjur ríkissjóðs miðað við þjóðarframleiðslu 26.7%, 1975 26.5%, 1976 26.8%, 1977 26.3%. Samkv. þessum tölum — sem ég held að séu þó ívið lægri eftir endurskoðun á þjóðarframleiðslu — er hér um að ræða tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðarframleiðslu frá 26.3% upp í 26.8% í tíð ríkisstj. frá 1974–1978. (Fjmrh.: Og dúndrandi ríkishalli.) Dúndrandi ríkishalli, sagði hæstv. fjmrh. Það er rétt, á árinu 1975 var dúndrandi ríkishalli. En hann á sínar skýringar, vegna þess einfaldlega að 1974, þegar ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar tók við, tók hún við þeirri mestu verðbólgu sem verið hafði í landinu. Það er búið að slá það út að sjálfsögðu núna, því að það eru komnar nýjar vinstri stjórnir síðan, enda er 50% verðbólga, sem menn töluðu um 1974, ekki talin í dag í sjónmáli, heldur 70%.

Ef við athugum örlitið líka hvernig breyting á þjóðarframleiðslu varð 1975, þá kemur fram að hún minnkaði stórlega. Ég vildi gjarnan að hæstv. fjmrh. skoðaði útgjöld ríkisins sem hlutfall af þjóðarútgjöldunum. Þá kemur einmitt í ljós að hlutfallið er nákvæmlega það sama 1973, 1974, 1975, 1976 og 1977, en sem hlutfall af þjóðarframleiðslu er það minna 1975 vegna þess að þjóðarframleiðsla minnkaði og það var verðbólga í landinu sem hafði þessar afleiðingar. Síðan má ekki gleyma því, að í maímánuði 1974 eru samþykkt af þáv. ríkisstj. ný útgjöld upp á 2 milljarða 250 millj. kr., á pappírnum að vísu einhverjar tekjur upp í þetta. Þetta voru útgjöld ríkissjóðs frá og með júnímánuði og út það ár, sem á 12 mánuðum á þessu tímabili voru u.þ.b. 4 milljarðar. Þetta kom allt saman inn í ríkissjóðsdæmið 1975, þannig að hallinn, sem þá var, á sínar skýringar.

Ef við höldum okkur að spurningu hv. þm. og skoðum árið 1978, þá voru tekjur ríkissjóðs — nú erum við að tala um tekjurnar, ekki um útgjöldin — þá voru tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðarframleiðslu ekki 26, ekki 27, heldur 28.3%. Þá er ekki lengur hægri stjórn, eins og hann orðaði það, þ.e. samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. Þá er komin vinstri stjórn og hlutfallið af ríkistekjunum 2% hærra hjá vinstri stjórn heldur en hjá ríkisstj. 1974–1978, sem hv. þm. vildi segja að hefði verið hægri stjórn. Árið 1979 var þetta hlutfall 29.5%.

Nú eru þessar tölur teknar í síðasta mánaðaryfirliti frá Seðlabankanum og spá hans er að tekjur ríkissjóðs verði 28.6% af þjóðarframleiðslunni 1980. Þetta sýnir að það eru vinstri stjórnir í þessu landi sem þyngja skattbyrðina, auka skattana. Það var einmitt þetta sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. í ræðu hans áðan, að þessa skatta verður að leggja á til að ná saman endum. En að það hvarflaði að hv. þm., að hægt væri að draga úr útgjöldum ríkissjóðs og þar á móti kæmi niðurfelling á þeim sköttum sem við höfum verið að tala um og munum tala um á næstu dögum, á það var ekki minnst. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að á þessu tímabili, 1978–1980, hefur hlutfall ríkistekna til opinberra framkvæmda minnkað úr 25% niður í 15%. Þetta segir okkur að það er búið að hlaða á ríkissjóð nýjum og nýjum pinklum í rekstrargjöldum sem veldur því, að ríkissjóður hefur ekki fjármagn til að annast opinberar framkvæmdir eins og áður hafði verið gert, þ.e. nota sama hlutfall af ríkistekjunum, 25%. Og það þótti mönnum á árunum 1974–1978 alls ekki nægilega mikið, þeim sem þá voru í stjórnarandstöðu.

Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram vegna þeirra hugleiðinga og óbeinnar fsp. sem hv. 1. þm. Vesturl. bar fram. Ég held að það hafi sýnt sig af því, sem hér hefur verið sagt, að það eru vinstri stjórnir á Íslandi sem þyngja skattbyrðina. Það hefur sýnt sig hvaða vinstri stjórn sem verið hefur við völd í landinu.