10.12.1980
Efri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

166. mál, frídagar sjómanna á fiskiskipum um jólin

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um frídaga sjómanna á fiskiskipum um jólin og geri það fyrir hönd sjútvrh. sem er fjarstaddur í opinberum erindagerðum eins og kunnugt er.

Þetta frv. er stutt og auðskilið. Í 1. gr. þess segir að á tímabilinu 23.–27. des. ár hvert skuli allir sjómenn á íslenskum fiskiskipum eiga a.m.k. þriggja sólarhringa leyfi í heimahöfn skipsins. Í 2. gr. stendur að brot gegn lögum þessum varði sektum og í 3. gr. að lög þessi öðlist þegar gildi.

Með 3. gr. laga nr. 96 frá 8. sept. 1978 var svo ákveðið, að frá 1. des. 1978 og þar til um annað hefur verið samið skuli grunnlaun og tilhögun verðbóta á laun haldast óbreytt eins og ákveðið er frá 1. sept. 1978 samkv. almennum kjarasamningum, sem gerðir voru á árinu 1977 og fyrstu mánuðum 1978, og samkv. lögum þessum, eins og orðrétt segir í 3. gr. Ein af forsendum þessarar lagasetningar var niðurfelling hluta þeirra verðbóta á laun sem koma áttu til framkvæmda hinn 1. des. 1978. Í stað skerðingar verðbóta, sem af þessu leiddi hét þáv. ríkisstj. samtökum launþega og bænda sérstökum félagslegum umbótum sem síðar var látið leita samkomulags um við hin ýmsu samtök.

Meðal þess, sem samtökum sjómanna var heitið, var lögfesting frídaga fyrir alla sjómenn á fiskiskipum yfir jólahátíðina. Ástæðan til þess dráttar, sem orðið hefur á efndum þess, er eindregin andstaða útgerðarmanna og samtaka þeirra. Hins vegar hafa samtök sjómanna á fiskiskipum aldrei hnikað frá að gefin loforð í þessu efni verði efnd. Hafa að undanförnu komið áskoranir frá áhöfnum flestra togara hér á landi um efndir loforðsins.

Ég vil aðeins segja það um loforð af þessu tagi, að þó að það hafi kannske ekki verið alveg fullkomin yfirlýsing telur núv. utanrrh., þáv. forsrh., að þarna hafi verið um að ræða ígildi loforðs.

Á undanförnum árum hefur þróunin orðið sú, að fiskibátar og minni togarar hafa verið í heimahöfnum yfir jólahátíðina, enda hefur sú tilhögun hentað vel með tilliti til jóla- og nýársfría vinnslustöðva í fiskiðnaði. Í nágrannalöndum okkar er það orðin venja að fiskiskipum, bæði togurum og bátum, hefur verið stefnt til heimahafna um miðjan desember og þá gjarnan unnið að viðhaldi skipanna um þetta leyti árs. Er víst ekki ofsagt að við Íslendingar erum allra þjóða harðastir í sjósókn og því hefur þessi vani ekki verið tekinn upp hér í jafntíkum mæli og t.d. hjá frændum okkar á hinum Norðurlöndunum.

Aðalrökin hjá þeim útgerðaraðilum, sem eru andstæð slíkri lagasetningu og hér um ræðir, eru þau, að fortakslaus stöðvun fiskiskipa geri siglingar á erlenda markaði, sem eru bestir um þetta leyti, ókleifar, en auk þess leggja þeir áherslu á það óhagræði og tjón sem slík stöðvun valdi þeim útgerðum sem eiga og reka mörg skip, þar sem þau verða að leggja niður veiðar samkv. frv. þessu. Hvað sem þessum röksemdum líður ber að standa við gefin loforð og þar sem ekki hefur reynst unnt að ná samkomulagi er þetta frv. komið fram, enda er óeðlilegt að við Íslendingar skerum okkur úr öðrum þjóðum um frídaga til handa fiskimönnum okkar á mestu hátíð kirkjuársins. Auk þessa hefur, eins og ég sagði áður, þróunin hér heima orðið sú, að allir minni togararnir, sem eru líklega um 70 talsins, hafa verið í heimahöfn um jólin svo og allur bátaflotinn. Það eru aðeins stóru togararnir sem ekki hafa verið það, en ég hygg að þeir séu rúmlega 15 eða kannske eru þeir 17 nákvæmlega talið.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að gera tillögu um að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til sjútvn.