10.12.1980
Efri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

153. mál, samningur um gagnkvæma aðstoð í tollamálum

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um gagnkvæma aðstoð í tollamálum. Ég geri það fyrir hönd utanrrh. sem er fjarstaddur í opinberum erindum.

Þetta frv. fjallar, eins og heiti þess ber með sér, um það samkv. 1. gr.ríkisstj. sé heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um gagnkvæma aðstoð í tollamálum, en samningurinn er prentaður sem fskj. með frv.

2. gr. fjallar um það, að þegar samningurinn hefur öðlast gildi að því er Island varðar skuli ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi.

3. gr.: Fjmrh. setur nánari reglur um framkvæmd þessara laga.

4. gr. er um gildistöku, að lögin öðlist gildi þegar í stað. Þetta frv. er lagt fyrir Alþ. til þess að afla heimildar fyrir ríkisstj. til fullgildingar á samningi milli Ístands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um gagnkvæma aðstoð í tollamálum svo og að veita ákvæðum samningsins lagagildi hér á landi.

Fyrir rúmum 20 árum var tekið upp náið samstarf milli Norðurlandanna um tollamálefni. Samstarfi þessu hefur verið stjórnað af tollstjórum landanna, Norræna tollasamvinnuráðinu (NTR), og hefur stofnskrá þess hlotið staðfestingu ríkisstjórna landanna, að því er Ísland varðar með bréfi fjmrh. 4. ágúst 1960 og aftur 26. sept. 1975. Hlutverki ráðsins er lýst í stofnskránni og tekur það til allra þátta tollamálefna, bæði norrænna og alþjóðlegra. Samstarfið er talið hafa gefist allvel og hefur haft í för með sér talsverðan árangur, bæði almennt og í einstökum málefnum.

Á fundi ráðsins í Moss í Noregi 1977 var frekari formfesting á þessu samstarfi rædd. Á þeim fundi var skipuð sérfræðinganefnd til að semja uppkast áð samningi sem leggja skyldi fyrir næsta fund ráðsins. Sá fundur var haldinn í Helsingfors í september 1979 og var uppkast nefndarinnar samþykkt þar með minni háttar breytingum. Hefur síðan verið unnið að þýðingu samningsins á öll Norðurlandamálin og jafnframt samdar framkvæmdareglur til nánari útfærslu samningsins. Samningurinn öðlast gildi þremur mánuðum eftir að öll Norðurlöndin hafa fullgilt hann. Gert er ráð fyrir gildistöku framkvæmdareginanna á sama tíma.

Aðstoð sú, sem í samningnum felst, er þrenns konar. Það er í fyrsta lagi aðstoð við framkvæmd tollalaga almennt, þ.e. álagningu tolla og annarra inn- og útflutningsgjalda svo og að haldnar séu reglur um inn- og útflutning. Í öðru lagi er aðstoð við innheimtu tolla og annarra gjalda. Og í þriðja og síðasta lagi er aðstoð til að koma í veg fyrir, rannsaka og upplýsa brot á tollalöggjöfinni. Samningurinn tekur til tolla og annarra opinberra gjalda sem ákvörðuð eru af tollyfirvöldum.

Samvinnu þessa verður að telja eðlilegt framhald þess samstarfs sem stofnað hefur verið til, m.a. með ályktun Tollasamvinnuráðsins í Brussel frá 5. des. 1953, um gagnkvæma aðstoð tollyfirvalda til að koma í veg fyrir smygl. Ísland gerðist aðili að Tollasamvinnuráðinu árið 1971 og aðili að fyrrnefndri ályktun frá 1. maí 1973. Af hálfu Tollasamvinnuráðsins hefur síðan verið samþykktur nýr texti að alþjóðasamþykkt um gagnkvæma aðstoð tollyfirvalda aðildarríkjanna til að koma í veg fyrir brot á tollalögum, rannsaka þau og sækja til saka fyrir þau. Samþykkt þessi var undirrituð af Íslands hálfu hinn 29. júní 1978 með fyrirvara um staðfestingu.

Auk þeirrar fjölþjóðlegu samvinnu um tollamál, sem Ísland hefur tekið þátt í, hafa íslensk tollyfirvöld hin síðari ár haft mikilsverða óformlega samvinnu við tollyfirvöld einstakra ríkja til að tryggja rétta álagningu tolla og annarra inn- og útflutningsgjalda svo og að tollalöggjöf sé að öðru leyti virt. Að því er varðar samvinnu Íslands og Sambandslýðveldisins Þýskalands hefur nú verið komið á formlegum samskiptum á þessu sviði með samningi milli landanna frá 11. okt. 1977. Samningnum var veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 44 frá 10. maí 1978 og tók hann gildi hinn 11. okt. sama ár, sbr. auglýsingu í Stjórnartíðindum, C-deild, nr. 9 frá 1978. Hliðstæður samningur milli Íslands og Póllands um samstarf og gagnkvæma aðstoð í tollamálum var undirritaður hinn 24. okt. s.l. og tekur hann gildi 29. des. n.k.

Aukin samskipti þjóða kalla óhjákvæmilega á ýmiss konar eftirlit með vöru- og farþegaflutningum á milli landa, — eftirlit sem eðli málsins samkvæmt getur ekki orðið fullkomlega virkt nema tryggð sé samvinna milli tollyfirvalda viðkomandi landa. Um slíka samvinnu er rétt að settar séu reglur þar sem kveðið sé á um réttindi og skyldur aðila. Eins og fram kemur hér að framan hafa Norðurlöndin orðið ásátt um einstök ákvæði slíks samnings um gagnkvæma aðstoð í tollamálum og er frv. þetta lagt fram til að afla heimildar til fullgildingar á samningnum og veita einstökum ákvæðum hans lagagildi hér á landi.

Ég geri ekki ráð fyrir að það sé pólitískur ágreiningur um þetta mál, enda er þetta í raun og veru framhald af samvinnu sem hefur staðið um langt árabil milli Norðurlandaþjóðanna. Ég vil mælast til þess við þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún hraði afgreiðslu þess eins og kostur er þannig að það megi koma því fram fyrir jólahlé þingsins.

Að lokinni 1. umr. leyfi ég mér að leggja til að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn.