10.12.1980
Efri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

156. mál, tímabundið vörugjald

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er eitt af fjölmörgum frv. sem eftir er að afgreiða fyrir áramót til þess að tekjuáætlun fjárl. fái staðist. Mér sýnist að það hefði verið hægt að flytja þetta og fleiri frumvörp fyrr þannig að hv. Alþ. gæti betur um þau fjallað.

Ég vil vekja athygli hv. deildar á því, að þetta frv. er framlenging á sérstöku vörugjaldi sem hækkað var á árinu 1979 um 6 prósentustig og er ætlað að halda áfram á næsta ári. Þessi hækkun ein mun leggja 11 milljarða kr. skattaálögur á þjóðina á næsta ári. Þeir nýir og hækkaðir skattstofnar, sem hæstv. núv. ríkisstj. og fyrri vinstri stjórn beittu sér fyrir frá árinu 1978, frá því á voru lagðir sérstakir skattaukar þá, afturvirkir skattar, virðist mér að nemi hvorki meira né minna en 60 milljörðum kr. á næsta ári samkv. tekjuáætlun fjárlagafrv. Þetta er einn þátturinn í þessu skattahækkanaflóði.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. út af fyrir sig, en endurtek að mér sýnist að ríkisstj. hefði mjög auðveldlega getað sýnt Alþ. þá virðingu að leggja þessi frumvörp, sem hún er að leggja fram núna, fram fyrr. Svo er raunar um fleiri mál að því er varðar afgreiðslu fjárlaga. T.d. minnir mig að standi í aths. við fjárlagafrv. að lánsfjáráætlun yrði lögð fram í byrjun nóvember. Nú er farið að líða nokkuð langt á desember og ekki sést gripurinn.