10.12.1980
Efri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

162. mál, ráðgjöf og fræðsla varðandi fóstureyðingar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um það frv. sem er til umr. Ég vil þó segja örfá orð.

Ég tjáði mig á liðnu þingi, þegar þetta frv. var þá til umr., á þann veg, að ég treystist ekki á því stigi til að lýsa yfir fylgi við það, en ég lýsti yfir fylgi við fjölmargt af því, sem fram kom í ræðu hv. flm., og geri það sömuleiðis nú.

Ég ætla ekki að tína hér upp tölur eða ýmislegt það sem komið hefur fram að því er varðar framkvæmd fóstureyðinga. Ýmislegt að því lútandi er dálitið yfirborðskennt. Það er ekki hægt að vita í smáatriðum hvað þar gerist raunverulega. En ég neita því ekki, að sá gífurlegi fjöldi fóstureyðinga, sem tölur vitna um, setur vissulega að manni ugg. Og það er mála sannast, að eftir 1975 varð gífurleg fjölgun á fóstureyðingum. Þá er ekki óeðlilegt að menn segi sem svo: Það er á forsendum rýmkunar heimilda sem var gerð með lagabreytingunni 1975, þ.e. fóstureyðingar eru heimilaðar á forsendum félagslegra ástæðna. Nú þykir mér út af fyrir sig forvitnilegt að fá það nánar útskýrt, ef hægt væri að fá nánari útskýringar á því, ekki hér í þessari hv. deild, heldur þegar þetta mál er komið til nefndar, hvernig lögin eru framkvæmd, hvort er um það að ræða að farið sé of frjálslega með þennan þátt laganna, þ.e. fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Ég lýsi því hér yfir, að sem formaður heilbr.- og trn. mun ég beita mér fyrir því, að n. kynni sér, eftir því sem tök eru á, framkvæmd laganna eftir 1975 og geri jafnvel samanburð við fyrri ár. Þetta kann að vera allnokkurt verk, en ég tel það skyldu okkar, sem í þeirri n. sitjum, að vinna það verk, eins og ég tók fram áðan, eftir því sem tök eru á. Það er fjölmargt sem vert væri að ræða, en það er aðeins eitt sem ég vil taka fram. Það er vitað að fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu vildu gjarnan taka fósturbörn. Ég leyfi mér að efast um það, án þess að ég vilji fullyrða nokkuð að það sé nægilegt upplýsingastreymi á milli heilbrigðisstofnana okkar og þess hóps í þjóðfélaginu sem hugsanlega vildi taka að sér þau börn sem af einhverjum orsökum eru því miður ekki velkomin í þennan heim.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en vænti þess, að heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar verði samstíga í því að athuga framkvæmd þeirrar löggjafar sem hér er fjallað um.