10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

29. mál, Grænlandssjóður

Frsm. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Allshn. Nd. hefur haft til athugunar frv. Grænlandssjóð og fengið til ráðuneytis Sigurgeir Jónsson aðstoðarbankastjóra Seðlabankans. Nefndin er sammála um að mæla með því, að þetta frv. verði samþ., en flytur við það þrjár brtt.

Fyrsta brtt. varðar aðeins orðalag sem ekki skiptir máli. Önnur brtt. varðar það atriði, að í frv. er gert ráð fyrir að framlög í sjóðinn séu innt af hendi úr ríkissjóði á árunum 1980, 1981 og 1982, 75 millj. kr. hvert ár. Að athuguðu máli þótti ekki líklegt að hægt væri að greiða þetta framlag úr ríkissjóði á árinu 1980, og því leggur nefndin til að framlög í sjóðinn verði greidd á árunum 1981 og 1982, 125 millj. kr. hvort ár.

Þarna er sem sagt gert ráð fyrir lítils háttar hækkun á framlagi ríkissjóðs í þennan sjóð, en hins vegar kemur framlagið örlítið seinna í sjóðinn.

Það þykir nauðsynlegt og vel við hæfi, að þessi sjóður sé í stakk búinn til þess að taka til starfa á árinu 1982, en þá eru talin vera liðin 1000 ár frá því að Eiríkur rauði fór sína fyrstu ferð til Grænlands.

Þriðja brtt., sem nefndin flytur, varðar varðveislu sjóðsins. Í frv. er gert ráð fyrir að framlögum í sjóðinn sé tafarlaust breytt í erlendan gjaldeyri og þau varðveitt í erlendum gjaldeyri. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að þar sem þessi sjóður á eingöngu að úthluta 9/10 hlutum af vaxtatekjum sínum má gera ráð fyrir því, ef sjóðurinn er varðveittur í erlendum gjaldeyri, að vaxtatekjurnar verði ekki verulega miklar. Hins vegar verður höfuðstóll sjóðsins gengistryggður. Það verður sem sagt ekki hvort tveggja mögulegt, að gengistryggja sjóðinn og hafa hann með háum vöxtum. Við í nefndinni leggjum því til að orðalagi verði vikið lítilsháttar við. Í stað þess, að ákveðið sé í frv, að sjóðinn skuli varðveita í erlendum gjaldeyri, viljum við orða það þannig, að sjóðinn megi varðveita í erlendum gjaldeyri, og ætlumst til að stjórn sjóðsins semji um það við Seðlabanka Íslands, sem á að annast varðveislu sjóðsins, hvaða leið verði valin í þessu efni.

Þessar breytingar, sem við leggjum til að gerðar verði á frv., eru allar gerðar í samráði við 1. flm. þessa máls.