10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

67. mál, tollheimta og tolleftirlit

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 73 og 74 eru af sama meiði og frv. á þskj. 72 um tollkrít, sem hv. 1. þm. Reykn. hefur mælt fyrir. Flm. eru þeir sömu að öllum þremur frv., hv. 1. þm. Reykn., 10. þm. Reykv., 6. þm. Norðurl. e., 3. þm. Reykv. og 4 þm. Austurl. Þessi frv. eru öll endurflutt. Þau voru lögð fram seint á síðasta þingi. Ekki gafst tími til að afgreiða þau á því þingi, enda komu þau, eins og ég sagði, seint fram, þó undirtektir væru mjög góðar.

Eins og allir vita hefur það verið áhugamál verslunarinnar um langt skeið að vörudreifingin verði sem greiðust og ódýrust. Það er markmið sem jafnframt hlýtur að koma öllum neytendum til góða. Í þessu sambandi má benda á að á viðskiptaþingi árið 1979 var samþykkt ákveðin stefnuyfirlýsing í þessum málum, þar sem í fyrsta lagi var óskað eftir því, að vöruskoðun yrði aðskilin tollafgreiðslu og meðferð tollskjala annars vegar og flutningi vörunnar hins vegar, þannig að vöru megi flytja beint frá skipi í vörugeymslu innflytjanda; í öðru lagi að gera tollyfirvöldum mögulegt að taka upp reikningsviðskipti við innflytjendur varðandi innheimtu aðflutningsgjalda; í þriðja lagi að kostnaður við tollheimtu og tolleftirlit sé borinn af ríkissjóði eins og við aðra löggæslu, enda nýtur hann teknanna auk þess sem stjórnvöld ákveða umfang eftirlitsins. Með því er stefnt að aukinni hagræðingu í störfum Tollgæslunnar.

Segja má að tollkrítarfrv. á þskj. 72 svari til annars liðar í ályktun þingsins, þar sem frá því er greint að æskilegt sé að tollyfirvöld megi taka upp reikningsviðskipti við innflytjendur vegna innheimtu aðflutningsgjalda.

Hins vegar er með þeim tveimur frv., sem ég mæli fyrir sem 1. flm., verið í fyrsta lagi að greiða fyrir innflutningi með fjölgun tollhafna og liprari reglum fyrir farmflytjendur og í öðru lagi að framlengja innflutningsleiðina, ef svo má að orði komast, alla leið til innflytjandans og láta reglur, m.a. um tolla og fleira, ná alla leið til geymslusvæðis innflytjandans. Í þessu sambandi má t.d. minna á afslátt vegna skemmdar eða vöntunar sem verður í flutningi. Þá ættu þær reglur að gilda eins á flutningsleiðinni frá skipi til geymslusvæðis innflytjandans sem kemur nánast í staðinn fyrir geymslusvæði farmflytjanda í dag.

Í þriðja lagi er lagt til að lagfærðar verði samskiptareglur tollyfirvalda annars vegar og farmflytjenda og innflytjenda hins vegar.

Í fjórða lagi er reynt að auðvelda flutningsmiðlurum störf, en flutningsmiðlarar eru þeir sem taka að sér flutning á vöru fyrir marga innflytjendur í senn og geta þannig náð ódýrari flutningi með slíkri samvinnu fleiri innflutningsaðila.

Í fimmta lagi er með þessum frv. og þá sérstaklega breytingum í frv. á tollskrárlögunum verið að gera ráð fyrir að framhaldsflutningur sé tollfrjáls. Getur það gefið Íslendingum möguleika á innflutningi til nágrannaþjóða sinna, t.d. þeirra sem búa í Færeyjum eða á Grænlandi, þannig að flutningur geti gengið til landsins og síðan héðan til þeirra landa. Í þessu sambandi er rétt að minna á þáltill. sem flutt var á síðasta þingi af Karli Steinari Guðnasyni og fleirum um tollfrjálst iðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli, en þessi mál eru mjög skyld efnislega.

Í sjötta lagi eru síðan gerðar tillögur um breytingar á tollskrárlögum, ýmsar smærri tillögur, en þó ein nokkru stærri, um afnám bankastimplunar á tollskjölum. Ísland mun vera eitt af örfáum, ef ekki eina landið í heiminum þar sem bankastimplun er skilyrði fyrir því að farmbréf hafi lögmætt gildi. Á þetta minnist ég sérstaklega nú þar sem svo einkennilega vill til, að bankastarfsmenn eru í verkfalli á mesta annatíma. Það gerir að verkum að innflutningur og heimkeyrsla úr geymslum leggst niður vegna þess forneskjulega fyrirkomulags sem hér ríkir. Í 6. gr. frv. á þskj. 74 er einmitt gert ráð fyrir að viðurkenning viðskiptabanka falli niður úr 19. gr. laganna eins og þau eru í dag. Á þetta legg ég sem sagt sérstaka áherslu vegna bankaverkfalls, sem hefur mun víðtækari áhrif núna en ella, og sýnist vera um kerfi að ræða hér á landi sem er nánast einsdæmi, en hægt væri að greiða fyrir viðskiptum ef þetta væri lagt af.

Tilgangurinn með flutningi þessara tveggja frv. er að sýna í tillöguformi nokkrar breytingar sem eru til bóta að áliti flm. og einföldunar eða beinar afleiðingar tollkrítarinnar sem hv. 1. þm. Reykn. lýsti áðan. Eins og ég gat um hljóðaði þriðji liður stefnuyfirlýsingar viðskiptaþings 1979 á þá leið, að kostnaður við tollheimtu og tolleftirlit yrði borinn af ríkissjóði. Þegar verið var að útbúa þessi frv. á síðasta þingi, en þau eru endurflutt, töldu flm. rétt að skilja þetta atriði frá öðrum sem fram koma í frv., m.a. vegna þess, að ekki liggja fyrir nægilega góðar upplýsingar um hvernig þessum málum er háttað í öðrum löndum, og eins vegna hins, að ekki er ljóst hvort ríkissjóður verður fyrir einhverju tekjutapi af þeirri breytingu. Það er þó eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort ástæða sé til að viss hluti kostnaðarins við tollheimtuna sé innifalinn í vöruverðinu eða hvort kostnaður, sem þannig myndast, eigi að koma sérstaklega fram í fjárlögum eins og annar beinn löggæslukostnaður. Við flm. kusum að fara þá leið að geyma þetta atriði, en tökum fram í grg. að þetta sé mál sem þurfi að kanna, ekki síst þegar umræður um tollkrít eiga sér stað. Kemur því til greina að hv. fjh.- og viðskn., sem fær þessi mal væntanlega til meðferðar, taki þetta til athugunar ellegar að flutt verði þáltill. um að þessi mál verði sérstaklega könnuð.

Þegar þessi frv. voru til umræðu á síðasta þingi, reyndar á síðasta degi þess, kom fram mikill stuðningur við málið, eins og fram hefur komið bæði í ræðu minni og ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hæstv. forsrh. tók til máls og hæstv. fjmrh. lýsti jafnframt sínum viðhorfum til málsins. Hv. síðasti ræðumaður hefur gert grein fyrir því sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., en þar var um mjög sterkan stuðning við þessi mál að ræða og hann tjáði þingheimi þá að um þessi mál hefði verið fjallað í ríkisstj. og þar væri stuðningur við málið. Hv. 3. þm. Reykv. tók til máls í þessum umræðum og gerði jafnframt fsp. varðandi tollvörugeymslur. Í svarræðu hæstv. forsrh. um það mál sagði hann m.a., með leyfi forseta:

Hv. 3. þm. Reykv. drap í máli sínu á það sem gerðist fyrir allmörgum árum, þegar sett voru lög um tollvörugeymslur. Enginn vafi er á að þau lög hafa haft mikil jákvæð og góð áhrif. Það féll í minn hlut á þeim tíma sem fjmrh. að flytja frv. um tollvörugeymslur. Ég minnist þess vel, sem hv. þm. nefndi, að margvíslegir annmarkar voru taldir á því að fara þá leið og mikil tregða hjá ýmsum að leggja inn á þá braut. Það er hárrétt, sem hann tók fram, að reynslan hefur sýnt hið gagnstæða, að þetta fyrirkomulag hefur orðið öllum til góðs. Ég vænti þess að eitthvað svipað verði um greiðslufrest á tollum eða tollkrít, þó að margir telji fram margvíslega annmarka og hættur í því sambandi muni það reynast vel og ekki verða ríkissjóði sá böggull sem sumir telja, heldur fara í gagnstæða átt, að þegar upp er staðið og nokkur reynsla komin á þetta fyrirkomulag muni allir telja að hér hafi verið rétt spor stigið.“ — Hér lýkur tilvitnun í ræðu hæstv. forsrh. þar sem hann lýsti skoðunum sínum á þessum frv. um leið og hann fjallaði um tollvörugeymslur sem eru angi á sama meiði og hér er verið að tala um.

Hæstv. fjmrh. tók enn fremur til máls við þessa umræðu og sagði í máli sínu m.a., með leyfi forseta:

„Ég hef hins vegar kynnt mér nál. og óskað eftir nánari athugun málsins og tel sjálfsagt að undinn verði bráður bugur að því að kanna til fulls hvort hér er ekki um framfaraspor að ræða.

Það er ljóst, að þetta nýja fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt frá tveimur sjónarmiðum. Annars vegar er á það bent, að ríkissjóður verði fyrir allnokkrum tekjumissi af þessum sökum, og hins vegar er ótti um að sá tekjumissir hafi þensluáhrif í efnahagskerfinu og valdi aukningu peningamagns í umferð. Hitt er ljóst, að þetta nýja fyrirkomulag hefur margvíslega kosti og því nauðsynlegt og sjálfsagt að athuga það gaumgæfilega.

Ég tel nokkuð ljóst að þetta nýja kerfi verður tæpast tekið upp í einni svipan. Vafalaust þarf að koma því á hægt og þétt, svo að ekki verði um að ræða þensluáhrif í efnahagskerfinu og að ríkissjóður verði ekki fyrir verulegum skakkaföllum. Það þarf að velja hentugan tíma á árinu til að tryggja að ríkissjóði komi það ekki mjög illa að verða af tekjum þegar þessi skipan er upp tekin og að ekki sé þá á sama tíma verulegur hallarekstur á ríkissjóði eða skuldaaukning hjá Seðlabankanum. Af þessum ástæðum hef ég dregið þá ályktun, að hyggilegast mundi vera að taka upp nýtt skipulag af þessu tagi fremur á síðari hluta árs en fyrri hluta árs.

En ég sem sagt ítreka það sem ég hef þegar sagt, að ég tel sjálfsagt að þetta mál verði gaumgæfilega athugað á næstu vikum og nú í sumar undirbúið fyrir komandi þing að hausti.“

Nú er komið haust, fram á vetur og liður að jólum og enn heyrist ekki hósti eða stuna frá hæstv. ríkisstj. En það er von okkar flm., að með þögn sinni sé hæstv. ríkisstj. að undirstrika stuðning sinn við þessi frv. sem hér liggja frammi. Því til stuðnings er rétt að benda á að einmitt á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að ríkissjóður sé rekinn með tekjuafgangi. Enn fremur hefur hæstv. fjmrh. sagt af stefnu sinni á næsta ári þannig, að aldrei hefur betur viðrað til þessa máls en einmitt núna að áliti hæstv. ráðh., ef taka má mark á skoðunum hans við umræðuna á Alþingi í fyrra.

Herra forseti. Ég hef reifað aðalatriði þeirra tveggja frv. sem ég er 1. flm. að. Ég geri það að till. minni, að að loknum umr. verði þessum frv. vísað til 2. umr. og til hv. fjh.- og viðskn., og ég geri mér vonir um, vegna góðra undirtekta í fyrra við þetta mál, að þau fái hraða og góða afgreiðslu hjá hv. n. og síðan hjá hv. Alþingi.