10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

119. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um Lífeyrissjóð bænda. Þetta er ekki neitt stórmál og hefur ekki í för með sér neina umtalsverða breytingu á starfsháttum þessa sjóðs og enn síður að það hafi í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð eða lífeyrissjóðinn. Hér er eingöngu um að ræða samræmingu á kjörum þeirra lífeyrisþega sem lífeyri fá úr þessum sjóði, en fram til þessa hefur verið munur á því hvaða eftirlaun menn hafa hlotið, eftir því hvort þeir hafa öðlast réttindi miðað við starfstíma eða réttindi miðað við greiðslur til sjóðsins. Það hafa sem sagt verið tvenns konar viðmiðanir uppi hafðar í þessu sambandi og hér er verið að samræma þær því kerfi sem gildandi er hjá öðrum lífeyrissjóðum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, sem gerð er viðunandi grein fyrir í athugasemdum við frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.