10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

152. mál, biskupskosning

Frsm. (Ingólfur Guðnason]:

Herra forseti. Á þskj. 190 flytur menntmn. Nd. frv. til l. um biskupskosningar. Þetta frv. er í átta greinum og er því ætlað að koma í stað laga nr. 21 frá 1921 um sama efni, ef samþykkt verður. Núgildandi lög um biskupskosningar frá 1921 hafa engum breytingum tekið síðan, en með þessu frv. er gert ráð fyrir veigamiklum breytingum frá núgildandi lögum.

Frv. þetta, sem hér er flutt, var einróma samþykkt á kirkjuþingi því sem haldið var í nóvember s.l. og var sent dóms- og kirkjumrh. með beiðni um að það yrði flutt á Alþ. því sem nú situr. Samkv. beiðni dóms- og kirkjumrh. flytur menntmn. Nd. frv. nú.

Ég mun hér á eftir í stuttu máli gera grein fyrir þeim breytingum sem þetta frv. felur í sér í samanburði við þau lög sem nú gilda um biskupskosningar.

1. gr. frv. kveður á um kjörgengi til biskups, og er það í samræmi við þær reglur sem nú gilda, en í núgildandi lögum er sambærileg lagagrein svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Allir þjónandi prestar og prófastar þjóðkirkjunnar, sem og guðfræðikennarar háskólans, tilnefna 3 menn sem biskupsefni, er rétt hafa til embætta í þjóðkirkjunni, í þeirri röð er þeim þykir best við eiga.“

Það er því mjög í anda eldri laganna sem 1. gr. frv. kveður á um biskupskjörgengi.

2. gr. kveður á um hverjir skuli eiga kosningarrétt við biskupskjör og felst í greininni ein af meginbreytingum frv. frá núgildandi lögum. Þar sem nú eru fleiri menn við störf hjá þjóðkirkjunni en þegar lögin frá 1921 voru sett er eðlilegt að kveða á í nýjum lögum, hver réttur þeirra sé, og leitast við að taka af öll tvímæli, eftir því sem kostur er.

Í 1. tölul. 2. gr. er leitast við að skilgreina hverjir lærðir menn skuli hafa kosningarrétt við biskupskjör. Í 2. og 3. tölul. 2. gr. felast svo meginbreytingarnar í frv. frá núgildandi lögum.

2. tölul. 2. gr. gerir ráð fyrir kosningarrétti þeirra kjörinna leikmanna, sem sæti eiga á kirkjuþingi þegar biskupskosning fer fram, svo og leikmanna, sem sitja í kirkjuráði, en eigi eru jafnframt kjörnir kirkjuþingsmenn. Eins og stendur munu þetta vera 8 leikmenn.

3. tölul. 2. gr. gerir ráð fyrir að einn leikmaður fyrir hvert prófastsdæmi, þó tveir frá Reykjavíkurprófastsdæmi, sé kjörinn af leikmönnum, sem sæti eiga á héraðsfundum, og hafi þeir kosningarrétt við biskupskjör. Prófastsdæmin í landinu eru 15 og mundu því 16 leikmenn fá kosningarrétt við biskupskjör samkv. 3. tölul. þessarar greinar frv. Samtals mundu því 24 leikmenn fá kosningarrétt við biskupskjör samkv. 2. og 3. tölul. 2. gr. frv, og er hér vissulega um nýmæli að ræða og áhrif leikmanna á biskupskjör tryggð. Vænti ég að breyting þessi, ef að lögum verður, verði kirkjunni til heilla og þyki spor í lýðræðisátt.

3. gr. frv. kveður á um kjörstjórn við biskupskosningar og er það fyrirkomulag mjög í anda þess sem almennt gerist um kosningar í þessu þjóðfélagi. Sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um greinina.

Sama má raunar segja um 4. gr. frv., en 4. gr. fjallar um kosningaathöfnina sjálfa og 5. gr. um kosningakærur. Í 6. gr. frv. felst önnur aðalbreyting frá núgildandi lögum, en það eru ákvæði um úrslit kosninga. Samkv. núgildandi lögum frá 1921 skal tilnefna þrjá menn sem biskupsefni í þeirri röð sem þeim, sem kosningarrétt hafa, finnst best við eiga. Rétt kjörinn biskup er sá sem hlýtur 3/5 hluta atkvæða og eru úrslit þá bindandi fyrir veitingavaldið. Ef enginn fær þann atkvæðafjölda skal embættið veitt einum þeirra þriggja sem flest fá atkvæði. 6. gr. frv. gerir aftur á móti ráð fyrir þeim möguleika að kjósa þurfi tvisvar, þ.e. ef enginn fær meiri hluta atkvæða í kosningum. Skal þá kosið öðru sinni með bundinni kosningu milli þeirra þriggja sem flest fengu atkvæðin. Er sá rétt kjörinn biskup sem þá fær flest atkvæði. — Hér finnst e.t.v. fleirum en mér að breyting sú, sem frv. gerir ráð fyrir, gangi í átt til aukins lýðræðis, þar sem frv. gerir ráð fyrir að vilji þeirra, sem kosningarrétt hafa samkv. frv., ráði að fullu hver verður biskup þar sem veitingavaldið hefur eingöngu áhrif á úrslit ef atkvæði verða jöfn milli efstu manna í síðari umferð kosninga.

7. gr. frv. fjallar um setningu reglugerðar og 8. gr, um gildistöku laganna. Einnig fjallar 8. gr. um kosningu kjörmanna úr prófastsdæmum og kosningu í kjörstjórn með tilliti til væntanlegra biskupskosninga á næsta ári, því á næsta ári er áætlað að biskupskosningar fari fram.

Það er von menntmn. Nd. að frv. þetta fái afgreiðslu nú fyrir jólaleyfi Alþingis því að fyrirsjáanlegt er að alllangan tíma mun taka að undirbúa kosningarnar, þ.e. útgáfa reglugerðar og kosning kjörmanna í prófastsdæmum, m.a. vegna árstíma.

Menntmn. beggja deilda Alþingis hafa á sameiginlegum fundi rætt frv. og fengið til viðræðu dr. Ármann Snævarr prófessor, m.a. í þeim tilgangi að flýta fyrir afgreiðslu frv. á Alþingi. Óska ég þess, herra forseti, að þér gerið það sem þér getið til þess að flýta afgreiðslu frv. um biskupskosningu hér í hv. Nd. Alþingis.

umr. lokinni óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr.