10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

152. mál, biskupskosning

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að þess eru allmörg dæmi að mál séu flutt af nefndum þingsins, en þau eru þá nær ævinlega tekin til nánari skoðunar í nefnd á nýjan leik eftir að 1. umr. hefur farið fram. Ég gæti í fljótu bragði nefnt mýmörg dæmi þessa. T.d. vil ég nefna frv. um mannanöfn, sem á sínum tíma var flutt af menntmn. Ed. og var síðan vísað aftur til nefndarinnar. Ég vil nefna frv. um prestskosningar, sem var líka flutt af menntnm. og vísað aftur til nefndarinnar, og mörg önnur dæmi gæti ég nefnt. Ég held að þetta sé satt að segja viðtekin regla. Ef nefnd tekur að sér að flytja mál er það eingöngu formsatriði því að hún flytur það fyrir viðkomandi ráðh., en síðan fær hún það aftur, eftir að þm. hafa átt þess kost að segja sitt álit á málinu, og sendir það þá venjulega til umsagnar.

Ég tel að þetta sé eitt af þeim málum sem bæði ég og margir aðrir þurfa að fá einhverjar leiðbeiningar um hvaða afstöðu á að taka til. Ég segi fyrir mig, að ég hef ekki myndað mér mjög ákveðna skoðun í málinu, og tel alveg sjálfsagt að aðilar utan þingsins eigi þess kost að leiðbeina okkur þm. um hvað er skynsamlegt og hvað er óskynsamlegt í þessum efnum. Þess vegna fer ég eindregið fram á það, að málið sé tekið til meðferðar í menntmn. Nd., og geri það að tillögu minni að því verði vísað þangað.