11.12.1980
Efri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

176. mál, vörugjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um vörugjald. Lög þessi um vörugjald eru orðin nokkuð gömul í hettunni, hafa verið í gildi í rúman áratug og fela í sér álagningu nokkurs gjalds á gosdrykki og aðra óáfenga hressandi vökva og á nokkrar sykraðar vörur. Þessi gjöld voru lengi kölluð tollvörugjöld, en hafa nú á seinni árum borið nafnið vörugjald.

Fram undir þetta hefur gjaldið verið lagt á með ákveðinni krónutölu á tiltekið magn þessara vörutegunda, en með þessu frv. er lagt til að beitt verði hlutfallslegri álagningu í stað krónutöluálagningar. Jafnframt er gjaldið hækkað nokkuð til samræmis við verðþróun undanfarinna ára.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þetta frv. sem er afskaplega einfalt í sniðum og fyrst og fremst fólgið í því, að verið er að samræma gjaldið þeirri verðþróun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, og þar með að hækka það nokkuð. Ef gjaldið væri haft hlutfallslega jafnhátt nú og það var fyrr á þessum áratug mætti vafalaust hækka það allmiklu meira en gert er. Sérstaklega gildir það um sælgætið. Ekki var þó talin ástæða til að ganga lengra í þessum efnum en gert er í frv. vegna þess að jafnframt eru nokkur sérstök gjöld önnur á sælgætisvörum.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.