23.10.1980
Sameinað þing: 8. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat ekki varist brosi þegar ég heyrði í 1. þm. Reykv. þar sem hann úthúðaði bæði flokksbræðrum sínum og öðrum fyrir hið hræðilega samstarf við kommúnista og kommúnistahættuna sem þeir væru algerlega andvaralausir fyrir. Þessi hv. þm. var reiðubúinn á s.l. vetri að ganga í stjórnarsamstarf við Alþb. Það var enginn kommúnistaótti í honum þá. Skilyrði þess var aðeins það, að það varð að halda sig við kauplækkunartillögur hans sem hröktu hann úr forsrh.-stól og hann virðist ekki hafa lært enn þá að gilda ekki í þessu þjóðfélagi. Ég ann þessum hv. þm. persónulega betra hlutskiptis en þeirrar eyðimerkurgöngu sem hann gengur nú í pólitískum efnum.

Sá er jafnan háttur alþm. í útvarpsumr., að stuðningsmenn viðkomandi ríkisstj. ausa á stjórnina lofi og telja jafnvel störf hennar kraftaverk. En stjórnarandstæðingar halda því fram, að önnur eins óöld hafi aldrei ríkt í landinu. Þannig hefur þetta verið um árabil og sjálfsagt verður það svo enn hér í kvöld. Ég mun hvorugan þennan flokk fylla, þó ég vilji verja ríkisstj. falli og styðja hana til góðra mála.

Stjórnarandstaðan í Sjálfstfl. kallar þessa ríkisstj. meiri vinstri stjórn en allar aðrar, en Alþfl. kallar þetta eina mestu hægri stjórn sem hér hefur setið. Hvorug þessara fullyrðinga er rétt.

Ég fagnaði því mjög á s.l. vetri þegar ríkisstj. knúði fram ný lög um verkamannabústaði þar sem lánað er allt að 90% kaupverðs íbúða. Þau eiga að tryggja að á næstu þrem árum verði byggðar ekki færri en 1500 slíkar íbúðir. Dregur nokkur í efa að slíkt er láglaunafólki hagstætt? Má ekki draga úr þeirri gífurlegu spennu sem nú er á leigumarkaði húsnæðis? Þetta gerir fólki kleift að eignast eigið húsnæði, sem ella hefði orðið því ofviða.

Ég fagna líka þeim ítarlegu lögum sem sett voru um heilbrigði og hollustuhætti á vinnustöðum á s.l. vetri. Þau skapa grundvöll fyrir stórfelldar breytingar á hollustuháttum og aðbúnaði á vinnustöðum, sem er ótrúlega áfátt hér á landi og veldur meira heilsutjóni en menn gera sér almennt grein fyrir. Lagasetning ein dugar ekki til. Verkalýðsfélögin verða að tryggja undanbragðalausa framkvæmd laganna. Ég fagnaði líka sérstakri 5% hækkun til örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega. Hins vegar viðurkenni ég að ríkisstj. hefur ekki orðið nægjanlega ágengt í baráttunni gegn verðbólgunni. En ég víti þá hræsni sem kemur fram í því, að einhlítt sé í baráttu gegn verðbólgu að halda niðri og lækka kaup verkafólks.

Þegar við tölum um fyrirmyndarríkin í kringum okkur skulum við minnast þess, að höfuðóvinur verkafólks, atvinnuleysi, er nær óþekkt á Íslandi sem betur fer, á sama tíma og margar milljónir manna ganga atvinnulausar í Vestur-Evrópu. T.d. í Bretlandi er talið að yfir 50% af fólki, sem útskrifast úr skólum 17 ára og eldra, gangi beint út í atvinnuleysi. Til marks um ástandið má nefna dæmi, að breskt fyrirtæki auglýsti nýlega í London eftir 30 verkamönnum. Umsækjendur voru 1700. Er fullyrt að tæp 40% af öllum byggingarverkamönnum í Vestur-Evrópu séu að jafnaði atvinnulausir að undanförnu. Slíkt þjóðfélagsástand viljum við ekki fá á Íslandi. En það breytir þó ekki þeirri staðreynd, að almennt kaup verkafólks á Íslandi er of lágt og það er knýjandi nauðsyn að úr því verði bætt með auknum jöfnuði og stórhuga tæknilegri, atvinnulegri uppbyggingu. Þetta ríka land þarf ekki að vera láglaunaland. Meðan Ísland er láglaunaland verð ég óánægður með allar ríkisstj. á Íslandi.

En það fara fram átök víðar en í þingsölum. Í marga mánuði hefur staðið yfir látlaust samningaþóf milli Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins. Og jafnvel þótt ríki og bæjarfélög séu búin að semja fyrir tæpum þrem mánuðum við alla opinbera starfsmenn harðneitar Vinnuveitendasambandið að ganga til hliðstæðra samninga við verkafólk. Og fyrir hvern er erfiðast að ná samningum í þessum sviptingum'? Verkamannasambandið og Landssamband iðnverkafólks sem tvímælalaust eru með lægstu laun miðað við unna klukkustund. Gegn þessu fólki er harkan mest og óbilgirnin hörðust.

Fyrir nokkru kom fram miðlunartillaga frá sáttasemjara og sáttanefnd. ASÍ lýsti sig reiðubúið til að semja á grundvelli hennar. Vinnuveitendasambandið taldi till. ekki umræðugrundvöll. Hvað var það sem mest fór í taugarnar á Vinnuveitendasambandinu? Nákvæmlega það sama og 1, þm. Reykv., Geir Hallgrímsson var að minnast á áðan. Það var sérstök láglaunauppbót, svokallað gólf, sem á að tryggja að þeir lægst launuðu verði ekki afskiptir. Láglaunauppbót til lægst launaða verkafólksins, það var hættan að mati Vinnuveitendasambandsins.

Þessi framkoma atvinnurekenda í samningum undanfarna mánuði er ekki einleikin og erum við þó ýmsu vanir. Það skyldi aldrei vera að það væru gullnir strengir sem lægju á milli stjórnarandstöðunnar í Sjálfstfl. og Vinnuveitendasambandsins? Og það skyldi aldrei vera að helstu forvígismenn Sjálfstfl. kipptu í þá gullnu strengi þegar samningar hafa verið í augsýn?

Ég er sannfærður um að ég mæli fyrir munn mikils meiri hl. landsmanna, hvar í flokki sem þeir standa, þegar ég ítreka þá kröfu, að gengið verði tafarlaust til samninga við láglaunafólk um láglaunauppbót, þegar búið er að semja við fólk sem er á mun hærri launum. Og það nær ekki nokkurri átt, að ekki sé gengið strax til samninga á grundvelli jafnhógværra hluta og tillaga sáttanefndar felur í sér og efnt verði til stórfelldra átaka í landinu vegna þess að neitað er að semja við það fólk, sem lægst hefur launin.

Í viðræðum við ríkisvaldið hefur hins vegar komið fram vilji til jákvæðra hluta. Fyrir liggur að ríkisstj. er reiðubúin að flytja frv. er bætir kjör aldraðra í lífeyrissjóðum verkalýðsfélaganna og dregur úr því misrétti sem nú á sér stað meðal þjóðfélagsþegna um bætur úr lífeyrissjóðum. Einnig þarf að hyggja að hag öryrkja. Fyrir liggur að ríkisstj. er reiðubúin að beita sér á Alþingi fyrir breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar, hækkun bóta, lengingu bótatímabils. Ekki er tími til að rekja slíkt, en rétt er að geta þess, að afnumið verður það ákvæði að konur missi bótarétt sinn þó tekjur maka fari upp fyrir ákveðin tekjumörk. Einnig er í undirbúningi frv. er tryggir öllum konum fæðingarorlof, og er tími til að afnumið sé það óréttlæti, að þær konur, sem vinna erfiðustu og óþrifalegustu störfin, hafi minnstan rétt í fæðingarorlofi.

Allt þetta mun koma hér fram á Alþ. ásamt ýmsu fleiru sem horfir til aukins þjóðfélagslegs réttlætis og jafnaðar. Ekki er hægt að víta ríkisstj. fyrir það né heldur hitt, að samningaviðræður eru nú hafnar milli ríkisins og ASÍ fyrir verkafólk, sem starfar hjá hinu opinbera, og viðræður eru að hefjast við ýmis bæjarfélög, þ. á m. við Reykjavík.

Herra forseti. Tími minn er á enda. En ofar öðru hljómar nú um land allt krafan um tafarlausa samninga við verkafólk.