23.10.1980
Sameinað þing: 8. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen er gamalreyndur í þeirri list að láta í orði allt virðast fellt og slétt og hylja hættur sem að þjóðinni steðja. Nú ríður honum á að halda saman sundurþykkri og ráðlausri ríkisstj. og telja kjósendum trú um að allt sé í himnalagi. Ræða hans áðan var því eins konar róandi landsmálalyf og fyrir það stórlega varhugaverð.

Er þjóðin ekki í hættu þegar óðaverðbólgan veður áfram enn eitt árið og ekki er stigið fastar á hemlana'? Er þjóðin ekki í hættu þegar gengi krónunnar er lækkað svo til vikulega og hagur heimilanna versnar sí og æ? Er þjóðin ekki í hættu, ef hún þarf að búa lengi enn við verðbólguvexti, sem eru að sliga fyrirtæki og einstaklinga? Er þjóðin ekki í hættu þegar greiðsluhalli við útlönd er 40–50 milljarðar og sú upphæð bætist hreinlega við skuldasúpuna erlendis?

Ríkisstj. hefur í stefnuskrá sett það markmið, að verðbólga skuli í árslok 1982 vera komin niður á sama stig og ríkir hjá helstu viðskiptaþjóðum okkar, það þýðir niður í 10–15%. Eitt ár er að verða liðið af þeim tíma sem ríkisstj. gaf sér til að leysa þennan vanda og verðbólgan er enn um 58%, þó að megi reikna hana á nokkuð misjafnan hátt. Fram er komið fjárlagafrv. fyrir næsta ár þar sem gert er ráð fyrir 42% verðbólgu á því ári. Það er þeirra eigin spá. Trúir þá nokkur að þeir muni komast niður í 10–15% á síðasta og þriðja árinu? Ætli hitt sé ekki sönnu nær, að ráðh. reikni alls ekki með því, að stjórnin lifi svo lengi, og því hafi verið óhætt að gefa fagurt loforð þrjú ár fram í tímann? Um þetta er þó alvarlegt ósamkomulag í ríkisstj. eins og margt annað.

Framsóknarmenn unnu kosningar í fyrravetur út á skýr loforð um að taka verðbólguna föstum tökum með svokallaðri niðurtalningarleið. Úr því hefur ekkert orðið og stendur Alþb. þvert í vegi fyrir öllum slíkum aðgerðum, eins og það hefur alltaf staðið á móti raunhæfri baráttu við verðbólguna. Þetta er staðreynd sem þjóðin verður að átta sig á og trúa. Hinir flokkarnir hafa allri setið með Alþb. í ríkisstjórnum, þremur ráðuneytum nú síðasta áratuginn og einu nokkru fyrr, og öll þessi rn. hafa fallið vegna ósamkomulags um efnahagsmál, ósamkomulags milli Alþb. annars vegar og hinna flokkanna. Engin stjórn, sem Alþb. hefur tekið þátt í, hefur enst út heilt kjörtímabil. Þær hafa allar gefist upp eða sprungið eftir eitt til í mesta þrjú ár og alltaf af sömu ástæðu: Alþb. fæst ekki til að samþykkja neinar skynsamlegar efnahagsaðgerðir. Það virðist nærast á verðbólgunni. Þá fyrst þegar stjórnmálamenn og flokkar svo og stór hluti kjósenda viðurkenna þessa augljósu staðreynd og reynslu mun skapast von um að Íslendingar fái ríkisstj. sem auðnast að sigla út úr veðraham verðbólgunnar á nokkurn veginn sléttan sjó.

Framsóknarmenn virðast einir hafa áhyggjur af þessum málum innan ríkisstj. Ungir framsóknarmenn hafa ályktað að ríkisstj. verði sjálfdauð ef hún tekur ekki fastar á efnahagsmálunum. Ritstjóri Tímans hefur skrifað í sama dúr, og er sjaldgæft að hann gagnrýni stjórn sem Framsókn á sæti í. Jafnvel ráðh. Framsfl. hafa gagnrýnt eigin stjórn opinberlega fyrir linkind í efnahagsmálum.

Einu sinni var Hermann Jónasson, formaður Framsfl., forsrh. í vinstri stjórn. Þá fór nákvæmlega eins í efnahagsmálum og í hinum stjórnunum síðar. Alþb.-menn stóðu þvert gegn skynsamlegum úrræðum sem hinir stjórnarflokkarnir gátu komið sér saman um. Hermann Jónasson lýsti þá skorinort yfir að ekkert samkomulag væri innan ríkisstj. um úrræði í efnahagsmálum, og síðan sagði hann af sér. Hann hefur alla tíð verið talinn meiri maður fyrir.

Framsóknarmenn standa nú frammi fyrir sömu stöðu og Hermann Jónasson. En hafa þeir hugrekki hans í dag til þess að segja af sér eða knýja samstarfsflokka sína til betri úrræða? Eða halda þeir áfram að mala og sitja sem fastast af því að þeir meta ráðherrastólana meira en efnahagslegan árangur?

Það fer ekki á milli mála, að fjárhagur ríkisins hefur mikil áhrif á verðbólguna. Nú bregður svo við að hagur ríkissjóðs er með besta móti um þetta leyti. Er það út af fyrir sig gleðiefni. Hinu skulum við þó ekki gleyma, að það hefur kostað nær stöðugar gengisfellingar og síhækkandi verðlag að auka svo tekjur ríkisins af aðflutningsgjöldum og söluskatti og öðrum álögum að hagur ríkissjóðs batnaði eins og nú hefur orðið. Þar að auki sendir Ragnar Arnalds fjmrh. um þessar mundir þá jólagjöf til heimila um allt land, að þeim beri að greiða 424 millj. kr. í skatta fyrir börn undir 16 ára aldri. Að sjálfsögðu er rétt, að börnin greiði einhverja skatta, en það eru kaldar kveðjur fyrir foreldrana, sem nú verða vafalaust að greiða þetta svo að segja allt, að fá slíkar tilkynningar í lok greiðsluárs.

Ragnar Arnalds hefur einnig lagt fram fjárlagafrv. fyrir næsta ár eins og honum ber að gera. Þetta frv. gerir ráð fyrir 42% verðbólgu, og mun allt efni frv. fara út um þúfur ef það tekst ekki, en enginn veit þó hvernig stjórnin ætlar að koma verðbólgunni niður í 42%. Við skulum vona að henni takist það. Hitt er meginatriði málsins, að fjárlögin, sem nú hafa verið lögð fram, eru um 200 milljörðum hærri en fjárlög líðandi árs.

Það er orðið erfitt fyrir okkur að átta okkur á hinum háu tölum óðaverðbólgunnar. Við skulum því skipta þessum 200 milljörðum niður á landsmenn, eins og oft er gert. Þá kemur í ljós, að þetta nemur tæplega milljón króna á hvern einasta íbúa landsins, fullorðna jafnt sem börn, tæplega millj. kr. á mann. Það eru 5 millj. á hverja fimm manna fjölskyldu, ef menn vilja fylgja þeirri algengu reikningsaðferð. — Þetta er aðeins hækkun fjárl. á næsta ári. Ég er ekki að tala um fjárl. í heild. Það eru enn stórkostlegri og hærri upphæðir. Hitt er þegar ljóst, að Alþb.-maðurinn Ragnar Arnalds gengur lengra en nokkur annar fjmrh. hefur gert í því að kreista peninga út úr þjóðinni og leggja átögur á hana. Einu sinni talaði hann fjálglega úr þessum ræðustól um að skattar fyrirtækja væru allt of lágir, en nú, þegar hann ræður þessu sjálfur, hækka skattar á einstaklingum mun meira en á fyrirtækjum. Og ekki hefur hann sýnt í verki áhuga á að lækka verulega skatta á láglaunafólki, þó að það sé sýnilega besta leiðin til að rétta hlut þess.

Ákveðið var fyrir alllöngu að um næstu áramót skyldu fram fara gjaldmiðilsskipti og á að taka upp eina nýja krónu fyrir hverjar hundrað gamlar. Þessi breyting ein er ekki úrræði til lausnar efnahagsvanda, en hún getur stuðlað að auknu trausti á krónunni. Þetta er því tilvalið tækifæri til að gera aðrar víðtækar ráðstafanir um leið og láta krónuskiptin verða eins konar kjarna þeirra, enda er tilgangur allrar viðleitni í efnahagsmálum að koma á festu og jafnvægi og tryggja verðgildi peninganna.

Í upphafi þessa árs lagði Alþfl. fyrir hina flokkana vandlega unna áætlun um efnahagsaðgerðir, sem tækju mið af krónuskiptunum. Var þeim skipt í aðdraganda, ráðstafanir, sem gera þurfti á þessu ári, síðan breytinguna sjálfa og loks eftirleik til að fylgja breytingunni eftir á næsta ári og síðar. Alþfl. lagði með aðstoð sérfróðra manna mikla vinnu í þessa áætlun, og það er sannfæring okkar, að hún hefði í framkvæmd getað komið verðbólgu niður fyrir 30% þegar á þessu ári, enda var gert ráð fyrir nokkrum tímabundnum fórnum af hálfu allra landsmanna. Alþb. hafnaði þessari áætlun okkar Alþfl.-manna án þess að lesa hana. Fulltrúi þeirra sagði nei um leið og hann tók við plagginu. Sú framkoma segir býsna mikið um heilindin í þeim herbúðum.

Framsóknarmenn tóku till. Alþfl. til umræðu og lásu þær a.m.k., en höfnuðu þeim síðan, því miður, fyrst og fremst vegna ágreinings um landbúnaðarmál, sem ég tel þó að við hefðum getað leyst.

Sjálfstæðismenn, sem þá voru enn óklofnir á yfirborði, hvað sem var tekið að gerast bak við tjöldin, reyndust vera reiðubúnir til að ræða þessar till. frekar, en á það reyndi því miður ekki. Nú segir forsrh. að hann og stjórn hans hafi í hyggju að gera margs konar ráðstafanir vegna krónuskiptanna. En það eru aðeins um 10 vikur til áramóta og ríkisstj. hefur enn þá ekkert sagt um það, hvað hún ætli að gera til að tryggja verðgildi hinnar nýju og fallegu krónu. Hins vegar er fjárlagafrv., eins og ég áðan sagði, byggt á því, að verðbólga á næsta ári verði 42%. Með þessari spá viðurkennir ríkisstj., sem ekkert gerir þó, að nýja krónan verði í lok næsta árs fallin niður í 58 aura að verðgildi. Það er þeirra eigin spádómur og viðurkenning og má þó vel búast við að fallið verði enn þá meira. Krónuskiptin eru gullið tækifæri til hreingerningar í efnahagsmálum. Alþfl. lagði ítarlegar till. í þá átt fram í upphafi ársins, meðan tími var til stefnu, en þeim var ekki sinnt. Nú er ríkisstj. að missa af þessu tækifæri vegna dáðleysis og sundurlyndis. Frakkar, Þjóðverjar og Finnar notuðu allir myntbreytingu sem kjarna gerbreytingar í efnahagsmálum og tókst það öllum. En Gunnarsstjórn er gæfulaus í þessu sem fleiru.

Kafli var í ræðu forsrh. um félagsmál, og hældi hann stjórn sinni af nokkrum afrekum á því sviði, t.d. löggjöf um húsnæðismál, löggjöf um hollustuhætti og aðbúnað á vinnustöðum, aðstoð við þroskahefta o.fl. Allt er þetta gott og blessað, ágæt mál. En þetta eru stolnar skrautfjaðrir, því að þessi löggjöf og ýmis önnur lög um félagsmál, sem afgreidd voru á síðasta þingi, voru undirbúin og lögð fram í ráðherratíð Magnúsar H. Magnússonar og eru fyrst og fremst hans verk. Málin eru jafngóð fyrir það, enda samþykkt af Alþfl. eins og öðrum í meiri hl. hér á þingi, en það er ástæðulaust fyrir núv. stjórn að reyna að hæla sér af þessum verkum.

Þá var nefndur undirbúningur að alþjóðaári fatlaðra. En eina afrek Svavars Gestssonar ráðh. í því máli hefur verið að reka Árna Gunnarsson alþm., sem hafði verið formaður undirbúningsnefndar og sýnt þar mikinn dugnað í starfi. — reka hann burt til að koma kommúnista í hans stað. Þannig er hvergi friður fyrir þeim pólitísku smitberum sem ráðh. Alþb. jafnan eru.

Ríkisstj. hefur setið að völdum svo til allt þetta ár og þó er hún enn stefnulaus í fjöldamörgum veigamiklum málum. Forsrh. reyndi í ræðu sinni að fela þessa staðreynd, og þá notaði hann aftur og aftur það orðalag, að unnið sé að stefnumótun, eða eitthvað slíkt. Mér telst til að samtals hafi slíkt orðalag komið fyrir einum 12 sinnum. Í 12 mikilvægum málaflokkum er ríkisstj. algerlega stefnulaus, en unnið er að mótun einhverrar stefnu. Þannig er reynt að læða því inn með mjúkum, fögrum orðum, að eitthvað sé að gerast í þessum málum þar sem allt stendur fast. Þannig segir ráðh. t.d. að unnið sé nú að athugun á sjálfvirkni og víxlhækkunum í efnahagskerfinu. Er það ekki nokkuð seint að vera nú fyrst að athuga það mál? Hafið þið aldrei heyrt þetta nefnt, sjúkdóm íslensks efnahagskerfis í marga áratugi? Það er líka unnið að margháttuðum aðgerðum fyrir krónuskiptin sem ég nefndi, en það hefur ekkert gerst og örfáar vikur eru til stefnu.

Það er líka samkv. ræðu ráðh. unnið að mörkun fiskveiðistefnu, auðvitað af því að stjórnin hefur enga fiskveiðistefnu. Það er unnið að stefnu í landbúnaðarmálum og okkur verður kynnt hún einhvern tíma seinna, af því að stjórnin hefur enga stefnu í þeim málum. Það er unnið að stefnumörkun í iðnþróun til langs tíma, af því að iðnstefnu í virkjunarmálum og framkvæmdaáætlunum í orkumálum, af því að stjórnin hefur enga stefnu á þessum sviðum. Þannig mætti lengi telja.

Herra forseti. Alþfl. gerir sér ljóst, að ekki er nóg að glíma við vandamál líðandi stundar og þarf meira til að koma ef tryggja á framtíð þjóðarinnar. Þjóðartekjur á mann hafa farið minnkandi nú undanfarið og munu enn minnka á næsta ári ef sú spá reynist rétt sem nú hefur verið lögð fram. Af þessu leiðir að atvinnuöryggi hefur farið minnkandi, þótt enn hafi blessunarlega ekki komið til atvinnuleysis og við vonum öll að það komi ekki. Brottflutningur fólks af landinu hefur verið mikill, en við höfum illa ráð á að missa sem svarar einni dugmikilli fjölskyldu til annarra landa á hverjum degi. Af þessum sökum verður að leggja höfuðáherslu á atvinnumálin, eflingu núverandi atvinnuvega og uppbyggingu nýrra til þess að tryggja afkomu fjölskyldnanna og standa vel undir góðum lífskjörum, skapa atvinnutækifæri fyrir þær þúsundir sem munu bætast á vinnumarkaðinn á næstu árum, auka framleiðslu og framleiðni og bæta gjaldeyrisstöðuna. Tæknin getur aukið framleiðni okkar og jafnvel tekjur, en hún getur líka fækkað atvinnutækifærum. Eitt tryggingarfélag fækkaði starfsfólki um fimmtung þegar það tók upp nýtt tölvukerfi.

Sjávarútvegur verður að haga sókninni svo, að hann byggi upp fiskstofna til frambúðar, og hann verður að mæta vaxandi samkeppni, m.a. við ríkisstyrktar fiskveiðar margra annarra landa. Landbúnaður leggur nú hart að sér til að sporna gegn offramleiðslu og laga sig að innanlandsmarkaði. Þar þurfa að koma til nýjar búgreinar. Almennur iðnaður býr við harða samkeppni vegna fríverslunar og þarfnast aukinnar hagræðingar og uppbyggingar. Þessar hefðbundnu atvinnugreinar verða að fá óskiptan stuðning þjóðar og ríkisvalds á komandi árum, jafnvel þótt hafin verði glíma við ný verkefni. Og það þarf meira til. Við verðum að byggja upp fleiri atvinnugreinar sem geta tekið við þúsundum vinnandi manna, aukið framleiðni og tryggt nýjar útflutningstekjur. Alþfl. telur rétt að mæta þessari þörf fyrst og fremst með aukningu orkufreks iðnaðar. En það er eitt til marks um áhrif kommúnista, að fyrrv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen þorir ekki að nefna þetta á nafn í ræðu sinni.

Alþfl. hefur þegar flutt till. um öra uppbyggingu á orkufrekum iðnaði í upphafi þessa þings, og hann hefur gert opinberlega grein fyrir henni. Við leggjum þó ekki til að landið verði opnað fyrir erlendu fjármagni. Við höfum þegar næga reynslu af stóriðju til þess að geta ráðið því sjálfir, hve mikið samstarf við höfum við erlenda aðila og hvernig. En það samstarf er okkur vorkunnarlaust að eiga þegar við teljum ástæðu til, og við getum gert það með fullri reisn án þess að verða hlunnfarin ef okkur sýnist svo.

Við Alþfl.-menn leggjum einnig áherslu á að allt landið verði að njóta beint eða óbeint góðs af slíkri stóriðjuuppbyggingu. Það er gæfa okkar Íslendinga að eiga á tímum hinnar miklu orkukreppu gnægð ónotaðra orkulinda, hið hvíta gull í fallvötnum og jarðhita. Við getum fram til aldamóta reist nýjan iðnað fyrir þúsundir starfsmanna og þó munum við vart hafa notað nema brot af þeirri orku, sem í landinu er og sífellt endurnýjast, en gengur ekki til þurrðar eins og olía og gas. Í dag er einmitt tímabært að taka ákvarðanir á þessu sviði, en það stendur allt fast hjá hæstv. ríkisstj. Þær ákvarðanir verða að mótast af stórhug og framsýni, af trú á landið og trú á þjóðina. Það er að vísu ógæfa, að orku- og iðnaðarmálin skuti vera í höndum Alþb.-manna í ríkisstj., en þeir eru á þessu sviði íhaldssamir úrtölumenn eins og þeir eru orðnir á ótrúlega mörgum öðrum sviðum. En við megum ekki láta þá stöðva framþróun alhliða íslenskrar atvinnustefnu.

Ef íslenska þjóðin horfist óhrædd í augu við þá erfiðleika, sem við er að etja, sýnir samstöðu og skilning og reynir að forðast innbyrðist átök, þá mun hún sigrast á öllum erfiðleikum og sigla skjótt inn í betri framtíð. Ef íslenska þjóðin kann að meta og hagnýta skynsamlega þær auðlindir, sem landið býður henni, mun hún tryggja komandi kynslóðum gott og farsælt líf, frjálsra manna í frjálsu landi. — Góða nótt.