23.10.1980
Sameinað þing: 8. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þótt 8 mánaða starfstími ríkisstj. sé ekki langur er eðlilegt að menn spyrji: Hvað hefur áunnist? Hefur þokast í átt að þeim markmiðum, sem ríkisstj. setti sér. Umræða um stefnuræðu forsrh. og þjóðhagsáætlun er eðlilegur vettvangur fyrir slíkar spurningar. Ég mun leitast við að svara þeim frá sjónarhóli okkar framsóknarmanna.

Í löngum stjórnarmyndunarviðræðum s.l. vetur var um fátt annað fjallað en efnahagsmálin. Við framsóknarmenn höfnuðum leiftursókn Sjálfstfl. sem við og ákveðið gerðum í kosningabaráttunni. Þótt mjög sé mikilvægt að ná verðbólgunni niður viljum við ekki kaupa það með stöðnun, atvinnuleysi og byggðaröskun. Við settum fram markvissar till. um hjöðnun verðbólgunnar í áföngum. Sú leið hefur hlotið nafngiftina „niðurtalning verðbólgunnar“.

Niðurtalning verðbólgunnar felst í því að setja bremsu sem jafnast á hina ýmsu þætti sem áhrif hafa á verðbólguþróun. Við viljum gera það með því að setja sambærilegt hámark á launahækkanir, hækkun búverðs og fiskverðs og á vöruverð og þjónustu og samræma gengissig slíkum takmörkunum. Með þessu er hugmyndin sú, að allir beri sem jafnast þær byrðar sem slíkri niðurtalningu kunna að fylgja. Við höfum jafnframt lagt áherslu á að þetta þurfi að gera í nánu samráði við launþega og aðra aðila vinnumarkaðarins. Semja þarf um félagslegar umbætur þannig að tekjuskerðing þeirra, sem lægst hafa launin, verði sem minnst eða engin. Samfara þessu verður að gæta aðhalds í fjárfestingu, peningamálum og fjármálum ríkisins.

Stjórnarflokkarnir féllust á þessa hugmynd um niðurtalningu verðbólgunnar í öllum grundvallaratriðum. Það kemur greinilega fram í stjórnarsáttmálanum, þar er það markmið sett, að verðbólgan verði á árinu 1982 orðin svipuð og í nágrannalöndum okkar. Eins og þar kemur fram hyggjast stjórnarflokkarnir ná þessu, m.a. með því að leita eftir samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um niðurstöður í kjarasamningum sem geta samrýmst baráttunni gegn verðbólgu og þeirri stefnu stjórnarinnar að jafna lífkjör og bæta kjör hinna lakast settu í þjóðfélaginu, eins og þar segir orðrétt. Ríkisstj. vilt jafnframt draga úr almennum peningalaunahækkunum með ýmsum félagslegum ráðstöfunum. Í þessu skyni hyggst ríkisstj. einnig beita ströngu aðhaldi í verðlagsmálum, peningamálum, fjárfestingarmálum og ríkisfjármálum, eins og greinilega kemur fram í stjórnarsáttmálanum og gert hefur verið, og sömuleiðis endurskoða víxlverkanir verðlags og launa.

Nú spyrja menn eðlilega: Hvað líður þessari niðurtalningu? Svarið er einfatt: Raunhæf niðurtalning er ekki hafin. Að vísu hefur verið leitast við eftir mætti að beita ströngu aðhaldi á flestum sviðum, t.d. á sviði fjármála og í verðlagsmálum, þar sem hámarkshækkanir hafa verið ákveðnar. En slíkt ber aldrei tilætlaðan árangur nema gert sé á öllum sviðum. Á þessari staðreynd eru augljósar skýringar. Ætíð hefur verið undirstrikað að til þess að niðurtalning verðbólgunnar megi takast verða ýmsa forsendur að vera traustar. Í fyrsta lagi verður að ríkja friður á vinnumarkaðnum þannig að unnt sé að hafa nauðsynlegt samráð við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir í kjaramálum, eins og stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir. Eins og alþjóð veit hafa samningar allir verið lausir, og því miður hefur það tekið lengri tíma en menn gerðu ráð fyrir að samningar næðust á öllum sviðum. Er alls ekki séð fyrir endann á því enn. Á meðan sú óvissa ríkir er ákaflega erfitt að fóta sig örugglega í niðurtalningu verðbólgunnar.

Í öðru lagi er ljóst, að atvinnuvegir landsmanna verða að standa sæmilega traustum fótum áður en raunhæf niðurtalning er hafin. Á þá leggjast byrðar ekki síður en á launþega, bændur og sjómenn, og þær verða þeir að geta borið, annars er hætt við að komi til stöðvunar og atvinnuleysis sem við viljum umfram allt forðast, eins og ég hef áður sagt.

Fljótlega eftir stjórnarmyndun kom í ljós að grundvöllur atvinnuveganna var langt frá því að vera svo traustur sem þarf að vera. Fyrst og fremst á þetta við um frystingu sjávarafla. Að vísu var mönnum ljóst að þar voru erfiðleikar, en ég leyfi mér að fullyrða að þeir hafi verið meiri en flestir töldu. Þessa erfiðleika má í grundvallaratriðum rekja til þess, að frystingin hefur hvergi nærri fengið þá hækkun á sinni framleiðslu sem kostnaðarhækkanir innanlands á síðasta ári og sérstaklega um áramótin kröfðust. Öllum má vera ljóst að framleiðsla getur því aðeins borið slíkar hækkanir að hún fái auknar tekjur eins og nú er ástatt. Það hlýtur að gerast annaðhvort með verðhækkun á erlendum mörkuðum eða með því að gengið fellur að sígur. Að einhverju leyti má bæta afkomu framleiðslunnar með framleiðniaukningu, en slíkar framfarir eru yfirleitt hægfara.

Við nákvæma úttekt á þessari þróun kemur í ljós, að tekjur frystingarinnar hækka á síðasta ári um 8–10% minna en kostnaðarhækkanir verða innanlands. Þetta má rek ja til þess, að á undanförnu einu og hálfu ári verða nánast engar verðhækkanir á framleiðslu okkar á Bandaríkjamarkaði, á sama tíma og aðrar neysluvörur þar hækka um 20–25%. Má því segja að hlutfallslegt verðfall hafi orðið á frystum sjávarafurðum. Þessari staðreynd var ekki mætt með nauðsynlegri gengisaðlögun. Nefna má sem dæmi, að um s.l. áramót, í stjórnartíð Alþfl., urðu kostnaðarhækkanir u.þ.b. 11–12%, en gengið er aðeins látið síga um 4% og í allri stjórnartíð Alþfl. verða kostnaðarhækkanir um 15%, en gengisaðlögun aðeins um 5%. Eflaust hefur þetta verið gert til þess að hamla gegn verðbólgunni rétt yfir kosningarnar, en leiddi beint til hins, að frystingin safnaði skuldum og stöðvaðist víða í sumar. Málið er svona einfalt. Útilokað er að auka kostnað framleiðslunnar, eins og nú er ástatt, án þess að hún fái auknar tekjur á móti á einn máta eða annan.

E.t.v. hefði verið skynsamlegt að horfast strax í augu við þessar staðreyndir og aðlaga gengið án tafar að þeim kostnaðarhækkunum sem hefðu orðið innanlands. Sá kostur var hins vegar tekinn að gera það smám saman, þannig að það leiddi síður til mikillar verðbólguskriðu. Þetta hefur verið gert. Til þess að draga úr þörf fyrir gengissig hefur jafnframt verið gripið til margra aðgerða í þágu fiskvinnslunnar. Vextir Fiskveiðasjóðs voru lækkaðir, tollar voru felldir niður af ýmsum fjárfestingarvörum, afurðalán voru hækkuð í 95%, meðan birgðir voru óeðlilega miklar, og greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði auknar vegna tímabundinna erfiðleika. Loks hefur verið samið við Seðlabankann um endurgreiðslu á gengis- og vaxtagreiðslum útflutningsatvinnuveganna sem nemur samtals um 3.6 milljörðum kr. og fær frystingin af því rúmlega 2 milljarða. Eru þessi lán þannig færð til samræmis við kjör á öðrum lánum í bankakerfinu. Auk þess hefur ástand nú batnað á Bandaríkjamarkaði þannig að framleiðslusamsetningin er orðin frystingunni hagkvæmari. Því telur Þjóðhagsstofnun að grundvöllur frystingar sé nú orðinn eða að verða jákvæður og einnig útgerðar eftir síðustu fiskverðshækkun. Þetta er út af fyrir sig ákaflega mikilvægur áfangi.

Við fiskverðsákvörðun nú 1. okt. er hækkun olíugjalds umdeild. Þegar það gjald var tekið upp af Kjartani Jóhannssyni var ætlunin að bæta útgerðinni að hluta gífurlegar olíuverðshækkanir. Það er góðra gjalda vert. En olíugjaldið er reiknað sem hlutfall af aflaverðmæti, en ekki af olíunotkun. Það stuðlar ekki að sparnaði á olíu, heldur jafnvel þvert á móti. Ég hef því tjáð mig sammála sjómönnum og andsnúinn olíugjaldi í þessari mynd. Ég hef lagt á það áherslu, að leita verði annarra leiða til þess að mæta olíuverðshækkunum, og þá byggt á raunverulegri notkun, þannig að bæði sjómenn og útvegsmenn hagnist á olíusparnaði. Að þessu máli vinnur sérstök nefnd þessara aðila. Málið er vandmeðfarið, en það er von mín að takast megi að hverfa frá þessari olíugjaldsleið við næstu fiskverðsákvörðun. Á meðan það tekst ekki verður að búa við það sem er. Enginn er bættari með því að olíuverðshækkanir leiði til stöðvunar á útgerð.

Sorglegt er að hlusta á stjórnarandstæðinga hér á Alþ. andmæla nú af miklum fjálgleik hækkun olíugjalds í 7.5%, þrátt fyrir óumdeilda olíuverðshækkun. Þessir sömu menn samþykktu hækkun þessa sama gjalds í 12% haustið 1979 án þess að depla auga.

Við þann erfiða starfsgrundvöll, sem sjávarútvegi og fiskvinnslu hefur verið búinn, hafa þessar greinar safnað miklum lausaskuldum. Þótt grundvöllur sé nú jákvæður er útilokað að unnt reynist að standa undir dráttarvöxtum eða greiða slíkar skuldir án tafar. Til þess þyrfti gengissig að verða enn meira. Því er nauðsynlegt að breyta þessum skuldum í föst lán. Að því er unnið af krafti. Árið 1975 tók svipuð skuldbreyting eitt og hálft ár. Svo má að sjálfsögðu ekki verða nú og skal ekki verða, þá hleðst vandinn aðeins upp.

Ýmislegt bendir til þess, að fram undan kunni að vera fremur hagstæðir tímar fyrir sjávarútveg og fiskvinnslu. Bandaríkjamarkaður hefur lagast og birgðir hafa stórminnkað. Að vísu geta menn ekki gert sér vonir um umtalsverða verðhækkun alveg á næstunni, en ótrúlegt virðist að fiskur hækki ekki í verði þar á sama tíma og aðrar nauðsynjar halda áfram að hækka. Önnur fiskvinnsla stendur yfirleitt vel, t.d. skreið og saltfiskur. Tekist hefur betur en ýmsir þorðu að vona með sölusamninga á saltaðri síld, svo að eitthvað sé nefnt. Og loks benda nýjustu spár Hafrannsóknastofnunar til þess, að þorskstofninn sé töluvert sterkari en áður var talið. Það eru gleðitíðindi sem ýmsir munu að vísu ekki telja að komi á óvart.

Eitt af stærri málum þessa vetrar verður mótun nýrrar fiskveiðistefnu, og það er hárrétt hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, að að þessu er unnið og það kappsamlega. Að sjálfsögðu er í dag búið við þá fiskveiðistefnu sem mótuð var af fyrrv. sjútvrh. í vinstri stjórninni á s.l. ári, og má margt gott um hana segja. En svo viðamikið mál þarf að vera í stöðugri endurskoðun. Ekki vinnst tími til þess nú að kynna það víðtæka mál, en það verður gert alveg á næstunni.

Afkoma útflutningsiðnaðar hefur einnig verið betri síðari hluta ársins en þann fyrri, því að að sjálfsögðu hafa allar útflutningsgreinar notið margra þeirra leiðréttinga sem gerðar hafa verið í þágu frystingarinnar. Í landbúnaði fer fram aðlögun að breyttum aðstæðum. Það er gert á grundvelli margs konar laga sem sett voru á síðasta ári, með samdrætti í hefðbundnum búgreinum þar sem offramleiðsla hefur verið skaðlega mikil, en jafnframt með uppbyggingu nýrra greina þannig að byggðaröskun verði sem minnst. Þetta er vandrötuð braut sem verður að taka nokkurn tíma ef vel á að fara. Ég er hins vegar sannfærður um að íslenskur landbúnaður mun standa sterkari eftir en áður.

Ýmislegt fleira jákvætt má nefna. Fjármál ríkisins eru í viðunandi lagi. Fjárlög ársins í ár eru byggð á þeim grundvelli sem lagður var af Tómasi Árnasyni s.l. haust. Hann hefur reynst traustur.

Þetta skapar nokkurt svigrúm í fjárlögum næsta árs. T.d. er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir 12 milljörðum kr. vegna efnahagsráðstafana. Staða ríkissjóðs skapar einnig möguleika til endurskoðunar á skattalögunum. Í því sambandi leggjum við framsóknarmenn mikla áherslu á niðurfellingu nýbyggingargjalds, eins og ráð er fyrir gert og fullt samkomulag um. Við teljum einnig skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði vafasaman nú þar sem dregið hefur úr þenslu á því sviði og upphaflegum markmiðum með honum því náð. Við teljum nauðsynlegt að endurskoða álagningu eignarskatts, einkum einstaklinga. Við viljum einnig lagfæra þá agnúa á tekjuskattslögum sem komið hafa í ljós og menn gátu að sjálfsögðu búist við í svo viðamiklum breytingum. Við viljum athuga 59. gr., sem heimilar að áætta mönnum tekjur, og viljum lagfæra skatt á einstæðum foreldrum, svo eitthvað sé nefnt. Um þetta hefur allt verið rætt í ríkisstj. og menn þar sammála um slíka endurskoðun, enda er hún komin í gang, og vænti ég þess, að árangur sjáist fljótlega.

Einna mikilvægast er þó að staða ríkissjóðs gefur svigrúm til þess að verja í tengslum við niðurtalningu verðbólgunnar kaupmátt þeirra sem lægstar tekjur hafa.

Fjárfesting í landinu mun í ár ekki fara að ráði fram úr því sem ráðgert var. Á næsta ári ætti að vera svigrúm til nauðsynlegra fjárfestinga, m.a. á sviði orkumála og vegamála. Við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á að unnið verði af krafti, eins og í fjárlagafrv. segir, að vegaframkvæmdum. Það merkir að sjálfsögðu að ekki verði dregið úr framkvæmdum í vegamálum sem í sumar voru auknar verulega frá því í fyrra: Vegáætlun verður endurskoðuð í vetur og auk þess mun ég nú í haust leggja fram till. um stefnumörkun í vegamálum til langs tíma.

Til þess að niðurtalningin megi hefjast af fullum krafti er fyrst og fremst nauðsynlegt nú að samningar takist á vinnumarkaði. Þar eru hins vegar miklar blikur á lofti, því miður. Eðlilegt er að menn spyrji: Hvaða vit er því að semja um hækkun grunnkaups á sama tíma og þjóðartekjur dragast saman eins og fram kemur í gögnum Þjóðhagsstofnunar? Hvar á að taka slíka fjármuni? Við þessar aðstæður sé ég aðeins eitt sem réttlætir samninga um hækkun grunnkaups. Slíkir samningar verða að leiða til aukins launajafnaðar, til bættra kjara þeirra sem lægstu launin hafa. Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála er það markmið ríkisstj. að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Því miður sýnist mér hins vegar að þeir kjarasamningar, sem nú liggja í loftinu, að meðtöldu tilboði vinnuveitenda um kjarasamning, leiði til verulegrar hækkunar yfir mestalla línuna umfram það sem réttlæta má með launajöfnuði einum saman, þótt vissulega stefni í þá átt og gerði það sannarlega í samningum við BSRB. Sáttatillaga sú, sem fram hefur verið lögð, felur í sér a.m.k. 10–11% launahækkun. 1. des. n.k. hækka verðbætur á laun að öllum líkindum um álíka upphæð ef ekkert er að gert. Þá eiga sjómenn og bændur eftir að fá svipaðar hækkanir. Varla geta menn búist við að hringdans verðbólgunnar stöðvist þegar að þeim aðilum kemur.

Ég sagði áðan að grundvöllur atvinnuveganna er að mati Þjóðhagsstofnunar jákvæður nú. Það verður hins vegar skammgóður vermir ef slíkar hækkanir eru á næsta leiti. Í frystingunni a.m.k. er ekki svigrúm til umtalsverðra hækkana. Ég leyfi mér að fullyrða að þessar greinar munu stöðvast fljótlega ef þær fá ekki kostnaðarhækkanir bættar. Sáralitlar líkur eru til þess, að það gerist með verðhækkun á erlendum mörkuðum, a.m.k. alveg á næstunni. Þá er ekkert eftir annað en gamla íhaldsúrræðið, gengisfelling.

Er mönnum ekki að verða ljóst hve gagnslaus þessi vísitöluleikur er og reyndar skaðlegur? Hver er bættari eftir?

Ef svo fer um næstu áramót sem ég hef nú rakið verður að sjálfsögðu að skapa að nýju traustan grundvöll fyrir atvinnuvegina áður en niðurtalning verðbólgunnar getur hafist af nokkurri alvöru. Og um það er fullkomin samstaða að sjálfsögðu innan ríkisstj. Þessu verða menn að gera sér grein fyrir. Það getur orðið erfiður biti að kyngja. Því er nauðsynlegt og skynsamlegt að grípa til aðgerða fyrir 1. des., sem draga úr þeirri hækkun sem þá verður að öðrum kosti, þannig að leiðrétting sú á stöðu atvinnuveganna, sem á eftir fylgir, geti orðið sem minnst.

Góðir hlustendur. Í þessu máli mínu hef ég ekkert minnst á Flugleiðamálið, enda það mikið rætt. Hv. þm. Geir Hallgrímsson fór hins vegar fáeinum orðum um það og vakti undrun mína að hann virðist helst gagnrýna ríkisstj. fyrir að hafa ekki þegar og tafarlaust gert hvað það sem fyrirtækið fer fram á til að halda megi rekstrinum áfram. Það var ekki fyrr en 15. sept. s.l. að ríkisstj. fékk beiðni Flugleiða um 6 milljarða kr. ríkisábyrgð, og þegar liggur fyrir frv. á hinu háa Alþingi sem heimilar ríkisstj. að verða við þessu og það jafnvel áður en úttekt hefur farið fram á eignum fyrirtækisins. Ekki sé ég hvernig verður fyrr við brugðið. En svo virðist sem þeir hv. sjálfstæðismenn sjái alls ekki að e.t.v. kunni einhver sök að liggja hjá stjórn Flugleiða sjálfra.

Stjórnarandstaðan hefur undanfarið haft það að meginiðju í athafnaleysi sínu að gera mönnum innan ríkisstj. upp ágreining. Staðreyndin er sú, að starfsandinn innan þessarar ríkisstj. er ólíkt betri en í þeirri ríkisstj. sem ég hef áður þekkt á s.l. ári. Nú hittast menn og ræðast við um vandamálin og reyna að leysa þau. Og ég veit ekki betur en allir hafi fullan skilning á því sem ég hef nú rakið. Áherslur geta að sjálfsögðu verið eitthvað mismunandi, svo sem von er, á milli flokka, en markmiðið er það sama: að koma verðbólgunni niður í svipað og í nágrannalöndunum 1982. Sú töf, sem hefur á þessu orðið, merkir að sjálfsögðu að vinna verður betur á næsta ári. Okkur framsóknarmönnum sýnist að nú eigi að vera unnt að skapa til þess grundvöll. Á næstu tveimur árum munum við því leggja höfuðáherslu á niðurtalningu verðbólgunnar.

Við Íslendingar eigum til mikils að vinna. Að öllum líkindum erum við betur í stakk búnir en flestar aðrar þjóðir til að mæta þeim orku- og hráefnisskorti sem virðist vera framundan. Við eigum gjöfult land og auðugan sjó, sem geta jafnvel í vaxandi mæli orðið grundvöllur verðmætrar og eftirsóttrar matvælaframleiðslu. Við eigum orku í fallvötnum og jarðvarma sem á að gera okkur kleift að verða að verulegu leyti óháðir innfluttri orku og auðvelda okkur að skjóta fleiri stoðum undir okkar atvinnu- og efnahagslíf, m.a. með orkufrekum iðnaði í okkar eigu og við okkar hæfi. Verkefnin eru mörg og brýn við að nýta allan þennan auð af skynsemi til bættra lífskjara og betra mannlífs. Allt er þetta þó háð því, að við kunnum fótum okkar forráð í efnahagsmálum og stillum kröfum okkar í hóf. — Góða nótt.