11.12.1980
Neðri deild: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

130. mál, orkulög

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja til breyt. á orkulögum frá 1967, nr. 58. Þetta er aðeins breyting við eina grein laganna, 72. gr., og legg ég til að hún orðist svo:

„Ráðherra ákveður, að fengnum tillögum orkuráðs, vexti og önnur útlánakjör Orkusjóðs.

Lán, sem veitt eru samkv. 4. tölul. 71. gr., skulu vera að fullu endurgreidd sjóðnum eigi síðar en fimmtán árum eftir að hafist er handa um framkvæmdir til hagnýtingar þess jarðhita sem fundist hefur við leitina.

Náist enginn árangur við borun á tilteknu svæði fellur niður endurgreiðsluskylda lántaka samkv. 4. tölul. 71. gr.

2. gr. þessa frv. hljóðar þá svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég hef í örfáum orðum leyft mér í grg. að rökstyðja þessa breytingu og leyfi ég mér að lesa hana einnig: „Hér er lagt til að lánstími lána frá sjóðnum verði lengdur um tíu ár. Fimm ára lánstími, eins og nú er, gefur undir fæstum kringumstæðum kost á því að arðsemi framkvæmdarinnar greiði lánið. Hann er því of stuttur. Með þeirri stefnu í verðtryggingu útlána, sem fylgt er, hefur einnig verið talað um að lengja þurfi lánstíma útlána.

Hér er reyndar um svo sjálfsagt mál að ræða að það ætti ekki að valda deilum. Segja má að með þessu sé lánstíminn samræmdur lánstíma annarra stofnlánasjóða“.

Ég tel að hér sé um svo sjálfsagt mál að ræða að það eigi ekki að þurfa að eyða löngum tíma í að rökstyð ja það frekar. Hver og einn, sem kynnir sér lánsfjáráætlanir okkar Íslendinga á seinustu árum, ætti að vera sér meðvitandi um hve miklum fjármunum við höfum verið að verja til orkumála og hversu annt okkur er um að sá málaflokkur njóti þess forgangs sem honum ber í þeirri orkukreppu sem við erum í. Í ljósi þess og vissu um að þetta mál valdi ekki neinum deilum hér í þinginu ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri.