11.12.1980
Neðri deild: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil leggja ríka áherslu á 4. gr. í því frv. til laga sem hér er til umr., um lántöku á árunum 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir. Eins og hæstv. fjmrh. hefur raunar lýst í máli sínu er þessi grein afar sérstæð eins og hún stendur, því að ef þessi grein yrði samþ. með þessum hætti hefur hann sagt að síðan eigi að ráðfæra sig við fjvn. En hvað gerist ef ágreiningur rís milli fjvn. og ráðh. um ráðstöfun þessa fjár eins og greinin stendur núna?

Og ef Alþingi er búið að framselja þessa ávísun með þessum hætti er það auðvitað fullkomið virðingarleysi. Það er fullkomið virðingarleysi framkvæmdavalds í garð löggjafarvalds að fara fram á slíka ósk. 4. gr. er auðvitað afleit og með öllu óþingræðisleg eins og hún stendur þarna. Hins vegar virðist hæstv. ráðh. hafa gert sér grein fyrir þessu. Ég skildi orð hans svo áðan, að hann gæti vel hugsað sér breytingu á orðalagi greinarinnar til þess að það væri alveg ótvírætt að hér er aðeins um að ræða að taka lánið. Við verðum að treysta orðum hans um að þetta lán sé óvenjulega hagstætt. En síðan er það vitaskuld Alþingis að ákvarða með hverjum hætti þessum peningum verði eytt.

Hér er um að ræða fullkomið grundvallaratriði að því er varðar alla hugsunina í 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu valdsins. Ef farið er æ ofan í æ fram á að Alþingi ávísi óútfylltri ávísun með þessum hætti setur löggjafarvaldið niður andspænis framkvæmdavaldinu. Þetta er þess vegna röng aðferð. Þetta er raunar náskylt því sem hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen sagði í útvarpi í gærkvöld. Hann sagði þá um það, sem gæti átt sér stað um jól, orðrétt: Það er hugsanlegt að fá samþykkt síðar, þ.e. þegar Alþingi kemur saman aftur. En um þetta er ekki hægt að fullyrða neitt í einstökum atriðum nú. — Hann er vitaskuld að tala um hugsanlega lagasetningu um jól og ekkert annað. Þessi þróun verður að fara að snúa við. Þessar tilraunir framkvæmdavaldsins til að fótumtroða löggjafarstofnunina aftur og aftur eru beinlínis hættuleg þróun.

Það er vegna þess þvílíkt „prinsip-mál“ hér er á ferðinni sem ég hef kvatt mér hér hljóðs. Af stjórnarskrárlegum „prinsip-ástæðum“ getur 4. gr. ekki staðið svo sem hæstv. fjmrh. hefur lagt til í þessu frv. til laga. En hann hefur gefið fyrirheit um að það sé hans vilji að þessu verði breytt í n. þannig að þolanlegt geti talist. Ég hygg að rétt sé að hinkra við og sjá í hvaða formi frvgr. verður þegar málið kemur úr fjh.- og viðskn.