11.12.1980
Neðri deild: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hér hafa málsvarar stjórnarandstöðuflokkanna, Sjálfstfl. og Alþfl., gert grein fyrir afstöðu sinni til þess frv. til l. um heimildir til lántöku á árunum 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir sem hér er til umr. og flutt er af hæstv. fjmrh. í umboði ríkisstj. Ég kveð mér hljóðs til að láta í ljós undrun mína og gagnrýna harðlega að hæstv. fjmrh. sýnir ekki deildinni þá virðingu að sitja þennan fund nema með höppum og glöppum og hefur ekki sést hér tengi nú. Báðir — og raunar allir — ræðumenn, sem hér hafa talað, hafa fjallað efnislega um málið og gert ýmsar aths. Það er lágmarkskrafa að hæstv. ráðh. sé í salnum á meðan þessar umr. fara fram.

Athygli hefur verið vakin á því, að aðrir ráðh. hafa neitað að koma hér á fund, en lágmarkskrafan ætti þó að vera sú, að sá ráðh., sem flytur frv. í nafni ríkisstj., sé hér viðstaddur. Ég tel ekki ástæðu til þess að halda þessum umr. áfram meðan hann er ekki hér í salnum. Og þótt hann gangi nú inn í salinn hefur hann misst af aths. málsvara stjórnarandstöðunnar sem hann er skyldur til að hlýða á og svara eftir atvikum. Ég ætla mér ekki að fara að ítreka eða endurtaka þessar aths., en ég gagnrýni hæstv. ráðh. harðlega fyrir að sinna ekki þingskyldu sinni og ekki ráðherraskyldu sinni og fylgjast með umr. um það mál sem hann hefur flutt í deildinni. Þetta er vanvirða sem hann sýnir Nd. Alþingis með framkomu sinni.