23.10.1980
Sameinað þing: 8. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Stöldrum við á þessari stundu og lítum á hvernig umhorfs er í þjóðfélagi okkar.

Verðbólgan geysist áfram hraðar en nokkru sinni fyrr. Hún ruglar allt verðskyn og allan atvinnurekstur og hún rýrir lífskjörin. Þótt hér sé full atvinna ríkir efnahagslegt öryggisleysi á hverju einasta heimili og í öllum atvinnurekstri. Þúsundir manna flýja land. Landflóttinn er harður dómur yfir stjórnarfarinu.

Við búum ekki einungis við ranga stefnu í atvinnumálum, heldur blasir óréttlætið og misréttið líka við á mörgum sviðum. Hér eru láglaunahópar með smánarlega lág laun. Hér eru aldraðir, sem þarfnast umönnunar, en fá ekki vist á heimilum eða stofnunum við sitt hæfi. Gamalt fólk og margir einstæðir foreldrar búa við mjög knöpp kjör. Ungt fólk, sem þarf að eignast þak yfir höfuðið, þrælar sér út í örvæntingarfullri baráttu við að koma sér fyrir.

Misréttið birtist líka í því, að greidd eru mishá laun fyrir hliðstæð störf, jafnvel á sama vinnustað, eftir því hvernig menn flokkast í verkalýðsfélög. Stórkostlegasti ójöfnuðurinn birtist vafalaust í lífeyrissjóðsmálum. Þar búa sumir við bærileg eða góð réttindi, en aðrir sitja eftir með smánarlega lítinn rétt eins og þeir væru þriðja flokks þjóðfélagsþegnar. Hér er á ferðinni ný og forkastanleg stéttaskipting, því að allir eiga að búa við öryggi í ellinni.

Þegar svona er umhorfs: óstjórnleg verðbólga, magnaður landflótti og misrétti blasir víða við, flytur hæstv. forsrh. okkur, þjóð sinni, stefnuræðu sem er fögur orð, en boðar enga stefnu, engin úrræði.

Þótt ekkert sé gert og engin samstaða um neinar aðgerðir, þá virðast ráðherrar una glaðir við sitt. Stefnumið þeirra eigin flokka eða árangur í starfi virðist ekki skipta þá máli. Alþb.-ráðherrunum virðist til að mynda líða ljómandi vel þótt alþýðan líði fyrir stjórnarhættina. Þeir ráðherrar sitja sem fastast þótt stefnumið flokks þeirra séu að engu gerð. Þeir Alþb.-menn voru til að mynda á móti Jan Mayen-samkomulaginu, en þeir sátu samt. Þeir eru á móti nýjum olíugeymum á Keflavíkurflugvelli sem hæstv. utanrrh. hefur ákveðið að reistir skuli, en þeir sitja samt. Þeir eru á móti samkomulagi um að íslensk flugfélög flytji vörur fyrir bandarísku varnarstöðina, en þeir sitja samt. En hvað boða þeir Alþb.-menn og hvað gera þeir í ríkisstj.? Jú, þeir hafa boðað kjaraskerðingu af völdum verðlagshækkana og þeir hafa staðið fyrir skattahækkunum og þá sérstaklega á hina lægst launuðu, — skattahækkunum sem rýra kjör alþýðunnar enn frekar. Fyrir kosningar töluðu þeir Alþb.-menn um sig sem sérstaka varðhunda um kjör fólksins. En í ríkisstj. boða þeir og framkvæma kjaraskerðingu.

Framsfl. vann sigur í seinustu kosningum út á þá stefnu, að telja ætti verðbólguna niður. En síðan framsóknarmenn settust í ríkisstj. hafa þeir bókstaflega ekkert gert í málinu og það sem verra er, verðbólgan hefur verið talin upp, en ekki niður. Ekkert hefur verið gert í niðurtalningarstefnunni, eins og Steingrímur Hermannsson viðurkenndi áðan. Aldrei hefur íslenskur stjórnmálaflokkur svikið kjósendur sína, stefnu sína og sjálfan sig jafnherfilega í jafnmikilsverðu máli. En þeir sitja í stjórnarstólunum, framsóknarmenn, þótt stefnan og málefnin séu fokin út í veður og vind. Í þessum efnum er jafnt á komið með Framsókn og Alþb. Er nema von að vantrú sé á stjórnmálamönnum þegar þeir haga sér svona, taka þægindi stjórnarsetunnar fram yfir málefni, stefnu og árangur?

Sumir eru þannig gerðir, að þeir kenna öðrum um eigin ófarir. Þetta tíðka stjórnarsinnar. Þeir kenna t.d. Alþfl. um ástandið í vaxta- og lánamálum. En ég spyr: Hver nema ríkisstj. hefur framkvæmdina á hendi og ber því ábyrgð á henni? Hafa ekki mennirnir haft stjórnaraðstöðu og meiri hl. á Alþ. í bráðum níu mánuði? Þeim er í lófa lagið að breyta hverju sem þeir vilja. Ríkisstjórnin og ríkisstjórnin ein ber ábyrgð á framkvæmd vaxtastefnunnar. En ríkisstj. er svo sannarlega ekki að framkvæma vaxta- eða efnahagsstefnu Alþfl. Stefna okkar er og verður sú, að verðbólgan verði að koma niður á móti vöxtunum. Stefna okkar var og er sú, að lengja þurfi lánstímann til að jafna og dreifa greiðslubyrði af lánum.

Hvorugt hefur ríkisstj. gert. Raunvaxtastefna er rétt, en ríkisstj. er ekki að framkvæma hana. En við skulum líka gæta að því, að þeir, sem segjast vera á móti raunvöxtum, vilja láta stela af sparifjáreigendum, sem einkanlega er gamalt fólk.

Lenging lána er mikilvægur þáttur raunhæfrar vaxtastefnu. Og ég segi það hiklaust, að það eru villimannlegar aðfarir að ætta ungu fólki, sem eignast þarf íbúð, að standa undir allt að 70% af íbúðarverðinu með skammtímalánum, snöpum og vinnuþrældómi. Svona aðfarir finnast hvergi í grannlöndum okkar. Samt var ríkisstj. á góðri leið með að eyðileggja frv. Magnúsar H. Magnússonar sem miðaði að endurbótum í þessum efnum. Og enn eigum við eftir að sjá hvernig framkvæmdin verður í reynd í höndum ríkisstj.

Fyrr á stjórnarferli sínum töluðu stjórnarsinnar um geymdan vanda og vildu kenna Alþfl. um, og eru þeir enn að. Ekkert er fjær sanni. Í stjórnartíð Alþfl. stefndi í jafnvægisátt og þá tókst með samstilltu átaki að draga mjög verulega úr verðbólguhraðanum. Þetta veit þjóðin, en þetta er líka staðfest af opinberum gögnum. Samkv. gögnum frá Þjóðhagsstofnun var verðbólguhraðinn 80% þegar ríkisstj. Alþfl. tók við störfum, en hann var 45% á ársgrundvelli á stjórnartímabili Alþfl. Og það er rangt, sem Steingrímur Hermannsson reyndi að halda fram hér áðan, að ríkisstj. Alþfl. hafi ekki veitt Seðlabankanum nauðsynlegar heimildir til gengisaðlögunar. Á hverjum tíma allan tímann hafði Seðlabankinn slíka heimild. Hitt ætti Steingrímur Hermannsson að muna, að núv. ríkisstj. setti allt fast í þessum efnum um leið og hún tók við störfum. Og það var þá sem vandi fiskvinnslunnar magnaðist. Þegar Steingrímur Hermannsson vill rekja vandann núna til fyrra árs, þá vil ég spyrja hvernig það megi þá vera, að fiskverð á seinni hluta fyrra árs og um áramót var samþykkt með atkvæðum allra í yfirnefnd Verðlagsráðs, líka með atkvæðum fiskvinnslunnar.

Alþfl. byggir stefnu sína á jafnaðarhugsjóninni. Við viljum aukinn jöfnuð og krefjumst þess, að efnahagslegt og félagslegt öryggi sitji í fyrirrúmi, en misréttið víki. Við teljum að þjóðfélagið eigi að móta eftir hugsjónum jafnaðar og lýðræðis. Þessa braut verður íslenskt þjóðfélag að feta, svo að það verði betra, traustara og réttlátara.

En það er ljóst, að undirstaða betra þjóðfélags, blómlegri íslenskrar menningar og almennra framfara er og verður skynsamleg atvinnumálastefna, — stefna sem hefur það að markmiði að treysta lífskjörin og gera land okkar sífellt byggilegra. Því miður hefur þessi ekki verið raunin.

Í fiskveiðimálum er ljóst að hafa verður hemil á stærð skipastólsins. Viðbætur við skipastólinn við núverandi aðstæður þýða meiri skömmtun og minna í hvern hlut. Þær rýra afkomu sjómanna, útgerðar og þjóðarinnar allrar: Núv. ríkisstj. hefur opnað flóðgátt fyrir skipainnflutning. Hve mörg skipin eru virðast stjórnarherrarnir ekki einu sinni vita sjálfir. Hér þarf því að hverfa aftur til þeirrar stefnu að takmarka stærð skipastólsins. Með því má bæta afkomu og lífskjör.

Í fiskiðnaði verðum við að standast síharðnandi samkeppni. Það verður best gert með tæknilegum framförum, hagræðingu og með bættum aðbúnaði verkafólks, sem víða er landinu og þjóðinni til smánar. Á seinasta ári jókst fjárfesting í fiskvinnslu um 20% að magni til, einkanlega í tæknibúnaði og endurbótum. Núv. ríkisstj. gerir ekki ráð fyrir neinni raunaukningu á þessu ári. Hún hefur hér horfið af framfarabraut. Óvíða munu þó hagvaxtarmöguleikar meiri en í fiskvinnslunni. Með uppbyggingu hennar getum við líka treyst lífskjörin.

Í landbúnaði búum við við mikla offramleiðslu og skattleggjum okkur sjálf til að greiða landbúnaðarvörur niður ofan í útlendinga. Gildandi kerfi hefur hvatt bændur eða jafnvel pínt bændur til að slíta sér út við að framleiða vöru sem þjóðin öll tekur á sig þungar byrðar til að selja. Með því að breyta þessu kerfi og takmarka framleiðslumagnið getum við rétt af okkur skattabyrðum og þannig bætt kjörin í landinu.

Um 90% virkjanlegra fallvatna renna óbeisluð til sjávar. Enn stærri hluti jarðvarmans er ónýttur. Á sama tíma hækkar orkuverð á alþjóðamarkaði ár frá ári, misseri eftir misseri. Í orku fallvatna og jarðvarma eigum við gífurlega auðlind. Þessi auður verður ekki að neinu gagni nema hann verði nýttur og þá nýttur til iðnaðarframleiðslu í orkufrekum iðnaði. Ekkert slíkt er á döfinni hjá ríkisstj., eins og menn hafa heyrt. Með uppbyggingu á þessu sviði má skapa ný atvinnutækifæri, stækka þjóðarkökuna og bæta þannig lífskjörin í landinu.

Í almennum iðnaði og verslun ríkir óvissa. Framleiðni er tág og framfarir eru stopular. Stjórnendur fyrirtækjanna eyða kröftum sínum í reddingar og verðlagsþras, en hafa takmarkaðan tíma í raunverulega frambeiðslustjórn eða framfarasókn. Á þessu sviði þarf ekki fleiri skýrslur. Á þessu sviði þarf að skapa almenn skilyrði til iðnþróunar með því að draga úr verðbólgu, bæta aðstöðu á lánamarkaði, endurskoða tollalöggjöf og verðlagskerfi og koma á raunverulegri hvatningu til nýsköpunar í rekstri og stjórnun. Með þessum hætti má auka framleiðni og treysta lífskjörin í landinu.

Með þeirri atvinnumálastefnu Alþfl., sem ég hef lýst, má gera Ísland byggilegra og brómlegra en það er nú. Þá yrði ekki landflótti. Með nýrri atvinnumálastefnu og jafnvægisstefnu í efnahagsmálum, sem Alþfl. hefur boðað, mundi óvissa og kviði víkja fyrir bjartari framtíðarsýn. Við Alþfl.-menn erum þess fullvissir, að á þessari stefnu Alþfl. má byggja hér traustara, betra og réttlátara þjóðfélag.

Við Alþfl.-menn viljum að þjóðin lifi í sátt við land sitt. Við viljum að markið sé sett hátt í framfarasókn og stefnt sé markvisst að meiri jöfnuði og dregið úr misrétti. Í þessari sókn til betra þjóðfélags dugar ekki lagasetningin ein, heldur þarf hugur að fylgja máli. Sem þjóð verðum við hvert og eitt okkar að gera ekki síður kröfur til sjálfra okkar heldur en á hendur öðrum. Og við verðum að hafa trú á landi okkar og getu okkar sjálfra sem þjóðar. Það stefnir til réttrar áttar og til bjartari tíma. Góðar stundir.