12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

1. mál, fjárlög 1981

Frsm. 2. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég verð nú að segja í upphafi, að hegðun hæstv. fjmrh. við þessa umr. er allundarleg. Hann óskar eftir því við hæstv. forseta að fá að gera stutta athugasemd, örstutta, orðaði hann, eftir að hv. þm. Lárus Jónsson lyki máli sínu. Það var borið undir mig og ég sá ekki ástæðu til að neita því. Að sjálfsögðu hefði hæstv. forseti getað úrskurðað það, að ráðh. fengi orðið, en hæstv. ráðh. sagði: í lengsta lagi fimm mínútur. Hann leyfir sér síðan að tala í nærri hálftíma. Og af hverju? Hann byrjaði á því að segja að stjórnarandstaðan væri bragðdauf hér í þessari umr. Þó sér hann ástæðu til að ryðjast hér inn í umr., áður en öllum frummælendum fyrir álitum hefur gefist tækifæri til að tala, og talar hér í hálftíma, sökum þeirrar gagnrýni sem fram kom á hæstv. ráðh. og ríkisstj. vegna fjárlagaafgreiðslunnar. Ég hygg að hér sé um einsdæmi af hálfu ráðh. að ræða, að ryðjast inn í umr. með þessum hætti áður en formælendum nál. hefur gefist tækifæri til að tala fyrir sínum nál. Það eitt út af fyrir sig sýnir hvað hæstv. ráðh. er órólegur einmitt vegna þess leiks sem hér er verið að leika að því er varðar afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1981. Ég hygg líka að aldrei hafi fyrr verið jafnmikil óvissa og óraunsæi í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og hér er nú ætlast til að Alþingi viðhafi. Og það er hæstv. fjmrh. sem er fremstur í flokki með að framkalla slíkt óraunsæi. Þess vegna er hann eins órólegur og raun ber vitni.

Ég vil, áður en lengra er haldið, nota þetta tækifæri til að þakka formanni fjvn., hv. þm. Geir Gunnarssyni, og öllum mínum meðnm., bæði í stjórnaraðstöðu og stjórnarandstöðu fyrir ágætt samstarf í nefndinni, svo og starfsmanni nefndarinnar og forstjóra hagsýslustofnunar. Ég verð að segja það, að hv. þm. Geir Gunnarsson er ekki öfundsverður af að standa í þeim sporum formanns fjvn. undir handarjaðri þessarar hæstv. ríkisstj., svo reikul, ráðvillt og úrræðalaus sem hún er að því er varðar afgreiðslu fjárlaga og efnahagsstefnuna í landinu yfirleitt. En þessi sómamaður hefur sinnt sínu hlutverki sem formaður mjög svo vel, þrátt fyrir þennan annmarka, undir handarjaðri þessarar hæstv. ríkisstj.

Við 1. umr. fjárlaga í haust var allrækilega vikið að því, hversu hæpnar forsendur fjárlagafrv. væru, en eins og hv. þm. er kunnugt byggir frv. á 42% verðhækkunum frá miðju þessu ári til sama tíma að ári. Þetta er byggt á ímynduðum efnahagsráðstöfunum hæstv. ríkisstj. sem enn hafa ekki fengist neinar upplýsingar um þrátt fyrir margítrekaða eftirgrennslan svo vikum skiptir, m.a. ótal tilraunir utan dagskrár á hv. Alþingi til þess að knýja út úr hæstv. ráðh. svör um það, hvað hér ætti að gera í efnahagsmálum til þess að renna þeim stoðum undir forsendur fjárlagafrv. að þær væru trúverðugar. Það er auðvitað augljóst öllum sem vilja sjá, að forsendur fjárlagafrv., 42% verðlagshækkun frá miðju ári í ár til sama tíma að ári, eru óraunhæfar í alla staði fyrr en séð er hvaða ráðstafanir á að gera til að tryggja slíkar forsendur. Það liggur fyrir spá frá Þjóðhagsstofnun um 65% verðhækkun á sama tíma og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir 42% verðhækkun. Hverjum dettur í hug að trúa hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstj. frekar í þessum efnum en Þjóðhagsstofnun, ef litið er til reynslunnar?

Hæstv. fjmrh. hafði að forsendu fyrir sínu fyrsta fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár að verðhækkanir yrðu 31% frá upphafi árs til loka. Og hver er niðurstaðan? Reyndist þessi spá og forsenda hæstv. fjmrh. og ríkisstj. rétt? Nei, ekki aldeilis. Niðurstaðan er sú, að verðbólga yfirstandandi árs er a.m.k. 58% í staðinn fyrir 31% sem hæstv. fjmrh. þóttist geta spáð í sínu fjárlagafrv. Og hver trúir því í ljósi þessarar niðurstöðu, að forsendur þess fjárlagafrv., sem nú er verið að ræða við 2. umr., standist betur en hinar fyrri, ef menn taka mark á þeirri spá sem Þjóðhagsstofnun hefur fram sett og mér vitanlega enginn hefur vefengt?

Þau loforð, sem gefin voru fyrir um átta mánuðum í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. um niðurtalningu á verðbólgu, hafa leitt til þess sem kallast getur upptalning á verðbólgu. Það sýna staðreyndir og á móti því getur enginn mælt.

Ég held að enginn trúi því í raun og veru, að það sé ástæða til þess að ætla að óbreyttu ástandi — út frá öðru er ekki hægt að ganga meðan hæstv. ríkisstj. leggur ekki á borðið þau úrræði sem hún ætlar að beita í efnahagsmálum — að núverandi forsendur fjárlagafrv. standist. Ekkert hefur komið fram enn sem rennir stoðum undir þá fullyrðingu í fjárlagafrv., að verðhækkanir verði ekki nema 42% á komandi ári. Miklu líklegra og trúverðugra að allra dómi er að á næsta ári endurtaki sig það sama og gerðist í ár og kannske miklum mun verra.

Það er augljóst öllum, eða ætti a.m.k. að vera, að þegar verið er að fjalla um fjárlagagerð er nauðsynlegt — og lög mæla raunar svo fyrir — að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sé höfð í umfjölluninni meðan fjárlagafrv. er til meðferðar á Alþingi, þannig að menn sjái líka þann þátt málsins, og ekki er þess síður þörf þegar boðaðar eru ráðstafanir í efnahagsmálum til að treysta forsendur fjárlaganna. Hvorugt þetta hefur fengist fram þrátt fyrir margítrekaðar eftirgrennslanir. Þetta er lögbrot, hvað sem hæstv. ráðh. segir. Og það er táknrænt, að hæstv. ráðh. í ríkisstj. kemur hér í ræðustól á Alþingi og afsakar lögbrot sitt með því, að einhverjir aðrir hafi líka brotið lögin. Það er toppurinn á þjóðfélaginu sem hér rís upp á Alþingi með hinum ólíklegasta hætti til að afsaka framkomu sína, sem er lögbrot, með því að einhver annar hafi gert það líka. Þetta er nú öll reisnin yfir hæstv. fjmrh. í þeirri stöðu sem hann nú gegnir.

Það er dæmigert, að hæstv. ríkisstj. skuti bjóða Alþingi upp á það að neita því um upplýsingar, annars vegar um lánsfjáráætlun og hins vegar þær efnahafsráðstafanir sem hún sjálf hefur tekið fram í fjárlagafrv. að eigi að gera, en enginn veit hvort verða gerðar, hvenær eða með hvaða hætti. Þessu hefur verið neitað í margar vikur. Alþingi hefur margspurt um þetta og engin svör hafa fengist. Í lögum er einnig ákvæði um samráðsskyldu stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins. Margítrekað var hér á Alþingi og í umræðum á Alþýðusambandsþingi um það spurt og þess krafist, að hæstv. ríkisstj. gerði Alþýðusambandsþingi grein fyrir því, hverjar efnahagsráðstafanir hún hyggðist gera. Hæstv. ríkisstj. neitaði líka því þingi um upplýsingar. Í því efni er jafnræði milli Alþingis og Alþýðusambandsþings, neiið var hið sama hjá hæstv. ríkisstj. Að mínu viti er með ólíkindum sú fyrirlitning og lítilsvirðing, sem hæstv. ríkisstj. sýnir Alþingi og raunar þjóðinni allri með slíkri hegðan. Og það er dæmigert, að slíkt skuli margendurtaka sig í tíð núv. hæstv. ríkisstj.

Svo að vikið sé enn að fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni og því sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, þá hefur hæstv. ráðh. ekki þótt nóg að hafa það tryggt í lögum sem lagaskyldu að leggja lánsfjáráætlun fram nú við umræðu um fjárlög. Á bls. 168 í fjárlagafrv. sjálfu frá hæstv. ríkisstj. er loforð um það og sérstaklega tekið fram að í byrjun nóv. skuli fjárfestingar- og lánsfjáráætlun lögð fyrir Alþingi. En auðvitað var þetta svikið eins og flest annað í þessu máli. Og nú er upplýst að frágengin lánsfjáráætlun verður ekki lögð fyrir Alþingi fyrr en eftir áramót, líklega í janúarlok, þrátt fyrir lagaskylduna, þrátt fyrir fyrirheit og loforð hæstv. ráðh. í fjárlagafrv.

Og nú er lagt á borð hv. þm. frv. um lántökuheimildir sem nálgast það að verða neyðarlagasetning ef af verður, — neyðarlagasetning vegna þess, að hæstv. ríkisstj. stendur sig ekki í því sem henni ber að gera, að hafa slíka lánsfjáráætlun tilbúna til umfjöllunar jafnhliða fjárlagafrv.

Því er auðvitað haldið fram — og líklega að einhverju leyti, kannske miklu, með rétti — að oft hafi verið óvissuþættir við afgreiðslu fjárlaga. Það skal ég ekki um segja. En ég fullyrði að þann tíma, sem ég hef haft afskipti af þessum málum, hafi aldrei slík óvissa verið um fjárlagaafgreiðsluna, forsendur fjárlaganna, eins og nú er. Kannske hafa þm. einhvern tíma afgreitt fjárlög með bundið fyrir annað augað. En mér sýnist að hér sé ætlast til þess, af þm. afgreiði fjárlög fyrir árið 1981 með bundið fyrir bæði augun og kannske meira en það. Það er langt gengið þegar stjórnvöld ætlast til þess af alþm., að þeir afgreiði slíka lagasmíð án þess að fá þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að þeir geti áttað sig á hvað um er að ræða og hvað verið er að gera.

Ég tel í raun og veru ekki sæmandi að ætlast til þess, að Alþingi afgreiði fjárlagafrv. án þess að fá í hendur bæði lánsfjáráætlunina og þær tillögur sem ríkisstj. er að undirbúa, ætlar að gera nú á næstunni eða einhvern tíma, í sambandi við úrræði í efnahagsmálum. Án þessara upplýsinga og án þessara gagna má segja að fjárlagagerðin fyrir árið 1981 verði algert pappírsgagn og að engu hafandi. Það er ljóst. Í raun og veru ætti Alþingi ekki að láta bjóða sér slíka málsmeðferð. Það ætti í raun og veru að segja: Hingað og ekki lengra, og neita afgreiðslu á þessari mikilsverðu löggjöf fyrr en þessar upplýsingar liggja fyrir. Það er ábyrgðarleysi og hefur illar afleiðingar ef staðið er að afgreiðslu fjárlaga eins og hér er ætlast til að þm. geri.

Líklega komast menn ekki hjá því að ræða þetta mál nokkuð, kannske ítarlega, þó að um hnúta sé búið eins og ég hef verið að lýsa. Auðvitað kemur margt til í sambandi við umræður og afgreiðslu fjárlaga. Eitt er það, að hæstv. fjmrh. boðar á næsta ári gengissig upp á 33%. Og hvað þýðir þetta? Eins og allir vita á sér stað um áramót myntbreyting. Þá gengur samkv. auglýsingum í gildi margfalt verðmætari króna en við nú höfum. En hvað þýðir þetta boðorð hæstv. fjmrh. um gengissig á næsta ári, 33%? Það þýðir það, að þessi nýja króna verður í lok næsta árs orðin að 67 aurum í besta falli, haldi fram sem horfir varðandi stefnu ríkisstj. Og ef við höldum áfram á sömu braut allt til loka yfirstandandi kjörtímabils verður þessi nýja og verðmæta króna, sem menn nú tala um á næsta ári, orðin að 30 aurum í lok yfirstandandi kjörtímabils. Hver hefur þá árangurinn orðið? Og engum er að sjálfsögðu um að kenna svona stefnu og svona útkomu öðrum en þeim sem ráða ferðinni um stjórn landsins. Þetta gerist beinlínis vegna þess að stjórnvöld, núv. hæstv. ríkisstj. gerir ekki þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru og til var ætlast að gerðar yrðu til þess að árangur í þessu efni næðist, og menn í raun og veru gerðu ráð fyrir þegar ákveðið var að gera þessa breytingu á gjaldmiðlinum. Og þetta er það besta — ég undirstrika það — þetta er það besta sem hægt er að búast við, verði haldið áfram á þeirri braut sem núv. hæstv. ríkisstj. er á. Vissulega getur það farið enn verr í höndunum á hæstv. ríkisstj. Það gera menn sér ljóst. Hér er um að ræða að mínu viti svo alvarleg og ábyrgðarlaus vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj., að því er þetta eina atriði varðar, að þjóðin öll hlýtur að horfa með hryllingi til næstu ára ef svo heldur fram sem horfir.

Ef aðeins er vikið að nokkrum þáttum þessa fjárlagafrv., þá er ljóst að hér er verðbólgufrv. á ferðinni. Um það þarf ekki að deila. Verðbólgufrv. er þetta og verðbólgufjárlög verða það sem afgreidd verða, verði þau afgreidd í því ástandi sem allt bendir nú til að gert verði.

Þá er ljóst að frv. boðar skattahækkanir. Allt bendir til að hækkun tekjuskatts verði a.m.k. 5 milljarðar á næsta ári. Í þessu fjárlagafrv. úir og grúir af alls konar vanáætluðum útgjaldaþáttum, svo tugum milljarða nemur, fyrir næsta ár. Sem dæmi má nefna að t.d. til sjúkra- og lífeyristrygginga vantar a.m.k. 18 milljarða til að þessir þættir trygginganna geti staðið undir því sem þeim ber að gera á næsta ári, — 18 milljarða í þessa tvo þætti í Tryggingastofnuninni. Það er líka ljóst að Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna fá a.m.k. 5 milljörðum kr. minni ráðstöfunartekjur á næsta ári en þeir hefðu fengið samkv. áður gildandi lögum um báða þessa sjóði. Auk þess er það ljóst, að því er varðar Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, að í algjört óefni stefnir um fjármögnun beggja sjóðanna. Það var upplýst við umræður um hið nýja húsnæðismálafrv., sem urðu hér fyrr á þessu ári, að með óbreyttri stefnu að því er varðaði fjármögnun sjóðanna vantaði 200 milljarða árið 1980 til þess að þeir gætu sinnt því verkefni sem þeim ber samkv. lögum. Og ástandið hefur versnað síðan, enginn efar það. Það þarf ekki að taka fram, svo augljóst er það.

Hér hef ég nefnt aðeins tvö dæmi um það, hvernig ástandið er varðandi óvissuþætti útgjalda. Ótalmörg fleiri dæmi mætti taka, mismunandi stór að vísu, en ótalmörg fleiri mætti nefna. Þá er augljóst að við þessa fjárlagaafgreiðslu verða margir stórir og brýnir málaflokkar líta úti. Ég nefni sem dæmi stóran málaflokk, brýnan og nauðsynlegan, sem er sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Heilbrmrn. taldi að til að sinna brýnustu verkefnum í þessum málaflokki þyrfti a.m.k. 7 milljarða á árinu 1981. Hér er talað um af hálfu hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþingis að veita í þetta 5 milljarða, tveimur milljörðum minna en brýnustu verkefni krefjast. Og það er a.m.k. öllum þm. dreifbýlisins ljóst, að verkefnin þar beinlínis æpa á fjármagn til að bæta úr brýnustu nauðsyn og hinu versta ástandi í heilsugæslumálum margra staða víðs vegar úti um land.

Ég vil aðeins taka það fram að ég gerði bókun í fjvn. vegna skiptingar og ráðstöfunar á fjárveitingum til þessa málaflokks og einnig vegna hins, að ég tel að ekki sé tekið það tillit til gildandi laga sem ber að gera. Eins og hv. þm. mun kunnugt er það ákvæði í gildandi lögum, að hinir verst settu staðir eigi að njóta forgangs um fjárveitingar í þessum lið. Ég tel að afgreiðsla fjvn. á þessum málaflokki sé ekki í þeim anda sem lög gera ráð fyrir. Ég tel líka, og ég hygg að svo sé um fleiri þm., að framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins sé farin að ganga of langt í sambandi við þennan málaflokk, því að hún er bæði farin að ráða fjárveitingartölunni á staðina og ráðsmennskast að miklu leyti með það, hvernig fjárveitingunum er varið á hinum ýmsu stöðum, og það er að mínu viti ekki í hennar verkahring. Með slíku ráðslagi er verið að draga úr höndum fjárveitingavaldsins það vald sem því ber.

Ég vil aðeins nefna sem dæmi um þetta byggingu sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar á Ísafirði. Þar eru heimamenn ekki virtir svars svo mánuðum skiptir, engin samráð höfð við þá og erindum þeirra ekki svarað. Þó eru þeir þátttakendur í kostnaði við þessar byggingar. Það er nauðsynlegt að mínu viti að fjárveitingavaldið grípi hér í taumana. Auðvitað má alltaf deila um úthlutun fjárveitinga, en það er lágmark að mínu viti að fjárveitingavaldið afsali sér ekki með þessum hætti ákvörðun bæði um upphæð fjárveitinga og ráðstöfun þess fjár sem til er til framkvæmdanna. Á þessu verður að gera bragarbót. Það hlýtur að vera skýlaus krafa þm. að varðandi þessa stofnun verði breytt um vinnubrögð frá því sem nú er. Ég hygg að þau vinnubrögð, sem þar hafa verið viðhöfð, verði ekki öllu lengur liðin. (Gripið fram í: Hvar er hæstv. fjmrh.?) Hann þoldi ekki meira. Hann er horfinn úr salnum. (Gripið fram í.) Það er gott samband á milli hv. þm. Framsfl. og kommúnista.

Ég vil einnig víkja að þeim þætti fjárlaga sem tekur til íþróttamannvirkja annarra en skólamannvirkja. Þar stóð svo á samkv. þeim upplýsingum sem við fengum, að til að sinna brýnustu verkefnum þurfti 1500 millj. kr. Er þar um að ræða að styrkja áhugamannastarfsemi, sem á sér stað víðs vegar um landið og kannske er þörf á að styðja í miklu meira mæli en gert hefur verið til þessa. Eins og málin standa núna ætlar hæstv. ríkisstj. að setja í þetta 700 millj., ekki helminginn af því sem þarf til að bæta úr brýnustu neyð.

Og ég nefni aðra íþróttastarfsemi í landinu. Mér er tjáð að það kosti á fjórða milljarð á næsta ári að reka íþróttastarfsemina í landinu. Ég held að það sé eitthvað milli 190 og ?00 millj. sem hér er verið að tala um að veita til þessarar starfsemi sem kostar á fjórða milljarð að reka. Og af þessum rekstrarkostnaði, sem er á fjórða milljarð, tekur ríkið til sín í tekjur á annan milljarð. Menn sjá á þessu hvernig farið er með þessa mjög svo sjálfsögðu og nauðsynlegu starfsemi vítt og breitt um landið.

Ég bendi á önnur skólamál og þá sérstaklega héraðsskóla og iðnskóla sem fá að mínu viti mjög slæma útreið við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1981.

Ég bendi líka á að samkv. frv. verður ekki eyri varið til nýrra framkvæmda í sveitarafvæðingu á árinu 1981, ef engin breyting verður hér gerð á. Það verða engar nýframkvæmdir í sveitarafvæðingu á árinu 1981, ef þau mál verða afgreidd hér eins og nú liggur fyrir að gera. Ég held að það sé gott að þm. almennt geri sér grein fyrir hvað það þýðir. Ég hygg að ef svo á að verða, þá verði að skera upp herör gagnvart ríkisstj. til þess að fá breytingar á því máli. Ég trúi ekki að menn uni því, að engin nýframkvæmd verði unnin í sveitarafvæðingu á næsta ári.

Þá vil ég við þessa umræðu vek ja sérstaka athygli á því, að í frv. er gert ráð fyrir að olíustyrkurinn, þ.e. jöfnun á húshitunarkostnaði, hækki aðeins um 25% á sama tíma og verið er að spá nær 70% verðbólgu á næsta ári. Hér er augsýnilega enn af hálfu hæstv. ríkisstj. verið að auka þær byrðar sem íbúar olíusvæðanna bera. Voru þær þó ærnar fyrir, a.m.k. að mínu viti. Og það er annað alvarlegt í þessu máli. Þessar tekjur, sem eru 1.5 söluskattsstig, eru eyrnamerktar þessu verkefni. Tekjur af 1.5 söluskattsstigi eiga að fara til þessa. En 1.5 söluskattsstig gefur 13 milljarða á næsta ári. Af því eiga einvörðungu 5 milljarðar að fara til þessa verkefnis, á mismuninn, 8 milljarða ætlar hæstv. ríkisstj. að taka í ríkissjóð til ráðstöfunar. Þetta er þó eyrnamarkað þessu tiltekna verkefni. Hér er verið að leika þann leik að leggja á olíusvæðin skatt sem sagt er að eigi að renna til jöfnunar á húshitunarkostnaði, en láta meginpartinn af honum renna í ríkishítina. Mér finnst hér leikinn ljótur leikur af hálfu hæstv. ríkisstj., að nota sér neyð þeirra einstaklinga, sem við þetta búa, með þessum hætti.

Þá vekur að sjálfsögðu athygli hv. þm. að á lið, sem heitir Önnur rekstrargjöld í fjárlagafrv., er gert ráð fyrir 57.2% hækkun á sama tíma og forsendur frv. eru byggðar á 42% hækkun. Það á greinilega að leggja vel í reksturinn á ríkisbákninu miðað við forsendur fjárlagafrv. varðandi aðra þætti.

Svona mætti halda áfram að telja upp tiltekin atriði, tiltekna málaflokka, til að sýna hvert stefnir og hvert óraunsæi er í umfjöllun, forsendum og allri málsmeðferð á frv. og þá væntanlega fjárlagaafgreiðslunni. Ég hef hér aðeins vikið að nokkrum atriðum sem ástæða væri til að taka til umfjöllunar, en hér eru mýmörg atriði sem mætti ræða um og kannske væri æskilegt að ræða um miðað við eðlilegar kringumstæður. Ég sé þó ekki ástæðu til að fara um þau öllu fleiri orðum vegna þess að enn standa mál þannig, að forsendurnar, sem hér eru lagðar til grundvallar, standast ekki. Þær eru nú þegar gersamlega brostnar. Fyrr en við fáum að sjá þá tvo meginþætti, sem að fjárlagaafgreiðslunni og efnahagsstefnunni í heild lúta, lánsfjáráætlunin og þær efnahagsráðstafanir sem hæstv. ríkisstj. ímyndar sér að kunni að verða gerðar einhvern tíma, — fyrr en það liggur fyrir er gersamlega útilokað að gera sér neina heildargrein fyrir því, hvernig fjárlagaafgreiðslan mun koma út eða fjárlögin fyrir árið 1981. Hér er því stefnt í óefni. Hér er verið að afgreiða pappírsplagg ef svona verður að málum staðið. Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. sjái svo um að ekki þurfi lengur að knýja á hennar dyr til þess að hún ljúki upp og leysi frá skjóðunni um þessar tvær meginforsendur fjárlagaafgreiðslunnar. Þær eru sá grundvöllur sem byggt er á og skiptir máli við endanlega afgreiðslu fjárlaganna fyrir komandi ár. Og það eru þessar tvær forsendur sem vantar.

Ég ítreka það svo, að verði ekki gerð grein fyrir þessum meginþáttum og lögð fram plögg þar að lútandi, þá er Alþingi sýnd meiri óvirðing en dæmi eru til um áður.

Ég skal herra forseti, fara að stytta mál mitt. Ég vil aðeins víkja að brtt. á þskj. 235, sem ég flyt fyrir hönd Alþfl. Þessar brtt. eru fluttar vegna þeirrar stefnu sem Alþfl. hefur í orði og í verki — meira en hægt er að segja um flesta aðra stjórnmálaflokka í landinu — að því er varðar skattamál og landbúnaðarmál.

Ég gat þess hér og því hafa þm. að sjálfsögðu gert sér grein fyrir, að enn hefur hæstv. ríkisstj. ekki fengist til að ráðstafa þeim 12 milljörðum sem hún ætlar til efnahagsráðstafana á komandi ári. Við þm. Alþfl. viljum því hlaupa undir bagga með hæstv. ríkisstj. og létta henni störfin við að skipta þessum 12 milljörðum til ráðstöfunar, fyrst hún treystir sér ekki til þess enn sem komið er að ákvarða með hvaða hætti það skuli gert.

Ég skal fara fljótt yfir sögu um brtt. á þskj. 236.

Það er í fyrsta lagi við 3. gr. varðandi tekjuskatt einstaklinga. Við leggjum til að þessi liður verði lækkaður um 13.8 milljarða, úr 56.2 milljörðum í 42.4 milljarða. Síðan kemur liður nr. 2, sem er einnig breyting við 3. gr., þ.e. að byggingarsjóðsgjald af tekjuskatti einstaklinga verði lækkað úr 840 í 640 millj., sem er 200 millj. kr. lækkun.

Þá er breyting við sjúkratryggingagjaldið, að í staðinn fyrir 10 milljarða 550 millj. komi 7 milljarðar 550, þ.e. lækkun um 3 milljarða. — Og þá kem ég að því aftur, að hér er annars vegar um að ræða þá stefnu Alþfl. að lækka, helst að afnema í áföngum tekjuskatt á launatekjur. Við höfum haldið því fram, að miðað við kringumstæður í þjóðfélaginu í dag sé það raunhæfasta kjarabótin til handa launafólki að lækka tekjuskatt. Þetta er till. um það. Annars vegar er till. um lækkun á sjúkratryggingagjaldinu, sem er ætlað að ná til þeirra sem höfðu það lágar tekjur að þeir höfðu ekki tekjuskatt. Það næðist til þeirra með lækkun sjúkratryggingagjaldsins.

Þá er 4. brtt. við 3. gr., sem er um tekjuskatt félaga, þ.e. að hækka þann lið úr 10 milljörðum 250 millj. í 12 milljarða 250 millj. Hér viljum við hlaupa undir bagga með hæstv. fjmrh. í margra ára baráttumáli hans að láta félögin borga meiri tekjuskatt en þau hafa gert. Ég minnist þess, að hæstv. núv. fjmrh. hefur flutt margar till. um að stórhækka tekjuskatt á félögum, en í hans ráðherratíð lítur dæmið þannig út, að á sama tíma og tekjuskattur launafólks hækkar um 47% ætlar hann að hækka tekjuskatt á félögum um 2%. Við viljum hjálpa hæstv. fjmrh. í þessu margra ára gamla baráttumáli hans að hækka tekjuskattinn á félögum. Við göngum að vísu ekki eins langt og hann hefur gert, en eigi að síður er þetta stuðningur við hans mál.

Í. 5. brtt. er gert ráð fyrir því að byggingarsjóðsgjald af tekjuskatti hækki úr 102 millj. í 122. Það er eðlileg afleiðing af því sem áður er gert.

Í sjötta lagi er það Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Þar er gert ráð fyrir 36.5 milljörðum. Hér er um að ræða að okkar mati vanáætlaða tölu um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Það hefur sýnt sig, að þessi liður hefur yfirlitt reynst hærri en gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum. Við leggjum því til, að liðurinn verði hækkaður um 3 milljarða, og teljum það raunhæft með tilliti til fenginnar reynslu.

Þá er komið að þeim þætti sem snýr að landbúnaðarmálunum. Alþfl. hefur verið ásakaður um fjandsamlega stefnu gagnvart landbúnaðinum. Ég sé að hv. þm. og bóndi Stefán Valgeirsson er nú sestur í sæti sitt og hlýðir væntanlega vel á. (SV: Ekki að ástæðulausu.) Það er rétt, það á að hlusta á gott mál. Hér er ekki um að ræða niðurskurð eða fjandsamlega stefnu gagnvart bændum, (SvH: Öðru nær.) Öðru nær já, oft ratast hv. þm. Sverri Hermannssyni satt orð á munn. Hér er um að ræða tilfærslu innan landbúnaðarþáttarins í fjárlagafrv., — tilfærslu, ekki niðurskurð nema að einu leytinu til, sem varðar útflutningsbætur á landbúnaðarvörur. Það hefur verið og er stefna Alþfl. að skynsamlegt sé að lækka þær upphæðir í áföngum. Nú er heimildin allt að 10%. Hér er lagt til að hún verði 9% og lækki þannig um eitt prósentustig.

Lagt er til í 7. brtt. að Jarðasjóður fái auknar tekjur. Jarðasjóður er til þess ætlaður að gera bændum, sem vilja hætta búskap, kleift að hætta. Skyldi það nú vera fjandsamlegt gagnvart bændastéttinni að gera þeim bændum, sem vilja hætta búskap, mögulegt að gera það? Nei, það er sannarlega ekki fjandsamlegt gagnvart bændastéttinni. Hér er lagt til að liðurinn hækki um 500 millj.

Í 8. brtt., sem fjallar um Veiðimálaskrifstofuna, er um það að ræða að hækka þann lið um 500 millj. Það er ljóst að sinna þarf betur ýmsum verkefnum þar að lútandi, og það viljum við styðja. Hér er því einungis um að ræða tilfærslu á annan þátt innan landbúnaðarmála.

Í 9. brtt. eru jarðræktarframlögin lækkuð. Miðað við þá stefnu, eða það ástand kannske frekar, sem nú er í landbúnaði, teljum við eðlilegt að draga úr aukinni túnarækt og beita aðgerðum til þess að hlúa að þeim hliðarbúgreinum sem menn eru nú að tala um og eru nauðsynlegar og eru taldar geta orðið bændastéttinni í heild og þjóðfélaginu þá um leið styrk stoð ef vel verður að þeim staðið.

Sama má raunar segja um 10. brtt., um framræsluna, og ég skal ekki hafa fleiri orð um hana.

Ég vék hér að úthlutun til uppbóta á landbúnaðarvörur áðan. Hér er 11. till. um 1.2 milljarða lækkun á þeim lið og er það í samræmi við þá stefnu, sem Alþfl. hefur haft og hefur, að skynsamlegt sé að draga úr þessu í áföngum.

Þá kemur 12. brtt., sem er nýr liður, stuðningur við nýjar búgreinar og ábatasamar hliðarbúgreinar. Hér er lagt til að taka inn 600 millj. til að sinna þessu mjög svo brýna, nauðsynlega og skynsamlega verkefni.

Þá er það 13. brtt., sem fjallar um Fiskifélag Íslands, þ.e. fiskræktardeild Fiskifélagsins, sem er mjög þörf stofnun. Lagt er til að hækka um 100 millj. framlag til þeirrar starfsemi.

14. brtt. er um Hafrannsóknastofnunina. Við leggjum til að hún fái 800 millj. til frumathugunar og undirbúnings á eldi sjávarfiska. Það mál hefur verið til umræðu í þinginu og er talið mjög svo stórt mál og ástæða til að ætla að það geti í framtíðinni gefið mjög mikla möguleika til þess að renna styrkari stoðum undir þjóðarbúskap okkar. Við teljum augljóst að því verki eigi að sinna, ekki í orði, heldur og á borði, og leggjum því til að til þessa verkefnis verði veittar 180 millj. kr.

Ég hef þá farið yfir þetta, að vísu í flýti, en í 15. og síðasta lagi — með tilliti til þess að við tökum ómakið af hæstv. ríkisstj. og ráðstöfum þeim 12 milljörðum sem hún treystir sér ekki til, þá leggjum við til í ljósi þess, sem hér er gert, að sá liður falli niður. Það er augljóst mál.

Eins og menn sjá af þessum brtt. er nokkur hluti af þeim þess eðlis, að þær koma ekki til ákvörðunar fyrr en við 3. umr. fjárlaga. Ég vil því herra forseti, strax taka það fram, að brtt. á þskj. 236 dreg ég til baka til 3. umr. Það sýnir þá stefnu sem við viljum gera tilraun til að koma að einhverju leyti inn í frv. Ég hef lýst því yfir, að eigi að afgreiða frv. með þeim hætti sem hæstv. ríkisstj. vill að verði gert, þá er hér gersamlega óraunhæft pappírsplagg. En við gerum þó tilraun til þess að koma einhverju lagi á nokkra tiltekna þætti frv., ef það mætti verða til þess að bæta, þó ekki væri nema að nokkru leyti, niðurstöður þess sem við erum hér að ræða um og ætlumst ábyggilega allir til að verði til hagsældar fyrir þjóðina í framtíðinni. Það verður ekki ef farið verður að þeim ráðum hæstv. ríkisstj. að afgreiða málið eins og það liggur nú fyrir.