12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

1. mál, fjárlög 1981

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Á þskj. 236 eru brtt., sem hv. þm. Karvel Pálmason talaði fyrir áðan. Ef maður á að taka bókstaflega ræðu hans og hv. þm. Árna Gunnarssonar eru þessar till. bornar fram af hreinum misskilningi, vegna þess að þeir þekkja ekki málið. Því sá ég mig til knúinn til að segja nokkur orð út af þessum tillögum.

Í jarðræktarlögum, sem voru samþykkt hér á hinu háa Alþingi 17. maí 1979, voru gerðar þær breytingar á eldri lögum sem ég vil rifja hér upp, með leyfi forseta:

„Heimilt er landbrh. í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands að ákveða eftirgreind frávik frá ákvæðum þessarar greinar á næstum 5 árum:

a) Að skerða framlög til nýrra vélgrafinna skurða samkv. lið 1 a) á jörðum sem hafa 30 hektara túnstærð allt að 50%. Framlög vegna dýpkunar skurða og endurframræstu túna haldist óbreytt.

b) Að skerða á sama hátt framlög til plógræsa samkv. lið 1 c).

c) Að skerða framlög til túnræktar samkv. lið II a) og b) á jörðum sem hafa 30 hektara túnstærð allt að 50%.

d) Að skerða framlög til grænfóðurræktar samkv. lið II d) allt að 50%.

e) Að fella niður framlög til hagaræktar samkv. lið II e) nema grætt sé upp gróðurvana land.

f) Að skerða framlög til áburðargeymslna samkv. V. lið.

Ákvæði þessi gilda um framlög til framkvæmda sem unnar kunna að verða á árunum 1979–1984.

Landbrh. gerir, að höfðu samráði við stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, tillögu til ríkisstj. um ráðstöfun á því fé sem sparast samkv. stafliðum a) — f) til annarra verkefna sem lúta að framkvæmd þeirrar stefnu sem mörkuð er fyrir landbúnaðinn, svo sem:

a) Til að styrkja nýjar tekjuöflunarleiðir bænda og auka fjölbreytni í framleiðslu búvara.

b) Til að stuðla að bættri heyverkun.

c) Til hvers konar hagræðingar sem orðið getur til að bæta tekjur bænda án framleiðsluaukningar í nautgripa- og sauðfjárrækt.“

Og svo segir: „Á árunum 1980–1985 skal á fjárlögum ætla til framkvæmda samkv. ákvæðum 10. gr., fjárhæð sem nemur meðaltali slíkra framlaga árin 1978 og 1979, á þá fjárhæð skal árlega greiða verðlagsuppbót í samræmi við ákvæði 1. mgr. þessarar greinar.“

Þegar þessi lög voru samþykkt var sýnilegt að draga yrði úr landbúnaðarframleiðslunni, og til að fá eitthvert fjármagn til að breyta um framleiðslu í sveitum landsins varð að samkomulagi hér í hv. Alþingi að breyta jarðræktarlögum eins og ég hef hér lesið.

Ef það hefði verið mikill áhugi á því að farið væri út í fiskrækt eða út í aukabúgreinar hefði verið eðlilegra að Alþfl. eða sá fulltrúi hans, sem á sæti í fjvn., hv. þm.

Karvel Pálmason, hefði lagt til að þessir liðir hækkuðu þannig að þeir hefðu þá fjárveitingu sem lög mæla fyrir um að þeir skuli hafa. En það skortir um 765 millj. á að það sé þannig. Verður að ætlast til að það verði leiðrétt á milli 2. og 3. umr.

Á s.l. ári hafa þeir fjármunir, sem þannig fengust samkvæmt jarðræktarlögum, verið notaðir einmitt til að byrja á fiskrækt, til að efla og setja á stofn loðdýrabú og ýmislegt þess háttar. Það eru t.d. nokkrir ungir menn núna úti í Noregi að læra fiskrækt og m.a. hefur verið tekið fjármagn af þessum peningum til að styrkja þá til náms. En hér ætlast hv. Alþfl.-þm. til að þetta fjármagn sé tekið úr höndum Stéttarsambandsins til annarra nota en var markað í því samkomulagi sem ég vitnaði til áðan. Þeir leggja til að jarðræktarframlagið lækki um 1 milljarð og rúmlega 287 millj. og framlagið til framræslu um 215 millj. Ef það er meiningin að breyta framleiðslu í sveitum landsins, eins og ég taldi að hefði verið samkomulag um, var þetta eina fjármagnið sem til þess var ætlað. Og það er í sjálfu sér dálitið merkilegt að þessir menn, sem hér hafa talað, hv. Alþfl.-menn, og hvatt til þess einmitt að þetta sé gert, leggja í raun og veru til að það fjármagn sé skorið niður sem átti að nota til að gera það sem þeir eru fyrst og fremst að tala fyrir að verði gert. Þannig er málflutningurinn.

Í öðru lagi leggja þeir til að uppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur verði lækkaðar um 1.2 milljarða. Nú vita allir að á meðan er verið að draga úr sauðfjárræktinni, sem er nú verið að rannsaka hvort sé þjóðhagslega hagkvæmt, kemur meira kjöt á markað en ef framleiðslan hefði verið í svipuðu horfi og áður. Sjálfsagt er ekki ætlast til þess, að þegar fækkað er sé því, sem slátrað er til viðbótar, hent. Ég geri ekki ráð fyrir því. Þannig er þessi till. alveg út í hött og eiginlega merkilegt að hún skuli koma hér fram, miðað við þá umræðu sem hefur farið fram um þessi mál á undanförnum árum.

Ég vek athygli á þessum lögum, sem eru ekki nema rúmlega ársgömul, og ég vek athygli á því samkomulagi, sem var gert um leið og þessi lagasetning. Það verður að ætlast til þess, að við það samkomulag verði að fullu staðið þannig að hægt sé að breyta framleiðslunni, það sé hægt að fá eitthvert fjármagn til að setja á stofn aðra framleiðslu en í hinum hefðbundnu búgreinum. Og það verður að ætlast til þess, að bændasamtökin hafi veg og vanda af því og ábyrgð á því ásamt landbrh. að ráðstafa þessu fé.