12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

1. mál, fjárlög 1981

Frsm. 2. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka til máls aftur við þessa umr., en það virðist vera orðin föst venja hæstv. fjmrh. við hverja fjárlagaumr. að koma hér í pontu í lok umr. og tala í þeim dúr að framkalla svo og svo mikla umr. í áframhaldi af þeirri ræðu. (Fjmrh.: Er þm. farið að syfja?) Nei, ekki aldeilis. Ég er reiðubúinn, hæstv. ráðh., til að tala við þig í alla nótt. En það vill nú svo til, að hæstv. ráðh. hefur setið hvað minnst undir umr. um fjárlög líklega af flestum, ef ekki öllum hv. þm. þannig að hann ætti ekki að tala í þessum dúr. Menn vita hversu lengi hann sat undir 2. umr. fjárl. fyrr á þessu ári, þegar hans fyrsta fjárlagafrv. var afgreitt, og hvernig ástandið var þá. Hæstv. fjmrh. ætti því að spara sér öll svigurmæli í sambandi við þessi mál.

En það tilefni sem hæstv. fjmrh. gaf til að ég kæmi hér upp, voru þau ummæli hans, að hann hefði gert samkomulag um það við mig að hann fengi að taka til máls í umr. eftir að hv. þm. Lárus Jónsson lyki sínu máli, og meira að segja sagði hæstv. fjmrh.: Meira að segja óskaði Karvel Pálmason eftir því, að ég yrði á undan honum. — Hver er sannleikurinn í þessu máli? Hver er sannleikurinn? Mér ofbýður alveg hvað hæstv. ráðh. getur verið blygðunarlaus og óskammfeilinn í umr. og orðræðum hér á Alþingi.

Sannleikurinn er sá, og nú höfða ég til hæstv. forseta, því að ég veit, að hæstv. forseti man allan þráðinn í þessari sögu, og ég veit, að hann segir það eitt sem er satt og rétt: Hæstv. forseti sagði mér frá því að hæstv. fjmrh. hefði óskað eftir að gera örstutta aths. vegna tiltekinna ummæla sem fram höfðu komið í ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar, hvort ég hefði nokkuð við það að athuga. Ég sagði að að sjálfsögðu mundi ég ekki vera andvígur því, að hæstv. ráðh. fengi að gera örstutta aths., því að mér væri ljóst að hæstv. forseti gæti, hvað sem ég segði, hleypt hæstv. ráðh. að, þannig að það væri ekki á mínu valdi að stöðva það, — en örstutta aths. Ég fór síðan til hæstv. fjmrh. og spurði hann gagngert að því, — og ég vænti þess, að hvað sem öðru líður viðurkenni hæstv. fjmrh. það, svo slæmur sé hann ekki þó slæmur sé í sumum tilvikum, að ég hafi spurt hann einmitt um þetta, — hvort hann ætlaði að tala lengi. Og hann svaraði orðrétt: „Ég tala aldrei yfir 5 mínútur.“ — Ég hafði ekkert sérstakt við það að athuga. Það mátti kannske flokkast undir örstutta aths. hjá hæstv. ráðh. að tala í 5 mínútur. En steininn tekur úr þegar hæstv. ráðh. er kominn hér upp og talar í nær hálfa klukkustund. (Fjmrh.: Nei.) Nei. Hann segir nei.

Það er, eins og fleiri hafa tekið eftir en ég, líklega einsdæmi í sögunni hér að hæstv. ráðh. fari með slíkum flumbrugangi inn í umr. eins og hæstv. fjmrh. gerði í dag, að ryðjast inn í umr. með þessum hætti á fölskum forsendum og fara þar á bak við hæstv. forseta. Ég vil á engan hátt saka hæstv. forseta um þetta því að þarna sveikst hæstv. fjmrh. aftan að bæði honum og mér.

Það vekur undrun í mínum huga að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér — það má nú víst ekki segja „ljúga“ hér í ræðustól, en að vera með slík helber ósannindi eins og hæstv. ráðh. viðhefur hér í ræðum. Ég hef að vísu búist við æðimiklu illu af sumum einstaklingum innan flokks hæstv. fjmrh. Sumir þeirra eru þó mjög góðir menn, eins og ég vitnaði um í dag og lít þá til hægri. En þegar slíkur málflutningur er viðhafður og það af ráðh. tekur, eins og menn segja fyrir vestan, steininn úr.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð. En það er ljóst að hæstv. ráðh. er ber að ósannindum í þessu máli. Ég höfða aftur til hæstv. forseta. Ég treysti dómgreind hans og veit að hann fer með það eitt sem satt er og rétt í þessu máli. Ég hef hér rakið það og taldi ástæðu til þess vegna þess, hvernig hæstv. fjmrh. hagar sér í umr.