12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

1. mál, fjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er alveg laukrétt hjá hv. þm., að í sambandi við framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins er aðeins um tvennt að velja. Annaðhvort verður að gjalda 15 milljarða til sjóðsins eða það verður að gera breytingu á lögunum um launaskatt. En ég vek athygli á því, að þetta er ekki eina tilvikið þegar þannig stendur á. Það eru fjöldamörg tilvik um það í þessu fjárlagafrv. að breyta þurfi lögum til þess að greiðslur úr ríkissjóði séu í fullu samræmi við lög. Þetta á t.d. við flestalla stofnlánasjóðina, þetta á við lögin um búfjárrækt og jarðræktarstyrki og þetta á við mjög marga þætti fastra lögbundinna framlaga úr ríkissjóði.

Það var að störfum nefnd, sem átti að fjalla um hugsanlegar breytingar á lögbundnum framlögum úr ríkissjóði, og í henni áttu sæti þm. úr öllum flokkum. Þessi nefnd komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að draga úr öllum hinum lögbundnu framlögum. Kannske voru nm. ekki nákvæmlega sammála í öllum tilvikum hversu mikið ætti að draga úr framlögunum í hverju einstöku tilviki, en þeir töldu þó að þessi framlög ættu öll að breytast. Það er gert í þessu frv. Það er gert ráð fyrir að þessum framlögum verði öllum breytt og þau stífð, þau skert töluvert umfram það sem lög gera ráð fyrir. Byggingarsjóður ríkisins er þarna engin undantekning, heldur er um það að ræða að hann fylgir reglunni hvað þetta snertir, þó vissulega verði að viðurkenna að skerðingin á framlaginu til Byggingarsjóðs sé hlutfallslega miklu, miklu meiri en skerðingin á framlögum til annarra stofnlánasjóða, einfaldlega vegna þess að framlagið til hans, sem áður var, gengur nú að verulegu leyti til Byggingarsjóðs verkamanna.

Ég minni á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem lagt er fram frv. sem gerir ráð fyrir öðrum framlögum til sjóða en lög gera ráð fyrir. Þannig var þetta á árinu 1980 og þannig var þetta líka á árinu 1979, og raunar má vafalaust finna mörg önnur fordæmi fyrir þessu. Í öllum tilvikum hefur þessu verið þannig háttað, að lög hafa verið flutt, að vísu yfirleitt samþykkt allmiklu seinna en sjálft fjárlagafrv., sem gerðu ráð fyrir þessum ákveðnu skerðingum. Í því tilviki, sem hér um ræðir, er nákvæmlega eins ástatt, að í væntanlegum lánsfjárlögum er gert ráð fyrir ákvæðum sem lögbindi upphæðirnar til stofnlánasjóðanna sem greindar eru í fjárlagafrv.

Það er vafalaust alveg rétt hjá hv. þm., að ráðh., sem ekki fara að lögum, ber að stefna fyrir landsdóm. Mönnum mætti því sýnast að þessir dómendur, sem verið hafa atvinnulausir í 62 ár og aldrei komið saman til fundar, færu nú að fá talsverð viðfangsefni. En ég ætla að vonast til þess, að ef Alþ. samþykkir fjárlagafrv. eins og það liggur nú fyrir og með þeim skerðingum á framlögum til fjárfestingarsjóða sem þar er gert ráð fyrir muni sami meiri hl. tryggja lagabreytingar svo að fullt samræmi verði á milli fjárlagaafgreiðslu og gildandi laga.