12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir að leyfa umræður utan dagskrár á annasömum degi. Ég mun ekki misnota velvilja forseta með því að setja hér á langa ræðu og vona að orð mín verði ekki til þess, að hér hefjist almenn umræða um það sem ég geri að umræðuefni.

Tilefni þess,að ég kveð mér hljóðs, eru ákveðin orð hæstv. forsrh. í útvarpsviðtali í fyrrakvöld. Í gær var þess farið á leit við hæstv. forsrh., að hann ræddi við okkur hér í hv. Nd. um ummæli sín, en á það gat hann ekki fallist.

Þess vegna er það, að ekki verður hjá því komist að trufla með þessum hætti 2. umr. fjárlagafrv. Raunar þarf ekkert að biðja afsökunar á því, svo mjög sem væntanlegar ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum hljóta að hafa áhrif á fjárlagagerð, en um þær væntanlegu ráðstafanir ætla ég einmitt að spyrja að gefnu tilefni.

Á undanförnum vikum hafa ótaldar tilraunir verið gerðar hér á hv. Alþingi til þess að fá upplýst hverjar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hygðist gera í efnahagsmálum fyrir næstu áramót eða þá í janúarmánuði. Engin svör hafa fengist við þessum spurningum. Af ummælum hæstv. forsrh. í nefndu útvarpsviðtali má þó ráða að einhverjar ráðstafanir verði gerðar þar sem hann segir það ásetning allra þeirra, sem að stjórninni standa, að reyna að ná saman um víðtækar efnahagsaðgerðir fyrir eða um áramót.

Nú er skammur tími til áramóta. Því verður að ætla að fyrirhugaðar ráðstafanir ríkisstj. séu komnar í þann búning að hægt sé að greina frá þeim í stærstu dráttum hér á hv. Alþingi. Því er hæstv. forsrh. beðinn enn einu sinni að greina þinginu frá því, hvað ríkisstj. hyggist fyrir.

Ef hæstv, forsrh. hins vegar telur sér ekki mögulegt að skýra frá þessu nú, þá spyr ég hann hvort hann muni gera það áður en þinghlé verður gert, sem væntanlega verður n.k. laugardag. Ef hann telur ekki horfur á því, þá spyr ég hvort ríkisstj. hyggist setja brbl. um meiri háttar efnahagsráðstafanir meðan þingið er ekki að störfum í desember — eða janúarmánuði n.k. Þessarar síðustu spurningar spyr ég að gefnu tilefni. Í áðurnefndu útvarpsviðtali í fyrradag er hæstv. forsrh. spurður hvort ráðstafanir hafi verið afgreiddar af ríkisstj. eða hvort slíkt muni bíða afgreiðslu Alþingis þegar það kemur saman í janúar. Þessum spurningum svarar hæstv. forsrh. á þá leið, að þær efnahagsaðgerðir, sem um sé rætt, séu margar þess eðlis, að það verði framkvæmdaatriði sem ekki þurfi lagabreytingar við, lagaheimildir séu til fyrir ýmsu sem til greina komi.

Látum nú þetta vera. Auðvitað getur ríkisstj. gert það sem hún vill hafi hún til þess heimildir. En hæstv. forsrh. bætt síðan við að það væri hugsanlegt að fá samþykkt síðar, þ.e, þegar Alþingi komi saman aftur. Hann bætir svo enn við að um þetta sé ekki hægt að fullyrða neitt í einstökum atriðum.

Með þessum orðum sínum lætur ráðh. að því liggja, að ríkisstj. muni gera það sem henni sýnist meðan þingið sé í fríi. Ef lagaheimildir skortir til aðgerðanna verði úr því bætt með brbl. Það er út af fyrir sig að tala digurbarkalega til þjóðarinnar í útvarpsviðtali þannig að almenningur velkist ekkert í vafa um það, hver það er sem ræður. En nú er að vita hvort hæstv. forsrh. vill skýra þessi orð sín eða endurtaka hér á sjálfri löggjafarsamkomunni. Því er að lokum endurtekin þessi spurning: Ætlar ríkisstj. að setja brbl. um efnahagsráðstafanir í þinghléi hafi hún ekki aflað sér nauðsynlegra lagaheimilda og telji sig ekki geta beðið þar til Alþingi kemur saman að nýju?

Mér þykir satt að segja ekki til of mikils mælst við hæstv. forsrh. að hann svari þessum spurningum nú. Þær eru einfaldar og ættu ekki að reynast honum erfiðar.