12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Núv. hæstv. ríkisstj. tók við störfum í byrjun febrúarmánaðar s.l. Á ellefta mánuð hafa þingið og þjóðin beðið eftir því að hún hefðist handa til að gera það sem hún sagði í upphafi febrúarmánaðar að hún ætlaði að gera. Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj., sem birtur var í febr., voru tilteknar aðgerðir boðaðar. Við höfum enga þeirra séð enn. Í fjárlagafrv., sem hæstv. ríkisstj. lagði fram í upphafi starfsferils síns á s.l. vetri, var fram tekið að hún mundi með sérstökum aðgerðum sjá til þess að verðbólga á yfirstandandi ári yrði ekki meiri en 31%. Slíkar aðgerðir hafa aldrei komið fram. Verðbólgan er nú á bilinu 55–60%.

Á s.l. vori birti Þjóðhagsstofnun spá um líklega verðlagsþróun á yfirstandandi ári. Hæstv. forsrh. mótmælti þeirri spá og sagði ríkisstj. vera með aðgerðir í undirbúningi sem mundu hnekkja spánni. Þær aðgerðir hefur enginn lifandi maður séð enn.

Skömmu fyrir þinglausnir á s.l. vori urðu hér harðar deilur um líklega þróun í efnahagsmálum, þar sem hæstv. forsrh. — mér liggur nærri við að segja: lagði heiður sinn að veði fyrir því, að það, sem haldið væri fram af öllum sérfræðistofnunum þjóðfélagsins um líklega efnahagsþróun á yfirstandandi ári, mundi ekki reynast rétt þar sem ríkisstj. væri með aðgerðir í undirbúningi er mundu hnekkja því. Þær aðgerðir hefur enginn lifandi maður séð.

Í sumar tóku blöðin við því hlutverki að spyrjast fyrir um aðgerðir hæstv. ríkisstj. Þau upplýstu að hæstv. ríkisstj. hefði skipað ráðherranefnd. Sú ráðherranefnd komst ekki að neinni niðurstöðu. Þau upplýstu að þegar ráðherranefndin hefði verið lögð niður hefði ríkisstj. skipað sérstaka efnahagsnefnd. Efnahagsnefndin gerði tillögur sem sagt var að mundu verða birtar eftir örfáa daga. Þær tillögur hefur enginn séð.

Nokkru síðar var skipuð sérstök undirnefnd ríkisstj. til þess að yfirfara tillögur efnahagsnefndarinnar. Sú undirnefnd hefur enn engum tillögum skilað. Og nú fyrir nokkrum vikum var enn ný ráðherranefnd skipuð í málið, sem enn er að störfum og enn er að undirbúa það sem átti að leggja fram í upphafi valdaferils ríkisstj. á síðasta þingi. Það er því alveg ljóst, að tal ríkisstj. um hlutina, sem séu alveg að koma, er gersamlega út í hött. Í ljós hefur komið að hæstv. ríkisstj. ræður ekki einu sinni við að koma frá sér venjubundnum verkefnum sínum sem lög mæla fyrir um að sérhver ríkisstj. skuli gera á tilteknum tíma. Dæmið er lánsfjárheimildafrv. og afgreiðsla ríkisstj. á þeim málum sem lögum samkv. eiga að leggjast fram með fjárlagafrv. og afgreiða á fyrir áramót. Ekki einu sinni lögskyldum verkefnum sínum getur hæstv. ríkisstj. sinnt, hvað þá öðrum.

S.l. miðvikudag voru formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar kvaddir á fund hæstv. forsrh. til þess, að hans ósk, að hafa samráð við hann og ríkisstj. hans um þinghaldið til jóla. Hæstv. forsrh. lagði fram á þessum fundi lista yfir öll þau mál sem ríkisstj. taldi nauðsynlegt að afgreiða fyrir jól. Þessi mál voru 21 að tölu. Þá kom í ljós í fyrsta sinn á öllu þessu þinghaldi að ríkisstj. var ekki búin á 11 mánuðum að komast að neinni niðurstöðu um, hvað hún ætlaði að gera, og óskaði ekki eftir því að fá eitt eða neitt af efnahagsúrræðum sínum afgreitt fyrir jól. Við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar lýstum því yfir, að við mundum leggja okkur fram um að greiða götu hæstv. ríkisstj. í flestu og við mundum greiða götu þess 21 máls sem ríkisstj. óskaði eftir að afgreidd yrðu. Aðrar óskir hafði hæstv. ríkisstj. ekki fram að færa.

Slíkt heiðursmannasamkomulag er mjög eðlilegt að gert sé um þinghald fram til jóla og um þinghlé, til þess að þingmenn þurfi ekki að eiga á hættu að þurfa að hætta við hálfnuð verk og geta ekki sinnt þeim viðfangsefnum sem löggjafarsamkoma þarf að sinna, þannig að ríkisstj. lendi í vandræðum við að stjórna landi í jólafríi þm. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Örskömmu eftir að þetta heiðursmannasamkomulag var gert við hæstv. forsrh. lét hann taka við sig viðtal í Ríkisútvarpinu þar sem ekki er hægt annað að segja en hann hafi fyllilega gefið það í skyn, að í kjölfar þessa heiðursmannasamkomulags við stjórnarandstöðuna sé það staðföst ákvörðun hans að beita bráðabirgðalagavaldi, þingmönnum gersamlega að óvörum, á þeim fáu dögum eftir áramót sem þeir verða fjarri þessum vinnustað. Ef hæstv. forsrh. getur ekki fullvissað okkur um að í hans huga nú og ríkisstj. sé alls ekki að stefna að neinni brbl.-setningu í janúarmánuði, — ef hæstv. forsrh. getur ekki fullvissað okkur um það nú, að slíkt sé á þessari stundu ekki ætlun hans og ríkisstj., þá tel ég að hæstv. forsrh. hafi með ómerkilegum hætti virt að vettugi drengskaparsamkomulag sem við hann var gert fyrir örfáum klukkustundum.