12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði sem mér þykir rétt að svara.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði að í gær hefði ég verið beðinn að svara utan dagskrár fsp. út af fréttaviðtali við mig þá kvöldið áður. Þetta er mjög málum blandað og í raun ekki rétt frá sagt. Ég minnist þess ekki, að ég hafi nokkurn tíma neitað að svara fsp. í þingi utan dagskrár þegar þær hafa verið bornar fram með eðlilegum vinnubrögðum og með eðlilegum fyrirvara. En það vita allir hv. þm., að þegar þess er óskað, að ráðh. svari utan dagskrár, þá er — auk þess að fá leyfi forseta til þess — ráðh. tilkynnt það, ég held undantekningarlítið eða undantekningarlaust fyrir hádegi sama dag.

Það, sem gerðist í gær, var að um kl. 4, þegar ég var á fundi uppi í stjórnarráði, er hringt til mín í ofboði og þess krafist að ég komi þegar í stað niður í þing til að svara fsp. frá hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen í Nd. út af þessum þætti. Auðvitað neitaði ég þessu, því að það eru engir mannasiðir eða þingsiðir að krefjast slíkrar umr. utan dagskrár og svara ráðh. fyrirvaralaust. Þar að auki var þetta mál með þeim hætti undarlegt, að hv. þm. Ólafur G. Einarsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, var hjá mér uppi í stjórnarráði í gærmorgun, við áttum fund saman þá rúmum hálfum sólarhring eftir að ég hafði átt viðtal við útvarpið. Ekki minntist hann á það einu orði, að nokkur ástæða væri til þess að spyrja hér í Alþingi eitthvað út af því. Þetta hefur því líklega komið til síðdegis. Og kannske er sú skýring nærtækust, sem sumir hafa getið sér til, að hv. þm. Ólafur G. Einarsson hafi, eftir að hann gerði samkomulagið í fyrradag við okkur og hafði ekkert að athuga við fréttaviðtalið við mig í gærmorgun, — þá hafi hann eftir hádegi í gær kannske fengið bágt fyrir hjá einhverjum samþm. sínum eða flokksbræðrum fyrir að hafa leyft sér að semja á þennan hátt við ríkisstj.

Ég vil mótmæla því, að ég hafi neitað að svara fsp. utan dagskrár. Það er eingöngu vegna þess að þetta er borið fram með gersamlega óþinglegum hætti og þvert ofan í allar venjur.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson leyfir sér að viðhafa hér þau orð, að í kjölfar þess sem er kallað heiðursmannasamkomulag í fyrradag hafi ég með ómerkilegum hætti virt að vettugi drengskaparsamkomulag. Hvað er hv. þm. að fara? Fyrir þrem dögum sendi ég formönnum allra þingflokkanna skrá yfir 21 þingmál sem ríkisstj. óskaði eftir að fá afgreidd fyrir jól. Eftir að þeir höfðu haft þetta mál til meðferðar og getað athugað það óskaði ég eftir fundi með þeim í fyrradag. Þá höfðu þeir haft nærri sólarhring til þess að kanna málið. Ég skýrði þá þessa ósk okkar, og ég verð að segja það þessum tveim heiðursmönnum til hróss, að þeir tóku þessu ákaflega vel, sögðust ekkert sjá athugavert við það og hétu að standa að því að hægt væri með þinglegum hætti að afgreiða þessi mál, þó að þeir væru auðvitað, eins og alltaf, efnislega andvígir einhverjum þessara mála. á þessum fundi minntist hvorugur þeirra einu orði á að það væri skilyrði fyrir þessu samkomulagi, að ríkisstj. skýrði fyrir jólahlé frá fyrirhuguðum efnahagsráðstöfunum. Það hefur ekki verið minnst á það einu einasta orði, að það væri skilyrði að ríkisstj. gæfi ekki út brbl. í þessu þinghléi, — ekki minnst á það einu orði. Svo leyfir þessi hv. þm. sér að koma hér upp í ræðustól — og mun hafa haldið hér ræðu í Nd. í gær og talað í útvarp — með þessar gersamlegu ástæðulausu ásakanir og ómaklegu í minn garð, órökstuddar með öllu. Þetta er eitthvað sem hv. þingmaður eða kannske þessir tveir þingflokksformenn hafa báðir fundið út alllöngu eftir að þetta samkomulag var gert og eftir að ég átti viðtalið við útvarpið, vegna þess að einhverjum kann að hafa fundist — og það er ekki óhugsandi að einhverjum hafi fundist það — að þeir hafi gengið heldur langt í því að gera þetta samkomulag sem ég tel að þeim beri lof fyrir.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason telur að brbl. — nú hef ég ekki í þessu fréttasamtali minnst einu orði á brbl. — en hv. þm. Vilmundur Gylfason telur að brbl. séu gersamlega úrelt og í rauninni ekki í samræmi við anda stjórnarskrárinnar eða okkar stjórnskipulags og í rauninni hreint neyðarúrræði. Það var nú þannig að hér var um stund, í tæpa 4 mánuði, ríkisstj. Alþfl., frá því í okt. og fram til febr., ríkisstj. Benedikts Gröndals. Á þeim stutta tíma sem hún starfaði kom hún því í verk að gefa út ekki ein, heldur níu brbl., sem ég held að sé algert met á jafnstuttum tíma. Og það vill nú svo til, að ein af þessum lögum voru gefin út af hæstv. þáv. dómsmrh., Vilmundi Gylfasyni. Hver er skýringin á þessu? Það er kannske eftir kenningu Vilmundar Gylfasonar, að hann lítur svo á að stjórnartímabil þeirra hafi verið eitt samfellt neyðarástand.

En fyrst ég er farinn að ræða við hv. þm. Vilmund Gylfason finnst mér skylt að minnast þess, að í Dagblaðinu í gær sendi hann mér kærar kveðjur í sambandi við taflmennsku o.fl., og er skylt að þakka þau vinsamlegu ummæli.