12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. síðasta ræðumanni verður tíðrætt um það, að ég hefi gefið í skyn í útvarpssamtali að gefin yrðu út brbl. í sambandi við efnahagsaðgerðir. Þetta er algerlega rangt og þessi rangtúlkun hans virðist vera grundvöllur að ræðuhöldum hans, löngum ræðuhöldum hér í Nd. í gær, ræðum hans í dag og stóryrðum hans í útvarpinu í gærkvöld. Það, sem ég sagði um þessi mál, var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, þegar spurt var um efnahagsaðgerðir:

„Efnahagsaðgerðirnar, sem um er rætt, eru margar þess eðlis, að þær eru framkvæmdaratriði sem ekki þarf lagabreytingar við. Lagaheimildir eru til fyrir ýmsu sem til greina kemur. Sumt er hugsanlegt að fá samþykkt síðar, þ.e. þegar Alþingi kemur saman aftur.“

Við hvað er átt eða haft í huga með þessu?

Við getum tekið dæmi. Í sambandi við kjarasamninga er t.d. iðulega samið um og ákveðnir vissir hlutir, sem síðar verður leitað til Alþingis um samþykkt á, án þess að það sé um nein brbl. að ræða. Við getum tekið sem dæmi að í sambandi við efnahagsaðgerðirnar væri vilji ríkisstj. að lækka skatta á t.d. lágtekjufólki, eins og margir hafa óskað eftir, bæði verkalýðssamtök og ýmsir aðrir. Ef slíkt ætti að vera liður í efnahagsaðgerðum er auðvitað auðveld leið að ríkisstj. leggi fyrir Alþingi, þegar það kemur saman aftur, breyting í þessa átt á skattalögum.

Það er gersamlega heimildarlaust af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni eða öðrum að leggja þessi ummæli mín í útvarpinu út á þá leið, að ég sé að boða brbl. um eitt eða annað. Það er alrangt.

Með þessu er ég auðvitað ekki að útiloka, eins og ég tók fram í svari mínu áðan, að vitanlega hefur ríkisstj. — þegar þingi er frestað með samþykki þess sjálfs — heimild til þess að gefa út brbl. og þeim rétti getur hún ekki og vill ekki afsala sér.